Þegar húsmóðirin í 108 var lítil stelpa voru henni kenndir ýmsir mannasiðir sem hún hefur reynt að hafa í forgrunni í lífi sínu. Henni var til dæmis kennt að hún mætti aldrei hringja í fólk á matmálstímum, eftir klukkan tíu á kvöldin eða fyrir klukkan tíu á morgnana um helgar. Henni var líka kennt að bera virðingu fyrir eigum annarra og að hún ætti ekki erindi inn í annarra manna garða. Og að það væri bannað að kíkja á glugga hjá fólki.
Þessar reglur um símhringingar á ókristilegum tímum virðast ekki vera í gildi hjá tryggingasölufólki og fleirum sem vilja ólmir pranga inn á húsmóðurina betri dílum. Það hefur hvarflað að henni að það sé verið að leggja hana í kefisbundið einelti því í hana er hringt mörgum sinnum í hverri einustu viku.
Húsmóðirin hefur reynt að vera kurteis og reynt að skella ekki á fólk í hvert skipti sem það hringir (það tekst reyndar ekki alveg alltaf). Stundum hefur hún neyðst til að setja símann á „speaker“ til að leyfa sínum nánasta að njóta áheyrnarinnar. Það er nefnilega pínulítið eins og þessi hópur sé allur á örvandi ólöglegum efnum. Þeim liggur mikið á hjarta og útiröddin er notuð óspart sem getur verið ansi spaugilegt á köflum.
Þegar símtölin komast á það stig að sölumennirnir vilji hitta húsmóðurina þá fríkar hún yfirleitt út og neyðist til að ýta á rauða takkann á símanum (án þess að kveðja). Sem er náttúrlega argasti dónaskapur...
Verst er þó þegar fólk mætir heim til húsmóðurinnar til að reyna að selja henni eitthvað. Í dag tíðkast það ekki að fólk droppi við og því kippist hún alltaf við þegar dyrabjallan hringir. Og af því að það er svo hryllilega dónalegt að líta út um gluggann í forstofunni og opna ekki þá hefur það alveg hvarflað að henni að fá sér myndavélakerfi svo hún geti skoðað þá sem banka upp á í rólegheitum á meðan hún tekur ákvörðun hvort hún fari til dyra eða ekki.
Á mánudaginn var, þegar þjóðin flykktist á Austurvöll til að mótmæla, ákvað húsmóðirin að fara frekar heim til sín eftir vinnu og gefa börnunum sínum kjarngóðan kvöldverð. Börn hafa heldur ekkert að gera á mótmæli þótt foreldrum sé misboðið. Þegar húsmóðirin keyrði inn götuna sá hún að bleikklædd miðaldra kona stóð í innkeyrslunni heima hjá henni og stefndi í átt að húsinu. Þegar sú bleikklædda áttaði sig á því að húsmóðirin væri að taka stefnu inn í innkeyrsluna á sínum einkabíl reyndi hún að forða sér. Húsmóðirin skrúfaði því niður rúðuna og spurði þá bleikklæddu hvort það væri eitthvað hægt að hjálpa henni.
Hún varð vandræðaleg, eins og fólk verður þegar það er „böstað“ við að kíkja á glugga hjá nágrannanum. Sú bleikklædda gaf þær skýringar að hún byggi í risastóru húsi í næstu götu og væri alltaf á höttunum eftir minni fasteign. Hún hefði séð að hér væru framkvæmdir í gangi og... (sem gerði það að verkum að forvitnin bar hana ofurliði með þeim afleiðingum að augun rötuðu á glugga húsmóðurinnar – en hún sagði það ekki upphátt blessunin).
Eftir þetta hefur húsmóðirin verið hugsi. Börnin hafa líka tekið þetta inn á sig og þegar þau fara í háttinn á kvöldin spyrja þau: „Mamma, ætli hún sé á glugganum hjá okkur núna?“