Haustið er tíminn til að núllstilla sig eftir vellystingar sumarsins og taka upp betri venjur í eitt skipti fyrir öll. Haustið var samt ekki skollið á af fullum þunga þegar fólk talaði um það í fjarskiptaheiminum hvað það vantaði marga tíma í sólarhringinn og hvað tilveran væri eitthvað bugandi. Það bara kæmist ekki yfir að gera allt sem þyrfti að gera og einhver kvartaði yfir því hvað líf Facebook-vina virtist vera meira spennandi en líf þess sem skrifaði. Mér varð hugsað til Þórkötlu Aðalsteinsdóttur sálfræðings þegar ég las þetta því hér í Heilsublaðinu segir hún í viðtali að það skipti miklu máli að fólk dvelji í sínu eigin lífi – ekki annarra. Hún segir jafnframt að hreyfing sé eitt af lykilatriðunum ef fólki er annt um andlega heilsu.
Auðvitað á þetta að liggja ljóst fyrir en í öllum glundroða dagsins er auðvelt að bera sig saman við náungann og upplifa skort af einhverju tagi. Fjarskiptafíknin gerir það að verkum að við höldum að allir aðrir séu að gera það gott nema við. Ég minni því á að fæstir pósta einhverju þegar þeir eru staddir í kjallaranum – en þegar birtir til hefjast uppfærslur að nýju. Oft af aðeins of miklum krafti.
Eftir átta mánuði verð ég 40 ára og það sem ég er svo þakklát fyrir, fyrir utan náttúrlega að vera á lífi ennþá, er að ég er búin að læra svo margt. Til dæmis að það er ekki fræðilegur möguleiki að grennast með líkamsrækt einni og sér. Mataræði skiptir alltaf meginmáli. Og svo er ég líka búin að læra að það er eiginlega bara þrennt sem þarf að vera í þokkalegu lagi ef lífið á að vera í jafnvægi (þegar maður er kominn á þennan aldur pælir maður í jafnvægi, eins ömurlega og það hljómar). Ég þarf að fara á skikkanlegum tíma að sofa, borða sykur í lágmarki og hreyfa mig eitthvað smá á hverjum degi. Auk þess þarf ég að komast í sund nokkrum sinnum í viku, ekki til að synda heldur til að fara í heita pottinn, kalda pottinn og gufuna.
Þegar konur eru komnar á minn aldur eru hrísgrjónin nefnilega orðin fullsoðin og það eina sem maður getur gert er að vera ánægður með það sem maður hefur og njóta þess.
Það er þó aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt.
Eftir að hafa tekið viðtal við Heiðrúnu Finnsdóttur, sem endurfæddist eftir að hún byrjaði í pole fitness, hugsaði ég með mér að þetta væri nú eitthvað sem maður ætti að prófa. Ekki þó til að geta drýgt tekjurnar í framtíðinni í erlendum stórborgum heldur til að hafa gaman og flippa. Flipp er nefnilega ennþá svolítið vanmetið.