Lífsstílsvefurinn Smartland fór í loftið 5. maí 2011 og er því á áttunda ári. Frá fyrsta degi hefur vefurinn verið vinsæll lífsstílsvefur sem hefur sett áhugamál kvenna í forgrunn. Smartland hefur einbeitt sér að því að gefa konum rödd og draga fram jákvæðar hliðar mannlífsins. Ég hef alltaf hugsað Smartland sem sumardvalarstað, ákveðið fríríki, sem hægt er að leita í þegar við þurfum pásu frá lífinu.
Það þýðir þó ekki að boðið sé eingöngu upp á sykurhúðaðar glassúrfréttir alla daga heldur hefur Smartland þróast mikið síðan það fór í loftið. Í dag lesa til dæmis 40% karla Smartland þótt vefurinn sé upphaflega búinn til fyrir konur.
Fyrir tíu árum kviknaði hugmyndin um Smartland. Þá var Ísland nýhrunið vegna framgöngu gráðugra karla sem hafði alvarleg áhrif á allt samfélagið. Ég var til dæmis ein af þeim sem misstu vinnuna vegna niðurskurðar, ekki vegna leti og gosleysis. Ég ákvað að vinna frekar uppsagnarfrestinn í stað þess að liggja heima í fósturstellingunni. Ég vildi sýna stjórnendum hvað þeir voru að missa. En oft er það þannig að fólk veit ekki hvað það hefur átt fyrr en það hefur misst það. Þegar ég réð mig til starfa hjá Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins og Smartlands, fékk ég atvinnutilboð frá fyrri vinnuveitanda sem grátbað mig um að koma „aftur heim“.
Ég lærði margt af því að missa vinnuna. Ef ég hefði ekki misst hana hefði ég kannski ekki áttað mig á því að hver og einn hefur val um það hvort hann ætlar að vera í ljósinu eða í myrkrinu. Og ég hefði líklega ekki áttað mig á því að fólk sem nær langt vinnur yfirleitt ekki bara milli kl. 8 og 16 á daginn. Í ólgusjó ömurlegra frétta dag eftir dag hugsaði ég með mér að það þyrfti að vera til lífsstílsvefur sem væri svolítið léttur og sniðugur og það væri ekki verið að henda fólki fyrir strætó á hverjum degi. Það hvarflaði þó ekki að mér að slíkur vefur yrði jafnvinsæll og hann er en að jafnaði er Smartland með um 140.000 notendur á viku.
Þegar við ákváðum að gefa þetta blað út fannst mér mikilvægt að taka viðtöl við sterkar konur sem hafa farið sínar eigin leiðir í lífinu og upplifað eitthvað. Sunna Elvíra Þorkelsdóttir lögfræðingur segir frá breyttum aðstæðum í lífi sínu eftir að hún lenti í slysi í janúar á þessu ári. Hún er með þverlömun frá brjósti og niður og mun aldrei geta stigið aftur í fæturna. Hún ákvað að takast á við þessar breyttu aðstæður á sinn hátt og líta ekki í baksýnisspegilinn.
Ágústa Eva Erlendsdóttir er líka gott dæmi um sterka konu sem fer sínar eigin leiðir. Við kynntumst almennilega þegar við vorum dómarar í Ísland Got Talent og þá komst ég að því hvað er seigt í henni og hvað hún elskar mikið að sprengja upp aðstæður. Hún fór ekki í leiklistarskóla en var samt valin úr hópi 300 leikkvenna sem sóttust eftir þriðja stærsta hlutverkinu í nýrri HBO-þáttaröð sem sýnd verður um allan heim. Hún er þessa dagana í tökum í Noregi þar sem hún býr ein með börnin sín og vinnur fyrir salti í grautinn.
Ef það er eitthvað sem þessar konur geta kennt okkur hinum þá er það líklega að með dugnaði og þrautseigju er allt hægt. Sá sem er duglegur kemst úr sporunum – hinir sitja eftir.