c

Pistlar:

5. júní 2020 kl. 10:30

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Best klædda kennitalan í LÖKE

Fyrir um tveimur áratugum var Tinna Aðalbjörnsdóttir (sem prýðir forsíðu þessa blaðs) ein af dægurstjörnum næturlífsins í miðbæ Reykjavíkur. Hún bar af hvað stíl og smekklegheit varðar og eftir því var tekið. Á þessum árum var mesta fjörið á Kaffibarnum og á Prikinu þar sem fáir voru að velta því fyrir sér hvort hægt væri að ganga of hratt inn um gleðinnar dyr. Síðan leið tíminn og á meðan margir færðu fókuspunktinn yfir á barneignir og húsakaup héldu sumir partíinu áfram. Eins og Tinna.

Ég fylgdist með Tinnu í fjarlægð því ég hafði kynnst henni lítillega í gegnum vinnu mína í fjölmiðlum. Af samfélagsmiðlum að dæma hnaut ég ekki um að það væri eitthvað óeðlilegt í gangi.

Fyrir nokkrum árum fékk ég að kynnast starfsemi Hlaðgerðarkots og hef síðan fylgst náið með því sem er að gerast í þeirri meðferðarstofnun. Í heimsókn í Hlaðgerðarkot fyrir um ári hitti ég Tinnu sem var í meðferð. Hún var komin á þennan góða stað eftir að hafa skrapað sinn botn.

Ég er alveg meðvituð um það að fíkn og áfengisneysla spyr hvorki um stétt né stöðu, en það hreyfði við mér að sjá Tinnu á þessum stað. Saga Tinnu gefur okkur innsýn í heim sem mörgum er hulinn og ég er þakklát fyrir að hún vilji deila henni með lesendum Smartlands.

Við lifum í samfélagi sem viðurkennir að alkóhólismi og fíkn sé sjúkdómur. Þrátt fyrir það fá til dæmis krabbameinssjúklingar og fíknisjúklingar ólíka meðferð í kerfinu. Við lifum í samfélagi sem lítur niður á hóp fíknisjúklinga og við dæmum veika einstaklinga í fangelsi fyrir brot sem eingöngu eru framin vegna veikinda, fíknar.

Ef við sem samfélag viljum ná árangri í baráttunni við alkóhólisma og fíkniefnaneyslu þurfum við að breyta um nálgun gagnvart þessum sjúkdómi. Við refsum ekki fólki til þess að reyna að lækna það af veikindum! Sérfræðingar víða um heim hafa bent á að við þurfum að koma upp sérstökum neyslurýmum þar sem fíklar geta fengið þá þjónustu sem þeir þurfa. Við höfum nú þegar þjónustu Frú Ragnheiðar en það er ekki nóg. Vandinn er miklu stærri. Í neyslurýmunum þarf að vera menntað starfsfólk sem gætir þess að fólk sé ekki að bera smit á milli og að helsta hreinlætis sé gætt.

Í öðru lagi þurfum við að útvega fíknisjúklingum efni í gegnum heilbrigðisstarfsfólk. Með því væri hægt að stýra neyslunni og færri myndu látast vegna ofneyslu. Það myndi líka girða fyrir þörf fíknisjúklinga til að útvega sér efni með neyslutengdum afbrotum sem kæmi sér vel fyrir samfélagið í heild sinni.

Í þriðja lagi þurfum við sem samfélag að finna úrræði fyrir þá sem vilja komast út úr neysluheiminum. Þessi hópur þarf málsvara sem stendur með þeim. Við sem samfélag þurfum að vinna að því að gera fíknisjúklingum kleift að komast aftur út í samfélag manna í stað þess að útskúfa þeim.

Eftir að hafa hitt töluvert af fólki í bata og fengið innsýn í þennan hulda heim er sláandi að upplifa að sögur þessa fólks eru keimlíkar. Í mörgum tilfellum upplifðu þessir einstaklingar áföll í æsku sem ýttu þeim út á fíknibrautina.

Það eru nefnilega ekki allir jafnheppnir og Tinna sem átti fyrrverandi tengdamömmu sem hlúði að henni og ýtti henni í meðferð. Skilin á milli þess að vera mesta glansskvísa landsins og að verða svo ein algengasta kennitalan í LÖKE eru oft ansi þunn.