Jólin eru býsna magnaður og ævintýralegur tími. Flestir eru fullir eftirvæntingar og leggja mikinn metnað í að hafa jólin sem flottust og best. Og mömmur þessa lands (og auðvitað stöku pabbar) leggja sig fram við að töfra fram heilan heim sem er fullur af ævintýrum, glimmeri og sykurhúðuðu stuði og þess gætt vel að lífsblómið sé vökvað. Þótt glassúrinn velli af jólahlaðborði lífsins þá getur þessi tími líka verið snúinn.
Jólaklisjan er náttúrlega þannig að allir séu glaðir og kátir, nóg sé til af öllu, ekkert skorti og allir fari saddir og sælir í háttinn á aðfangadag. Það er því miður ekki þannig allsstaðar.
Þótt jólin eigi að vera gleðihátíð mikil geta jólin verið hræðilega erfið. Það á ekki bara við um þá sem eiga við erfiðleika að stríða í lífinu heldur líka hjá þeim sem virðast vera með allt á hreinu.
Jólin eru til dæmis alveg sérkafli hjá skilnaðarbörnum og foreldrum þeirra. Auðvitað eru til milljón útgáfur af jólum skilnaðarbarna en algengt er á Íslandi að foreldrar skiptist á að hafa börnin hjá sér um jól og áramót. Það er að segja, ef börnin eru hjá móður á jólum eru þau hjá föður um áramót og öfugt. Svona rúllar þetta hjá flestum ár eftir ár þangað til börnin verða það stálpuð að þau halda sín eigin jól.
Ég hélt til dæmis að ég sem skilnaðarbarn sjálf gæti nú ekki klikkað á neinu þegar ég gekk sjálf í gegnum skilnað. Ég hélt ég hefði lært svo mikið af hjónaskilnaði foreldra minna að ég væri útlærð í faginu. En því miður er lífið ekki alveg svo einfalt. Við þurfum nefnilega að ganga sjálf í gegnum erfiðleika til að vaxa og þroskast. Við þroskumst ekki af erfiðleikum annarra og við lærum heldur ekki af þeim. Ef við gerðum það þá væru engin vandamál í heiminum.
Fyrstu jólin eftir minn skilnað voru börnin hjá mér og gat ég hjúfrað mig í foreldrahúsum með ungana mína og látið hugsa um okkur. Svo komu áramót og þá fór tvöfaldi fjársjóðurinn minn til pabba síns. Það var furðulegt að upplifa sanna áramótastemningu með þeim sem manni þykir vænt um en vera á sama tíma svo rosalega dapur því það vantar svo mikið þegar börnin eru ekki nálægt.
Þessi fyrstu skilnaðaráramót fór ég því heim snemma og var þessi sorglega týpa sem hékk á facebook á nýársnótt þangað til ég sofnaði í sófanum með tölvuna í fanginu. Það sem kom mér á óvart var hvað það voru margir online eins og ekkert væri eðlilegra. En kannski voru fleiri í áramótablús einir heima hjá sér. Hver veit?
Ári síðar ætlaði ég aldeilis að passa upp á að ég yrði ekki blúsuð og var að heiman um jólin. Ég var náttúrlega búin að gera ráð fyrir að ég yrði svo heilluð af gerviveröld Las Vegas að ég myndi finna minna fyrir söknuði. Allt gekk vel fyrstu dagana en á Þorláksmessu helltist söknuðurinn yfir. Ég reyndi að hugga mig í merkjavörumolli þar sem ég klappaði Louis Vuitton og Chanel töskum, en allt kom fyrir ekki. Blúsinn varð bara ennþá meiri. Það er nefnilega engin merkjavara eða lúxus sem getur bætt upp söknuðinn eftir því sem er manni kærast. Og þegar fólk saknar af öllu hjarta eru ekki til neinar töfralausnir. Fólk þarf bara að druslast í gegnum það og gangast við eigin eymd.
Það sem kom mér á óvart var að það hafði enginn minnst á það við mig að jólin gætu orðið furðuleg við skilnað og þau hættu ekki að vera furðuleg þótt tíminn liði. Þetta er svona svipað eins og með fæðingar. Það hafði aldrei neinn minnst á það við mig hvað gæti raunverulega gerst þegar kona er að reyna að koma barni í heiminn. Getur verið að það sé vegna þess að upplifanir fólks séu svo misjafnar og það sem er lítið mál fyrir einn sé stórmál fyrir annan? Eða er það vegna þess að ef við værum betur upplýst þá myndum við kannski ekki treysta okkur í þá vegferð sem lífið býður upp á?
Ef fólk er innstillt inn á að eiga gott líf og reyna að gera betur þá lærir það af lífinu og tekur ákvarðanir úr frá því. Ég veit til dæmis að það þýðir ekkert að dæla eingöngu dýrum gjöfum í börnin sín til þess að þau eigi gott líf og séu raunverulega hamingjusöm. Fólk þarf fyrst og fremst að vera til staðar fyrir þau og tala við þau. Gefa börnunum sínum tíma og leyfa sér stundum að hangsa. Það verður enginn verri manneskja af því.