c

Pistlar:

11. júlí 2012 kl. 19:37

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Grilluð flankasteik með graslaukssósu og steiktum lauk & sveppum

iron flank steak

Ég man ekki eftir því að hafa séð þennan bita, flankasteik, á meðan ég bjó á Íslandi. Það getur auðvitað verið vegna þess að ég var ekkert sérstaklega að leita að þessum bita! Hvað um það - þá er þetta afar góður grillbiti. Yfirleitt er hann á mjög góðu verði miðað við "betri bitana" á nautinu og afar hentugur á grillið. Hér í Svíþjóð og mun víðar er þetta afar algeng sjón í verslunum á þessum árstíma. Ég er alveg sannfærður um að þetta er hægt að finna í betri verslunum og í versta falli hægt að panta þetta hjá góðum slátrara eins og fólkinu sem vinnur í Kjöthöllinni! 

Bitar eins og þessir hafa gott af því að fá smávegis marineringu áður en þeir eru lagðir á funheitt grillið. Svo er mikilvægt að hafa í huga að sneiða þá þunnt niður þegar búið er að elda þá og muna eftir því að skera þvert á vöðvaþræðina - þannig tryggir maður að bitinn verði mjúkur og góður. Á myndinni hér að ofan má sjá að flankasteik er fengin af neðanverðum kviðveggnum. 

Ég naut þess að kollegi minn kom mér í samband við nautabónda á norðanverðum Skáni sem ræktar Angus nautgripi á lífrænan hátt og ég var því með í panta hlutdeild í nauti sem var slátrað núna snemma í vor. Ég á því marga góða bita í frystinum - bæði á grillið og í hamborgara fyrir sumarið og svo í kássur þegar fer að hausta. 

Grilluð flankasteik með graslaukssósu og steiktum lauk & sveppum

Fyrst er að krydda nautið. Ég hafði fengið sendingu frá Skerjaveri, þau eru þekktust fyrir að framleiða "best á lambið", og studdist við kryddblöndu frá þeim - best á nautið. Þetta er ljómandi góð kryddblanda sem inniheldur blöndu af sítrónupipar, svörtum pipar, rósmarín, papríku, basil og steinselju. Ég bætti við smá cheyenne pipar, meira af papríku og svo maldon salti!

Fyrst penslaði ég steikina með jómfrúarolíu og makaði síðan blöndunni vel á allar hliðar kjötsins. Lét svo kjötið standa inn í ísskáp í rúmlega klukkustund. 

Flankasteik 

Ég held að það skipti höfuðmáli að gefa kryddinu smá tíma til þess að komast inn í ysta lag kjötsins. 

Sveppir&laukur 

Skar niður einn rauðan lauk, einn gulan lauk og svo um það bil 15 sveppi sem ég steikti í smáræði af olíu, saltaði vel og pipraði. Setti nokkrar greinar af sítrónutimian og lét það steikjast með og læða bragði sínu inn í grænmetið! 

 á grillinu

Ég setti svona þykka grillplötu á grillið. Það varð alveg rjúkandi heitt. Steikin sem var kannski bara 3-4 cm þykk var steikt í 2 mínútur á hvorri hlið. Það þurfti ekkert meira. 

 graslaukssósa

Ég hef bloggað mikið af hvítum sósum upp á síðkastið. Mér finnst kaldar sósur oft vera svo viðeigandi með grillmatnum. Það gefur manni líka þá "illusion" að maturinn sé léttur. Alltént var þessi sósa gerð úr tveimur desilítrum af léttum creme fraiche, tveimur hökkuðum hvítlauksgeirum, fullt af graslauk - smátt skornum, salti, pipar og smá hunangi til að sæta. Skreytt með graslauksblómum (sem blómstra um miðjan júní í garðinum mínum).

 grænmeti steikt

Grænmetið var sett í skál og skreytt með nokkrum ferskum sítrónutimian laufum.

 rare steak

Kjötið var að mestum hluta "rare" - sem mér finnst vera ljómandi. Þynnri endi kjötsins passaði vel fyrir þá sem vildu "medium rare". 

 Lindemans

Með matnum drukkum við smáræðis dreitil af Lindemans Bin 50 - Shiraz sem er frá Ástralíu. Þetta er auðvitað vel þekkt vín á Íslandi. Hérna í Svíþjóð er hvítvínið mjög vinsælt en rauðvínið frá þeim vín sem þarf að panta. Ég rakst á þetta í Systembolaget nýverið á ágætu verði og varð ekki svikinn. Þetta vín er þykkt í glasi. Mikill ávöxtur í nefi. Bragðið örlítið sultukennt með smá krydduðum keim og ágætu eftirbragði. 

 steak bon appetit!

Borið fram með ákaflega einföldu salati. Klettasalati úr garðinum, tómötum, papríkur og tómötum.

Bon appetit!