c

Pistlar:

4. janúar 2018 kl. 8:59

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Keðjureykti og léttist um 25 kíló

Á þessum árstíma virðist maður einhvern veginn alltaf vera í sömu sporum. Búinn að borða yfir sig og leitar villuráfandi í myrkrinu að lausn lífsins.

Það er í raun furðulegt að þokkalega hugsandi fólk skuli fara svona með sig. Að troða látlaust í líkamann gerir það að verkum að leiðin til betra lífs verður ennþá þyngri í upphafi árs og einfaldara að draga bara sængina upp fyrir höfuð og éta vondu molana undir sænginni.

Klassískasta áramótaheit allra tíma er að taka sig taki í ræktinni á nýju ári, hætta öllu ofáti og verða ógurlega lekker fyrir sumarfríið. Því miður vaknar fólk yfirleitt upp við vondan draum í maí og áttar sig á því að lítið hefur gerst því planið sem gert var um áramótin var kannski ekki alveg nægilega vel skipulagt. Og kannski langaði okkur bara ekkert að breyta rútínunni okkar eða lífinu sjálfu.

Ég held að heilsutrend 2018 verði heiðarleiki. Að fólk fari að segja sjálfu sér satt og hætti að lifa í blekkingu. Það ætti að þykja frekar glatað að nenna að vera til ef líf manns hangir saman á lyginni einni saman. Er það ekki?

Ef við ætlum að ná markmiðum okkar þurfum við að skipuleggja hvern dag og það þarf að ákveða helst daginn áður hvenær við ætlum að hreyfa okkur og hvað við ætlum að borða. Ef markmiðið er að taka hvítan janúar eða sykurlausan skiptir máli að stilla lífinu þannig upp að þetta reyni minna á. Ef við ætlum að vera sykurlaus þurfum við að borða meiri fitu og borða minna af kolvetnum til þess að blóðsykurinn haldist jafnari. Það gerir það að verkum að okkur langar minna í sætindi. Gott er líka að hafa hollt nesti í töskunni eins og hnetumix eða egg sem hægt er að grípa í þegar við verðum svöng. Ef við ætlum að breytast í íþróttaálfinn í janúar skiptir máli að vera alltaf tilbúin og hafa æfingafötin með sér út í daginn. Um leið og við þurfum að fara heim að sækja þau þá eru meiri líkur á að við dettum út af sporinu. Ef við ætlum að ná markmiðum okkar þarf fókusinn að vera í lagi og um leið og við förum að svindla fer allt í sama farið aftur.

Fyrir allmörgum árum fór vinkona mín í einkaþjálfun og allt gekk ógurlega vel. Hún léttist og léttist og einkaþjálfarinn sem hún keypti þjónustu af var að vonum himinlifandi með árangurinn. Einkaþjálfarinn var þó ekki betri að lesa aðstæður en svo að hann áttaði sig ekki á því að vinkona mín hvarf nánast vegna vanlíðunar, ekki vegna framúrskarandi leikfimisæfinga. Hún hafði stuttu áður gengið í gegnum skilnað sem gerði það að verkum að henni leið svo illa, gat ekki borðað og varð að engu.

Vinkona mín uppskar mikið hrós vegna góðs árangurs í „ræktinni“ og allir vildu vita hvernig hún fór eiginlega að þessu. Einkaþjálfarinn fékk allt kreditið því á þessum tíma var heiðarleikinn ekki kominn í tísku og það þótti betra að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Ég er ekki viss hvernig áhugasama fólkið hefði brugðist við ef það hefði fengið að heyra sannleikann. Það segja nefnilega fáir alltaf alveg satt. „Ég hætti að borða og keðjureykti og léttist um 20 kíló,“ myndi náttúrlega aldrei neinn segja. Sem er synd. Lífið væri svo miklu áhugaverðara og betra ef allir létu bara vaða – sama hvað!