c

Pistlar:

3. desember 2019 kl. 15:59

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Góðmennskan í öndunarvélinni Facebook

Aðventan gengur ekki bara út á að baka kökur, kaupa jólagjafir, skreyta heimilið, fylla belginn á jólahlaðborðum og gefa neysluorgíunni lausan tauminn.

Hinn eini sanni jólaandi snýst um að rækta mennskuna í sér og sýna náunganum hvað hjartastöðin er full af kærleika. Það gerum við með því að gleðja aðra og jafnvel gera eitthvert pínulítið gagn í leiðinni.

Það er heldur ekki verra að reyna að styðja við þá sem hafa orðið undir í lífinu vegna fátæktar eða fíknar.

Hægt er að fara ýmsar leiðir til að styðja við og ein af grundvallarreglunum er að láta gott af sér leiða án þess að auglýsa það sérstaklega. Það er eftirsóknarvert að hafa þroska og getu til að gera eitthvað fyrir annað fólk skilyrðislaust. Það væri óskandi að sem flestir gætu það.

Á dögum setti frú nokkur í einu af betri úthverfum Reykjavíkur færslu á Facebook. Eina af sirka átta eða 20 þann daginn enda heldur ákveðinn hópur miðaldra fólks að Facebook sé öndunarvél.

Þennan daginn lá einstaklega vel á frúnni og það sem henni lá einna helst á hjarta var að gefa utan af sér spjarirnar. Gefa fötin sem hún var hætt að passa í vegna velmegunar.

Auðvitað er það fallega hugsað. Að leyfa öðrum að njóta þess sem þú hefur ekki lengur not fyrir. Fegurðin gufar þó fljótlega upp þegar góðmennskan er í beinni útsendingu á samfélagsmiðlum og markmiðinu ekki náð fyrr en klapplið góða fólksins er búið að standa upp fyrir þér og hrósa fyrir einstaka manngæsku.

Þegar hrósið var búið að gubbast yfir allan Facebook-vegginn fann manneskjan út að best væri að gefa fötin í Konukot. Sem er mjög kærleiksríkt og gott. Konur sem leita til Konukots eiga ekkert og sumar eru meira að segja búnar að missa það dýrmætasta sem hver manneskja á. Sjálfa vonina.

Það næsta sem gerðist hjá frúnni í einu af betri hverfum Reykjavíkur var að hún birti mynd af fötunum sem fóru í Konukot.

Ef sú gjafmilda hefði einhvern tímann stigið fæti inn í Konukot eða sams konar staði hefði hún líklega gert sér grein fyrir að kjóllinn með doppunum rúmaði allavega tvær manneskjur eða jafnvel þrjár. Fólk sem á lítið af veraldlegum eigum og ekki peninga fyrir fæði eða húsaskjóli notar ekki föt í sömu stærðum og velmegunarbelgir nútímans. Fólk sem sækir þjónustu Konukots vantar ekki sparikjóla í yfirstærð. Þessar konur vantar hlý föt sem gefa skjól yfir köldustu mánuðina, tannbursta, tannkrem og kannski sápu.

Ef þig langar að vera eitthvað annað en Láki Jarðálfur í einn mánuð á ári gæti kærleikur aðventunnar verið fólginn í því að setja sig í spor annara og lesa í aðstæður áður en góðmennskan er auglýst á öndunarvélinni Facebook.

Gleðilega hátíð.