c

Pistlar:

21. desember 2015 kl. 19:16

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Vantar far upp í Víðidal?

Smáhesturinn á í bölvuðu basli með sjálfan sig þessa dagana. Honum líður nefnilega akkúrat núna eins og fólki líður yfirleitt annan í jólum. Ástandið er svona eins og þegar fólk er búið að ofstöffa sig af allt of góðum mat og langar varla til að lifa lengur vegna ofgnóttar.

Það verður að játast hér með að það er ekki alveg eðlilegt að vera kominn á þennan stað fimm dögum fyrir jól. Eins og staðan er núna þyrfti helst að keyra með smáhestinn upp í Víðidal og láta lóga honum eða finna nýja leið til að víra saman á honum kjaftinn þannig að ekkert kæmist inn fyrir hans varir nema alveg tær vökvi (eins og til dæmis vatn).

Eftir að smáhesturinn fór að lyfta lóðum og iðka sykurleysi af mikilli hjartans lyst hefur þolið fyrir óhollustu aukist svo hryllilega mikið að þetta jaðrar við að vera vandamál. Í hvert skipti sem hann „brýtur“ eigin reglur og stöffar sig með sætabrauði og súkkulaði verður líkamleg og andleg líðan svo slæm að hún jaðrar við hættumörk.

Smáhesturinn er reyndar ekki ennþá kominn í jólaölið en hann tók svo hraustlega á því með söruáti í vikunni að hann var að hugsa um að reyna að fá innlögn á einhverja stofnun.

Þegar smáhesturinn druslaðist á leikfimisæfingar í vikunni fannst honum hann ekki geta neitt og allt varð eitthvað ómögulegt. Sjálfstraustið alveg í kjallaranum og allt það.

Og þegar smáhesturinn þurfti í alvörunni að hugsa sig um áður en hann staðfesti komu sína í teiti þá hugsaði hann með sér að eitthvað væri að. Þá áttaði hann sig á því að átið væri að leika hann svo grátt að hann væri að missa lífsviljann. Að vilja frekar vera heima uppi í sófa að horfa á sjónvarpið en að hitta vini sína er ekki alveg nógu gott og í raun alveg úr karakter. Það er að segja ef smáhesturinn hefur einhvern karakter yfirhöfuð.

Smáhesturinn er því kominn í „létta sultun“ fyrir jólin svo það þurfi ekki að keyra hann upp í Víðidal. Það skiptir nefnilega máli að geta tekið á móti nýju ári með bros á vör og með hjartað fullt af þakklæti. Og þó vandamálin flokkist öll sem fyrsta heims vandamál þá verður samt að tala um þau – og þið sem kannist við þetta vitið núna að þið eruð ekki ein. Jai Baguan.