c

Pistlar:

28. júní 2015 kl. 10:35

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Fjölbreytilegt eggja"soufflé" í morgunsárið

Ég er kominn í eins og hálfsárs starfsleyfi frá gigtardeildinni í Lundi. Við munum flytja okkur aðeins um set og hafa vetursetu (og aðeins meira til) í Brighton á Englandi. Þar stefnir Snædís á framhaldsnám í sálfræði og ætlar að auka á þekkingu sína í hugrænni atferlismeðferð. Brighton þekki ég ágætlega þar sem ég bjó þar í eitt ár sem barn á meðan faðir minn, Ingvar, var í meistaranámi við sama háskóla og Snædís mun stunda sitt nám. Ég hef heimsótt borgina síðan þá og höfum við heimsótt kollega minn, Roger Duckitt, nokkrum sinnum á síðustu árum.

Við munum semsagt flytja í lok ágúst og byrja nýtt líf þar. Börnin munu fara í skóla í Brighton, við höfum ráðið íslenska Aupair sem kemur afar vel fyrir. Ég mun starfa sjálfstætt sem ráðgjafi, kannski skrifa eitthvað, áreiðanlega elda eitthvað, vonandi huga eitthvað af rannsóknum og alveg öruggulega læra eitthvað nýtt. Ég er alveg ákveðinn í að fara á matreiðslunámskeið, kannski hjá Hugh Fearnley Whittingstall í The River Cottage eða hjá Rick Stein í Padstow. Kannski kem ég til Íslands í haust og held námskeið sjálfur í samstarfi við Salt eldhús. Hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér!

Fjölbreytilegt eggja"soufflé" í morgunsárið

Ég er afar hrifinn af eggjum. Egg eru næstum því hinn fullkomni matur - ótrúlega fjölbreytt og með eindæmum holl. Ég byrja næstum því hvern einasta morgun með því að snæða egg, stundum bara steikt upp úr smjöri - "sunny side up", stundum "over easy", en oftast sem eggjahræru og einstaka sinnum sem ommilettu. Veit varla betri leið til að byrja daginn!

Og fyrir þá sem hafa áhyggjur af kólesterólinu - gleymið því bara - egg eru holl, mettandi og full af vítamínum. Frábært veganesti úr í daginn.

Og - kaupið almennileg egg - ég fæ mín frá samstarfsmanni mínum á gigtardeildinni sem býr á bóndabæ og er með fjöldan allan af hænum og selur mér vikulega ljúffeng lífræn egg! Þau eru miklu betri á bragðið en egg frá búrhænum! Treystið mér!

Fyrir fjögur eggja"soufflé"

4 stór egg

70 ml rjómi

salt og pipar

Fyllingar

3 sneiðar af steiktu beikoni

pepproni/salamisneiðar

niðurskornir tómatar

paprikusneiðar

nóg af góðum osti

 

Ég keypti þessa dásamlegu tómata á grænmetismarkaðnum í gærmorgun. Ég elska að fara niður í bæ á laugardagsmorgun og versla nýtt ferskt grænmeti. Í gær keypti ég líka fersk jarðaber sem voru á tilboði eftir Jónsmessuna, rótargrænmeti, vaxbaunir og heilmikið meira!

Jæja, aftur að morgunverðinum. Brjótið fjögur egg í skál og hrærið rjómanum samanvið. Saltið og piprið og þeytið vandlega saman. Smyrjið síðan eldföstu mótin með smá smjöri og raðið fyllingunum ofan í.

Alvöru eggja"soufflé" innhalda meira en bara egg og rjóma (mjólk) - smá hveiti er alltaf sett saman við en ég sleppti því bara. Til að gera alvöru "soufflé" eru hvíturnar einnig aðskildar og þeyttar vel og svo blandað saman við eggin til að gera "soufflé"ið mjög loftkennt. En hér fór ég styttri leið.

 

Steikt beikon - klikkar ekki! 

Falleg rauð papríka í sneiðum.

 

Piparsalami - eða pepperoni.

Blanda af þessum fallegu smátómötum.

 

Hellið síðan eggjablöndunni yfir og fyllið að 2/3. 

Svo er bara að raspa nóg af osti yfir. Ég notaði Västerbottenost sem er sérlega ljúffengur.

 

Eggja"souffle" rísa mikið þegar þau bakast.

Breakfast of Champions!