Þessi réttur er innblásinn af heimsókn okkar á Tjöruhúsið á Ísafirði. Mér tókst að næla mér í nokkra daga frí í júlímánuði og við fjölskyldan skelltum okkur í stutta ferð um Vestfirðina, alltof stutta! Þarna væri gaman að vera lengur. Og ég verð að játa að þangað hef ég einvörðungu komið einu sinni áður, en það var þegar ég var læknanemi á öðru ári og var boðinn í heimsókn í Menntaskólann á Ísafirði til að halda erindi á vegna Ástráðs (sem er forvarnarverkefni um kynsjúkdóma og kynheilbrigði - sem er enn við líði). Þá dvaldi ég einungis dagpart - en ég man eftir því að hafa alltaf ætlað að skunda þangað aftur. Og svo leið og beið og svo loks átján árum síður tókst mér að snúa aftur. Hvílík náttúrufegurð.
Við komum til Ísafjarðar að kvöldlagi eftir drjúgan akstur inn og út firðina í Ísafjarðardjúpi. Fyrsta daginn skruppum við í gönguferð um bæinn, fórum í sund á Bolungarvík og svo snæddum við kvöldverð á Tjöruhúsinu.
Og þetta var mögnuð heimsókn. Húsnæðið er fallegt - rústrautt að utan með svörtu þaki. Maður greiðir fyrir aðgang að hlaðborði - og það virðist engan enda taka. Ég verð að játa að ég fór í þrígang til að fá að smakka sem mest. Og síðasta ferðin var eiginlega best - þá sýndist mér að rúmlega tvítugur sonur eigandans væri tekin við og töfraði fram tvær pönnur - eina sem ég er að reyna að líkja eftir í þessari uppskrift og svo aðra þar sem hann hafði eldað saltfisk í rommsírópssósu með ristuðum valhnetum, hljómar örlítið klikkað en var dásamlegt.
Innblástur frá Tjöruhúsinu - Blálanga í tælenskri piparsósu, með ferskum agúrkum og kóríander
Fyrir 6
1,2 kg blálanga
1 kúrbítur
3 vorlaukar
1 rauðlaukur
2 hvítlauksrif
3 msk piparsósa
2 msk teriyakisósa
1 msk soyasósa
hálf agúrka
1/2 fínt skorin papríka
50 g smjör
3 msk
salt og smá pipar
Byrjaði á því að sneiða rauðlaukinn, hvítlaukinn, kúrbítinn og vorlaukinn (sparaði endana til að skreyta með í lokinn) í olíu og smjöri þangað til að þetta varð mjúkt og ilmandi. Saltaði og pipraði lítillega.
Skar svo blálönguna í bita.
Kom svo fisknum fyrir á pönnunni og saltaði og pipraði og steikti á báðum hliðum.
Ég hafði keypt þessa sósu í Víetnam market - en hún er ljómandi góð. Vilji maður hafa minni hita í réttinum mætti prófa að nota Hoisin sósu í staðinn.
Blandaði piparsósunni, teriyaki og soyasósunni saman.
Hellti svo sósunni yfir fiskinn og eldaði hann í gegn í sósunni.
Því næst skreytti ég pönnuna með ferskum agúrkum, smátt skornum vorlauksendum og papríkum.
Með matnum drukkum við þetta ljúfa rósavín frá Masi, Rosa dei Masi. Mér þykir vænt um þennan framleiðenda en ég heimsótti hann í maí í fyrra þegar við vorum við tökur á þættinum, Læknirinn á Ítalíu. Það var ógleymanleg heimsókn. Vínið er bragðgott og frekar bragðríkt fyrir rósavín en það er framleitt með appasimento aðferðinni, þannig að hluti berjanna er þurrkaður í nokkrar vikur áður en þau eru kreist - en sú aðferð þéttir bragðið af víninu.
Borið fram með soðnum Basmati grjónum.
Ég hvet ykkur til að prófa, þetta var einstaklega ljúffengt!