Smáhesturinn á í mikilli innri baráttu þessa dagana. Hann veltir því fyrir sér hvort það sé bæði hægt að vera að tryllast yfir pallíettum (sem hann verður að eignast) og á sama tíma velta fyrir sér hvernig hann geti verið örlítið mínimalískari í öllum glundroðanum. Pallíettur og kampavín passa nefnilega ekki inn í 4.000 króna regluna sem smáhesturinn reynir að lifa eftir.
Mögulega er þessi innri barátta bara mannleg en hún getur valdið togstreitu og þegar togstreitan kemur þarf að skoða hana ofan í kjölinn. Rýna hana til gagns... eða eitthvað. Í síðustu viku var smáhesturinn mjög upptekinn af því að vera nægjusamur og var meira að segja byrjaður að pakka inn jólagjöfum sem hann keypti í sumar. Hann eldaði mat úr afgöngum og fór eins lítið út í búð og hann gat. Hann var bara alsæll í núinu og hlustaði á rás 1.
Svo kom helgi.
Þá þurfti hann nauðsynlega að fara í sænska móðurskipið IKEA að kaupa blöndunartæki og baðvask og um leið og hann steig fæti inn í verslunina yfirtók jólavíman hans innra sjálf. Hann varð stjórnlaus og áður en hann vissi af var hann farinn að gúffa í sig smákökum eins og enginn væri morgundagurinn. Allar pælingar um mínimalískan lífsstíl fuku út í veður og vind og hann steingleymdi því líka alveg að hann væri nú eiginlega í sykurbindindi.
Þegar hann kom að kassanum var hann ekki bara með baðvask og blöndunartæki heldur nýjar glærar krúsir (fyrir möndlur og hampfræ og CHIA-FRÆ) og rauð kerti. Það er náttúrlega ekki hægt að taka á móti desember nema tendra smá jólaljós á heimilinu – kommon.
Það að heimsækja móðurskipið, sem smáhesturinn elskar, gerði það að verkum að hann þurfti aðeins að kíkja meira í búðir – FATABÚÐIR. Áður en hann vissi af var hann kominn í pallíettutopp sem hann hreinlega varð að eignast og svo þurfti hann líka að eignast eitthvað fleira sem ekki verður talið upp hér.
Vondu fréttirnar eru að þetta er alls ekki að gerast í fyrsta skipti. Á þessum árstíma missir smáhesturinn alltaf stjórnina og langar í pallíettur. Í raun þyrfti að binda hann kirfilega niður á þessum árstíma ef vel ætti að vera. Þetta hefur nefnilega gerst á hverju einasta ári síðasta áratuginn eða svo. Þess vegna á hann eitt og annað í fataskápnum sem einungis er notað í skammdeginu. Stundum þurfa fötin bara að búa yfir þeim eiginleikum að geta keyrt upp stemninguna.
Hinar vondu fréttirnar eru að hann er nú ekki sá eini sem fékk þessa pallíettuhugmynd. Ættmóðir Kardashian- og Jenner-klansins hélt upp á 60 ára afmælið sitt á svipuðum tíma og smáhesturinn var í IKEA. Og þar var sko ekki verið að spara peninga og pallíettur heldur var allt klanið klætt í stíl. Great Gatsby-þema var í afmælinu og var afmælisbarnið sjálft í hvítum síðkjól með perlufestar og loðskinn en dæturnar tóku kampavínspallíetturnar alla leið. Það fylgdi reyndar ekki sögunni hvort það hafi verið gaman í þessu 260 milljóna teiti en við gefum okkur það. Hver er óhamingjusamur í pallíettum?