c

Pistlar:

21. febrúar 2020 kl. 11:37

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Sjaldan mælst jafnmikið kókaín í skólpi Reykjavíkur

Kaffistofur landsins loga vegna norsku þáttanna Exit (eða Útrás eins og þeir kallast á íslensku) sem sýndir eru í sarpi RÚV. Þættirnir fjalla um norska útrásarvíkinga sem lifa lífi sínu á glannalegan hátt. Líf þeirra snýst fyrst og fremst um að græða peninga, taka kókaín og sofa hjá konum sem selja líkama sinn. Til þess að fá frið hafa þeir komið sér upp sérstakri íbúð þar sem þeir geta djammað í friði.

Þættirnir eru byggðir á sönnum sögum úr norsku viðskiptalífi og það er það sem virðist sjokkera hinn almenna borgara hvað mest. Og kannski líka vegna þess að hægt er að spegla þættina mæta vel í íslensku samfélagi.

Auðmennirnir í Útrás eiga eiginkonur og sumir eiga líka börn. Þó ekki Adam sem einna mest fer fyrir í þáttunum. Hann er giftur Hermine sem þráir ekkert heitar en að eignast barn. Adam og vinir hans líta á eiginkonur sem fylgihluti sem skipta þá í raun mjög litlu máli. Þeir gera ekki mikinn greinarmun á eiginkonum sínum og vændiskonum nema fyrir þær sakir að þær fyrrnefndu eru dýrari í rekstri.

Dýrari útgáfan keyrir um á stærsta Volvo-jeppanum, klæðist fínum fötum og hleður utan á sig rándýrum skartgripum úr eðalsteinum. Þær myndu aldrei láta sjá sig með annað en flottustu merkjavörutöskuna og mikið er lagt í hár og förðun. Dagarnir ganga út á að hlúa að sér, fara til sálfræðings, í jóga eða í ræktina. Það skilar þó litlum árangri að vera alltaf hjá sálfræðingi ef þú segir honum meira og minna ósatt eins og Hermine gerir. Það er reyndar ekki fyrr en líða tekur á þættina að sálfræðingurinn fer að þjarma að henni og spyrja hana óþægilegra spurninga sem ljós kviknar. Hún getur þó alls ekki sagt eiginmanninum að hún gangi til sálfræðings því það eru náttúrlega bara aumingjar að hans mati sem leita ráða hjá öðrum.

Adam þarf að hafa stjórn á öllu. Hann þarf að vita nákvæmlega hvar Hermine elur manninn, hvað hún er að gera og hverja hún er að hitta. Um hvað hún talar við annað fólk og þar fram eftir götunum. Hún er búin að missa samband við flestar vinkonur sínar enda hentar það Adam illa að hún sé að láta einhverjar vinkonur rugla í sér.

Hann hringir í hana mörgum sinnum á dag milli þess sem hann er að fylla nefið af kókaíni eða sofa hjá vændiskonum.

Eftir að hafa horft á þættina vakna margar spurningar. Hvernig komast konur í sambærilega stöðu? Er það vegna þess að ástin er blind? Eða gera þær sér ekki grein fyrir að þær séu í raun giftar siðblindum narsissistum? Er hið „ljúfa líf“ svona eftirsóknarvert að þær eru tilbúnar til að líta unda? Eða er afneitunin svo sterk að öllu óþægilegu er bara ýtt til hliðar?

Undirrituð er ekki með svör við þessum spurningum en þættirnir gætu kannski hjálpað þeim konum sem eru í svipaðri stöðu og Hermine. Með því að horfa á þættina gæti kannski einhver áttað sig á því að í fullkomna lífinu er ekki allt sem sýnist.

Á sama tíma og fólk er sjokkerað yfir þáttunum hefur aldrei jafn mikið kókaín mælst í skólpi Reykjavíkur. Gæti það ekki sagt okkur eitthvað?