c

Pistlar:

6. júní 2017 kl. 13:40

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Leigubílstjóri nútímans

3e-1 - CopyLentuð þið aldrei í því fyrir hrun að leigubílstjórinn sem keyrði ykkur heim af djamminu talaði um hvað hann væri að græða mikið á hlutabréfakaupum? Og hvernig hann ætlaði að byggja upp stórveldi með einstökum hæfileikum á þessu sviði? Nei, kannski lentuð þið ekkert í þessu eftir að hafa drukkið kampavín úr bjórglasi á b5.

Enda er þetta eitthvað sem vandað og gott fólk segir ekki frá. Allavega ekki fólk með sjálfsvirðingu.

Nú finnst mér eins og leigubílstjóri síðasta góðæris sé kominn aftur á stjá. Hann er þó ekki að keyra fyllibyttur heim úr bænum heldur er hann að byggja upp stórveldi með stórfelldum kaupum á merkjavöru. Hann er sem sagt ekki á rúntinum – hann er að klæða sig í hverja merkjavöruflíkina á fætur annarri og á erfitt með að stoppa.

Þessi leigubílstjóri keyrir látlaust yfir á rauðu enda þarf að nota tímann meðan allt er svona ódýrt í útlöndum núna. Hann er í merkjavöru frá toppi til táar og gætir þess vel að öll lógó heimsins sjáist nú örugglega nægilega vel. Þegar hann er búinn að draga upp kortið og borga smellir hann af mynd og setur á alla samfélagsmiðlana í símanum sínum.

Leigubílstjóri þessa góðæris gætir þess vel að missa ekki af góðum kaupum. Hann er kannski ekki alltaf í útlöndum en er kominn upp á lag með að versla á netinu og fær góssið sent upp að dyrum af rauðklæddu fólki.

Það er bara eitt vandamál við þennan klæðaburð, að vera í merkjavöru frá toppi til táar með áberandi lógóum úti um allt, og það er að listrænir dansarar (sem dansa á nóttunni fyrir peninga) hafa tileinkað sér þennan fatastíl og þekkjast úr hópnum í kílómetra fjarlægð.

Það eru til dæmis bara dansarar og leigubílstjórar sem eru í Gucci-skóm við Gucci-tösku og Gucci-klút. Eða með Louis Vuitton-tösku við Chanel-bol, Chanel-skó og Burberry-trefil. Þeir sem eru hvorki dansarar né leigubílstjórar en vilja vera fínir þurfa því að pródúsera dressið svolítið og líta kannski tvisvar í spegil áður en farið er út úr húsi. Allavega ef þeir vilja líta út eins og gamlir peningar, ekki dansarar eða leigubílstjórar.

Ágæt regla er að vera bara með einn áberandi hlut í einu og mögulega taka af sér áður en farið er út úr húsi í stað þess að bæta á. Svo er sniðugt að velja sér það sem hjartað þráir – ekki það sem massinn er að hlaða ofan í körfurnar. Það gilda nefnilega ekki sömu reglur í Gucci og í Costco.

Ég átta mig vel á því að þetta kemur allt saman úr hörðustu átt því hér skrifar kona sem missti næstum unnusta í merkjavöru-outletti í útlöndum á dögunum.

Eftir margra ára góss-söfnun komst sú sem hér skrifar nefnilega að því að það er líka hægt að fá leið á nokkurra hundraða þúsunda tösku. Og það er líka erfitt að játa að það voru alvöru vonbrigði. Það vill náttúrlega enginn vera fáviti.

Í framhaldinu er hægt að spyrja sjálfan sig margra óþægilegra spurninga, eins og hvers vegna við kaupum okkur rándýra hluti? Er það vegna þess að við getum bara ekki lifað án þeirra og þeir gera líf okkar betra eða er merkjavara ígildi einkennisbúnings? Veitir merkjavara vörn fyrir umhverfinu? Ég veit ekki svarið en það er ekkert að því að hugsa þetta. Svona ef við höfum ekkert að gera á milli innkaupaferða.