Smáhesturinn er að reyna að standa sig í barnauppeldinu og varð svona líka ánægður þegar hann hnaut um litla jólasokka með númerum sem hægt var að nota sem dagatal. Smáhesturinn sá fyrir sér hvað börnin yrðu þakklát og glöð þegar þau gægðust í sokk dagsins og þeirra biði eitthvað sniðugt. Fyrstu dagana gekk þetta svona líka vel. Smáhesturinn hafði keypt einhverja sleikipinna og svolítið súkkulaði sem upphitun áður en sniðugheitin byrjuðu fyrir alvöru og flugeldasýningin byrjaði.
Í dagatalið ætlaði smáhesturinn að lauma nokkuð mörgum samverustundum með sjálfum sér til þess að gera líf barnanna extra skemmtilegt. Þarna myndu allir í fjölskyldunni aldeilis fá að njóta sín og aðventan yrði að einu samfelldu ævintýri.
Þetta fór ekki alveg svona.
Í gær var fyrsta giggið í dagatalinu afhjúpað og smáhesturinn beið svona líka spenntur eftir viðbrögðunum en á miða, sem komið var haganlega í sokk númer 4, var boðið upp á kósíkvöld með öllu tilheyrandi. Þarna ætlaði smáhesturinn að sitja heilt kvöld í sófanum, án síma og tölvu, og njóta þess að vera andlega og líkamlega til staðar.
Viðbrögðin ollu nokkrum vonbrigðum.
Eldra barnið var reyndar mjög ánægt með dag 4 í dagatalinu en ekki er hægt að segja það sama um hið yngra. Því fannst þetta ömurlegasti dagatalsdagur sögunnar og varð vægast sagt öskureiður. Þegar hann var spurður að því hvað hann hefði frekar viljað fá stóð ekki á svörunum. Hann vildi leikföng, sælgæti og eitthvað sem væri svo eftirminnilegt að aldrei myndi ná að fenna yfir minningarnar.
Frá því þessi börn komu í heiminn hefur smáhesturinn lagt mikið upp úr því að þeim yrði kennt að iðka þakklæti. Reglulega hefur verið farið með þakkarbænir þar sem hver og einn hefur tækifæri til að láta ljós sitt skína og súmmera upp hvað var best þann daginn. Í þessum þakklætisbænum hefur lítið verið þakkað fyrir dót eða gjafir heldur hafa litlu hlutirnir verið í forgangi. Eins ótrúlega og það hljómar þá hefur alveg verið þakkað fyrir skólamatinn, gönguferðir, sundferðir og samveru. Þetta með dagatalið og viðbrögðin er því ekki í neinu sínki við allt þakklætið sem smáhesturinn hélt að væri í forgrunni.
Þar sem börnin eru ekki orðin sjálfráða hefur smáhesturinn ennþá nokkur ár upp á að hlaupa og getur nú tekið í taumana. Reglur verða hertar og refsiramminn þrengdur. Það á náttúrlega enginn að komast upp með neitt svona. Í þessum pælingum var smáhestinum bent á að setja húsverk í dagatalið og því verður farið að vinna með skúringar og ferðir út í rusl.
Vondu fréttirnar eru samt þær að smáhesturinn er nánast ófær um að fara sjálfur út í rusl. Þetta er bara eitt af því sem honum dettur bara aldrei í hug að gera fyrr en ógeðið er farið að flæða út úr ruslaskápnum. Og svo er hann líka mögulega versti skúrari sögunnar og náttúrlega allt of skapandi til að taka til.
Það er samt alltaf jafnóþægilegt þegar eitthvað eins og þetta springur í andlitið á fólki. Sérstaklega þar sem smáhesturinn stóð í þeirra trú að hann ætti þakklátustu og best upp öldu börn á plánetunni jörð. Jai baguan.