c

Pistlar:

4. janúar 2019 kl. 11:32

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Karlarnir á sólbaðstofunni

Á þessum árstíma eru flestir staddir á svipuðum stað. Allt of saddir eftir gleði og glaum jóla og áramóta og þrá ekkert heitar en að koma lífi sínu í jafnvægi á ný. Það er hægt að fara ýmsar leiðir í átt að betra lífi og misjafnt hvað hentar hverjum. Einu sinni skellti fólk sér bara í einn ljósatíma ef það þurfti jafnvægi í líf sitt, en í dag þykir slík iðja ekki sérlega árangursrík.

Samstarfsmaður minn trúði mér fyrir því viku fyrir jól að hann dauðlangaði í einn ljósatíma. Ég spurði hvers vegna hann léti það ekki eftir sér en fékk það svar að konan hans myndi líklega skilja við hann og svo gæti hann ekki falið það. Gæti ekki mætt heim einn daginn ógurlega „tanaður“. Svo hann hætti við – vildi ekki stofna sambandinu í hættu.

Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar 18 ára ég vann á sólbaðsstofu. Á sólbaðsstofunni var líf og fjör og hægt að kaupa gulrótarkrem til að bera á sig fyrir ljósatímann til að verða extra brúnn og flottur. Þangað mætti allskonar fínt fólk, en líka karlar með undarlegar hvatir. Verst fannst mér þegar maðurinn hringdi og spurði hvort við þjónustuðum fatlaða. Ég kunni ekki við að segja nei og sagði honum bara að koma. Þegar maðurinn kom þurfti ég að hjálpa honum úr fötunum. Þegar ég var búin að koma honum úr öllu nema nærbuxunum vildi hann ólmur að ég klæddi hann úr þeim líka. Ég reyndi að útskýra fyrir honum að það væri aðeins of mikið og sagði að hann yrði bara að vera með nærbuxnafar. Ekki skánaði stemningin að ljósatíma loknum. Þá vildi maðurinn komast í sturtu, en 18 ára ég treysti sér bara alls ekki til að baða fullorðinn mann enda ekki sérstaklega þjálfuð til þess. Þá hófst annar „debat“ en það endaði með því að ég klæddi hann heitan og klístraðan í fötin aftur. Það sem var kannski verst er að eftir þessa uppákomu settist maðurinn upp í bíl og keyrði burt eins og fínn maður. Ekki var að sjá neinar sérstakar merkingar á bílnum þess efnis að maðurinn væri fatlaður.

Svo var annar meistari sem mætti reglulega en eitthvað fækkaði skiptunum eftir að ég stóð hann að því að njósna um berar konur sem lágu í ljósabekkjum sólbaðsstofunnar. Ég man ennþá eftir svipnum á honum þegar ég kom að honum þar sem hann lá nakinn í gólfinu og var að gægjast meðfram tjaldinu sem var fyrir klefanum. Það sem mér fannst svolítið skrýtið er að hann virtist ekki skammast sín þegar búið var að standa hann að verki og hélt áfram að mæta eins og um eðlilega hegðun væri að ræða, þótt hann kæmi kannski ekki eins oft. 18 ára ég reyndi að segja manninum, sem var líklega á sjötugsaldri, að svona hagaði fólk sér ekki en efast um að það hafi náð í gegn. Stuttu síðar hætti ég að vinna á sólbaðsstofunni og fór að vinna á bar. Þar lágu menn kannski ekki allsberir í gólfinu eða voru að biðja um að láta afklæða sig – þeir létu bara öðruvísi. Svona eins og fullir karlar láta þegar þeir eru búnir að sturta allt of mikið í sig! Það myndi ekki þykja í lagi í dag – en þótti normal þá og þessi 18 ára ég áttaði mig ekkert á því að þetta væri ekki í lagi.

Þegar 41 árs gamla ég fór að spyrjast fyrir um heilsutrendin 2019 fékk ég þau svör að ljósabekkir væru ekki á leið í móð aftur heldur yrði sjálfbært gegnsæi aðalmálið 2019. Því ber að fagna - gleðilegt 2019!