Þessi færsla átti auðvitað að birtast um helgina til að fylgja þættinum en ég hef bara verið svo ári upptekinn ásamt fjölskyldunni við að vinna úti garði við að stækka pallinn. Auðvitað verður maður að reyna að vera duglegur á meðan geislar sólar leika við mann. Við Íslendingar vitum jú að veðrið hér á landi getur verið ansi brigðult. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.
En veðrið lék við okkur við tökur á þessum þætti. Það er líkt og að veðurguðirnir hafi verið með okkur í liði - allaveganna voru þeir það þegar við vorum á Bakkafjöru. Þá litu þeir brosandi niður til okkar.
Bakkafjara og Merkigil - Langbesta humarsamlokan og ljúffengt lambagúllas með ristuðu tómötum og papríkum
Það er erfitt að velja á milli barnanna sinna, en svei mér þá - ég held hreinlega að þessu þáttur hafi verið uppáhalds.
Langbesta humarsamlokan með lárperu, tómati og piparrótaraioli í Bakkafjöru
Fyrir tvo
1 baguetta
12-16 humarhalar
smjör til steikingar
salt og pipar
hvítlauksduft
hveiti
hvítvínsskvetta
100 ml majónes
2 hvítlauksgeirar
5 cm piparrót
handfylli ferskar kryddjurtir að eigin vali
safi úr hálfri sítrónu
salt og pipar
lárpera
tómatur
klettasalat
Byrjið á því að pilla humarinn, leggja í skál og krydda með salti, pipar og hvítlauksdufti og hjúpið með smá hveiti. Bræðið smjör á pönnu og steikið humarinn þar til hann er eldaður í gegn. Setjið skvettu af hvítvíni yfir hann og sjóðið upp. Leggið til hliðar.
Það er auðvitað hægt að gera aioli frá grunni en ég stytti mér leið. Setti majónes í skál, bætti við smátt skornum hvítlauk og rifinni piparrót, sítrónusafa, salti og pipar og svo handfylli af ferskum íslenskum kryddjurtum.
Næst er brauðið skorið í tvennt og steikt í humar-hvítvínssmjörinu á pönnunni.
Svo er bara að raða upp í samloku. Smyrja brauðið með aioli, svo er sett klettasalat, tómatar í þunnum sneiðum, lárpera og svo nóg af humri.
Sælgæti. Algert sælgæti!
Ljúffengt lambagúllas með ristuðum tómötum og papríkum í merkilegu Merkigili
Þessi staður kom mér einkar mikið á óvart. Auðvitað bjóst ég við einhverju fallegu. Ísland er jú bara þannig. En að vera leiddur í gegnum kolsvart gil, vaðandi á upp að nára af 16 ára gömlum þúsundþjalasmið, Valdimar, og koma út hinum meginn inn í þessa dásamlegu paradís - það kom aðeins aftan að mér.
Fyrir 4-6
1 kg lambagúllas
4 rauðar papríkur
500 g tómatar
1 laukur
3 sellerísstangir
3 hvítlauksrif
2 gulrætur
lárviðarlauf
vatn til að hylja
1-2 lambateningar
hálf flaska rauðvín
kryddvöndull - rósmarín, timjan, steinselja
hvítlauksolía
kartöflur
gulrætur
salt og pipar
Byrjið á því að skera og kjarnhreinsa papríkurnar og setja á ofnfasta skúffu ásamt tómötum. Penslið með hvítlauksolíu, saltið og piprið og setjið inn í blússheitan ofn og grillið þar til grænmetið fer að taka lit.
Á meðan skerið niður gulrætur, lauk, sellerí og hvítlauk og steikið í smjöri þar til að það er mjúkt og ilmandi. Bætið næst við ofnristaðu grænmeti ásamt víni, vatni, tening, kryddvöndli, salti og pipar. Látið krauma í 60-90 mínútur.
Takið kryddvöndulinn og maukið með töfrasprota. Setjið í krukkur og farið í gönguferð upp í Merkigil!
Þar er gott að koma fyrir eldstæði og brúna lambakjöt að utan. Saltið og piprið. Þegar kjötið er brúnað bætið þið súpunni saman við. Hugsið um lífið og tilveruna. Njótið.
Eftir um klukkustund er ágætt að flysja kartöflur og gulrætur og bæta saman við súpuna/kássuna (sússuna) og láta krauma í 30 mínútur til viðbótar. Saltið og piprið eftir smekk.
Togið tappann úr rauðvíni og hellið lögg í glas. Raðið á skálar og njótið úti í guðsgrænni náttúrunni.
Sérstakar þakkir við gerð þessa þáttar fá auðvitað þessi fyrirmenni og fyrirmyndar fyrirtæki;
Elvar Örn Sigdórsson, yfirkokkur á Rauða Húsinu
Valdimar Páll Brynjólfsson, leiðsögumaður
Ásta Guðlaug Þorkelsdóttir
Steindór Steindórsson
Stúdíóbrauð
Rauðahúsið
Kokka
Egill Sigurðsson
Land Rover á Íslandi
Sölufélag Garðyrkjubænda
Sláturfélag Suðurlands
Ástarþakkir!