Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með framgangi íslenska landsliðsins á EM. En árangurinn kemur ekki öllum eins mikið á óvart. Ég rakst á geðþekkan leigubílstjóra að nafni Simon á leið um London eftir Austurríkisleikinn. Hann varð upprifinn þegar hann áttaði sig á því að farþeginn væri hvorki meira né minna en íslenskur, sótti blað sem hann geymdi fyrir framan sig á mælaborðinu, eins og það væri Biblían, og sýndi mér það með stolti. Á blaðinu var staðfesting á að hann hefði veðjað 10 pundum fyrir keppnina á að Ísland yrði Evrópumeistari. Hann trúði sumsé á kraftaverk. Enda hafði hann fylgst með framgangi liðsins í undankeppninni, var með á hreinu hverjir væru lykilmenn, hafði tröllatrú á að liðinu myndi ganga vel í Frakklandi og fannst hann þurfa að standa við stóru orðin í vinahópnum – þar sem hann hafði mært íslenska liðið á meðan aðrir hristu höfuðið vantrúaðir. Ef Simon hefur rétt fyrir sér verða 10 pundin að 1.250 pundum. „Ekki slæm ávöxtun það,“ sagði hann drjúgur. Og hann kveið engu fyrir leikinn gegn Englendingum í 16 liða úrslitum. „Hvernig sem fer, þá get ég ekki tapað.“