c

Pistlar:

9. júní 2019 kl. 16:47

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Mesa hlaðborð með grilluðum lambalundum, hummus, salati, flatbrauði og kaldri sósu á dásamlegum sumardegi

 

Þó að ég hafi ótrúlega gaman af því að elda mat og kvarta ekkert undan því að þurfa að verja heilum degi í eldhúsinu, þá er það samt svo að maður hefur ekki alltaf endalausan tíma til þess að standa yfir hlóðunum. Það sem ég elska við þessa uppskrift er hversu fljótleg hún er. Og ekki veitti af þar sem ég er á vakt um helgina og kom heim nokkuð lúinn. 

 

Þessi uppskrift kom eiginlega úr nokkrum áttum. Ég var eitthvað að kíkja í gegnum gamlar færslur á blogginu, eins og þessa, sem er frá því 2007. Í gær var ég svo eitthvað að spekúlera hvað ég ætti að gera við lambalundirnar sem við höfðum keypt og póstaði uppskrift sem ég gerði á sólardegi seint síðastliðið sumar, sjá hérna. Þegar heim var komið leitaði hugurinn til Norður-Afríku og ég rifjaði upp að ég hef nokkrum sinnum bloggað um Mesa hlaðborð (eins og ég sé þau fyrir mér - en ég hef aldrei komið til þessara landa), sjá hérna og hérna

 

Þannig að úr varð þessi uppskrift - sem var eiginlega gerð á hlaupum! En hún varð ljúffeng engu að síður. 

 

Mesa hlaðborð með grilluðum lambalundum, hummus, salati, flatbrauði og kaldri sósu á dásamlegum sumardegi

 

Hráefnalisti fyrir 4-5

 

1 kg lambalundir

4 msk jómfrúarolía

1 msk broddkúmen

1 msk kóríanderfræ

1 msk papríkuduft

1 msk hvítlauksduft

2 tsk pipar

1 tsk sítrónupipar

2 tsk salt

1 tsk laukduft

250 g aspasspjót

 

Fyrir köldu sósuna

 

1 lítil dós grísk jógúrt

2 msk hvítlauksolía

handfylli mynta og steinselja

1 msk fljótandi hunang

safi úr hálfri sítrónu

salt og pipar

 

Fyrir brauðið 

 

3 bollar hveiti

200 ml súrmjólk

150 ml vatn

þurrger

2 msk jómfrúarolía

1 msk sykur

salt og pipar

 

Fyrir hummus

 

1 dós kjúklingabaunir

2 msk tahini

2 hvítlaukif

safi úr hálfri sítrónu

150 ml jómfrúarolía

salt og pipar

 

Ætli það sé ekki skynsamlegast að byrja á brauðinu. Blandið þurrefnunum saman og bætið svo súrmjólkinni og olíunni saman við. Það er svo breytilegt hvað þarf mikið af vatni til að binda allt deigið. Hnoðið í nokkrar mínútur og látið svo hefast í þrjú kortér. 

 

Þá er að skola og þerra lambalundirnar og leggja í skál.

Ég útbjó kryddið með því að blanda öllum kryddunum saman í mortéli og steyta svo vandlega saman.

Svo velti ég lundunum upp úr jómfrúarolíu og kryddi og lét standa úti á borði á meðan ég undirbjó aðra hluti matarins.

Hummus er fljótlegur. Skola kjúklingabaunirnar, setja í matvinnsluvél ásamt tahini, hvítlauk og sítrónusafa og blanda saman, salta og pipra. Svo er olíunni helltsaman við í hægum straumi. Sett í skál, meiri olíu sáldrað yfir og svo örlitlu af papríkudufti.

Kalda sósan var líka fljótleg. Setti jógúrtina í skál, bætti hvítlauksolíu saman við, hunangi og svo fullt af smáttskornum ferskum kryddjurtum - myntu og steinselju. Einnig sítrónusafa og smáttskorinn börk af sítrónunni. Saltaði og pipraði og lét standa á meðan eldamennskan hélt áfram.

Fann þennan fallega aspas útí búð. Skar neðan af honum. Velti upp úr olíu, saltaði og pipraði og lagði á fat.

 

Gerði þetta ofureinfalda salat. Ég held að eitthvað hafi breyst í framleiðslu á fetaosti hjá Dalaostum, án þess að ég þori að fullyrða um það. Mér finnst þessi ostur hafa breyst mikið. Hann er mun mýkri og sýran hefur verið „tónuð niður“ sem mér finnst mikið til bóta. 

Raðaði nokkrum salatlaufum á blað, skar niður tómata og rauðlauk með mandólíni, muldi ostinn yfir, skreytti með fersku basil. Sáldraði svo góðri olíu yfir og smá sítrónusafa.

Notaði grillpönnu ofan á gasgrillið til að steikja brauðið. Ég hellti smá olíu í hendurnar á mér og togaði brauðið til við grillið og skellti því svo bara beint á plötuna. Þegar brauðið var steikt að utan færði ég það upp á efri grindina til að bakast.

Svo var bara að grilla lambalundirnar og aspasinn. Það tekur nú ekki langan tíma að elda þetta hráefni.

Svo er bara að raða þessu upp á fat, kalla á krakkana og fá þá til að leggja á borð.

 

Brauðið penslaði ég svo með hvítlauksolíu og saltaði aðeins. Það heppnaðist ótrúlega vel - þó það hafi verið kastað nokkuð til verksins.

Ég fékk þessa flösku gefins um daginn. En þetta vín var að vinna til verðlauna sem bragðbesta rósavín í ár á stórri vínhátið. Og þetta vín fær afbragðsdóma á vivino.com. Sem er skiljanlegt - vínið er meiriháttar. Ilmar af sumri, ávexti - það er brakandi ferskt, skarpt ávaxtabragð. Ef þetta er ekki sumarvín þá veit ég ekki hvað. Og það er jú sól í kortunum.

 

Þetta var sannkölluð veislumáltíð á mettíma! 

 

Verði ykkur að góðu! 

 

 

------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa