c

Pistlar:

20. nóvember 2019 kl. 17:13

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Átti nokkuð eftir að taka til?

Fasteignakaup geta tekið á fólk enda ekki á hverjum degi sem fólk höndlar með aleigu sína. Það er taugatrekkjandi að bjóða í íbúð, sérstaklega ef fólk á fasteign fyrir sem það á eftir að selja.

Einhvern veginn þarf þetta ferli að hanga saman og það getur kallað á þanin viðbrögð eins og Auður Jónsdóttir rithöfundur myndi segja. Til að minnka líkur á þöndum viðbrögðum þarf fólk að anda inn og anda út. Fólk tekur yfirleitt ekki góðar ákvarðanir þegar það er í uppnámi og því þarf að stilla sig af. Þetta er svona svipað og að senda ekki tölvupóst þegar fólk er í geðshræringu heldur sofa á hlutunum og geta þá svarað fólki skynsamlega.

Oft er það þannig að þegar fólk býður í íbúð þá er það inni í samningnum að það hafi 30 daga til að selja sína eign. Ef tilboð er samþykkt á eftir að gera allt eins og að taka til, láta mynda íbúðina, mögulega sótthreinsa veggina, taka til í geymslunni og setja peru í útiljósið. Þá hefst rússíbanaferð sem flestir þekkja sem hafa keypt og selt.

Ef ég ætti að gefa fólki eitt gott ráð, fyrir utan að taka Wim Hof-öndunaræfingar á hverjum degi í svona ferli, væri það að láta taka góðar ljósmyndir af fasteigninni. Það kostar vissulega eitthvað aukalega en alvörufasteignaljósmyndarar eru með allt önnur tól og tæki en áhugaljósmyndarar. Og þótt fólk sé með geggjaðan instagramreikning með fullt af góðum myndum þýðir það ekki að það geti ljósmyndað sjálft sína eigin íbúð. Þótt tæknin sé orðin mikil í símunum nær farsími aldrei sömu dýpt og alvöruljósmyndari með sín tæki og tól.

Inni á fasteignavef mbl.is sést þetta mjög vel þegar ljósmyndir af fasteignum eru skoðaðar. Sem betur fer er fólk að vakna og átta sig á að þetta skiptir máli. Síðustu ár hafa fasteignaljósmyndir batnað mjög en á tímum fótosjopps og annarrar tækni er samt heldur ekki gott ef myndirnar eru of mikið unnar því þá verður fólk sem kemur og skoðar fasteignina fyrir vonbrigðum. Ef fólk verður fyrir vonbrigðum er mun líklegra að það bjóði ekki í íbúðina.

Ein mest lesna frétt mbl.is árið 2013 fjallaði um fasteign í vesturbæ Reykjavíkur. Það er kannski ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að það var allt í drasli á myndunum. Fyrirsögnin var: Datt engum í hug að taka til? Þar hafði ljósmyndari, líklega áhugaljósmyndari, mætt heim til fólks og smellt myndum án þess að pæla sérstaklega í umhverfinu.

Á einni myndinni var þvottasnúra í bakgrunni, bjór á borðinu, matarleifar á diskum og svo sást glitta í rauðvínsflösku undir borði í rýminu við hliðina. Sá sem var að hugsa um að kaupa íbúðina þurfti væntanlega að hafa sig allan við til að skynja rýmið með því að útiloka matarleifar og annað smálegt. Annars seldist íbúðin á endanum en það tók töluvert langan tíma. Ef fólk þarf að selja innan ákveðins tímaramma er betra að leita til fagfólks.