c

Pistlar:

15. nóvember 2020 kl. 18:26

Ragnar Freyr Ingvarsson (ragnarfreyr.blog.is)

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 

Það var svo ljúft veður liðna helgi að ég fékk þá flugu í höfuðið að grilla. Sumir vetrardagar bara kalla á að maður kyndi upp í grillinu - og eldi kvöldverð undir berum himni. En þegar á hólminn var svo komið sendi ég karl föður minn út með kjötið. En hann þurfti ekki að standa lengi við grillið þar sem ég hafði látið skera lambahrygginn í mjög þunnar sneiðar - svo þær væru eldsnöggt á grillinu.  

Ég hef ætlað að gera þetta um nokkuð skeið - en ekki látið verða af því fyrr en nú. Íslenskar kótilettur, lambakonfekt, er gjarnan skorið aðeins þykkara. Ég fékk svona þunnt skornar lambakótilettur þegar ég var í heimsókn hjá Ramon Bilbao í Rioja haustið 2018. Hugmyndin á bak við þessar þunnt skornu kótilettur er að maður nái lambafitunni stökkri og ljúffengri án þess að ofelda sjálft kjötið.  

Þunnt skorinn, vel marineraður og snögg-grillaður lambahryggur með kryddjurtasósu og grísku salati

 
Þetta er ekki flókin matseld en það er skynsamlegt að leyfa kjötinu að meyrna í ísskáp í nokkra daga og svo marinerast í nokkrar klukkustundir. Ég fékk Geira í Kjötbúðinni á Grensásveginum til að saga hrygginn niður með þessum hætti. 
 
1 lambahryggur - skorinn þunnt
3-4 msk góð jómfrúarolía (ég notaði bragðbætta olíu frá Olio principe)
2 msk Yfir holt og heiðar 
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar
 
Fyrir kryddsósuna
 
1 dós sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1/2 dós af bragðbættum rjómaosti
2 hvítlauksgeirar
handfylli ferskt timjan, steinselja og mynta 
salt og pipar
 
Grískt salat 
 
græn lauf
kjarnhreinsuð agúrka
rauðlaukur
kalamata ólífur 
fetaostur
fersk mynta 
 
Kartöflusalat
 
700 g soðnar og flysjaðar kartöflur (láta kólna) 
4-5 msk pæklaður rauðlaukur
2-3 msk sýrður rjómi
2-3 msk majónes
1 msk hlynsíróp
salt og pipar
 
Ég byrjaði eldamennskuna um hádegisbil. Kjötið hafði þá fengið að meyrna í ísskáp í þrjá til fjóra daga og svo á frammi á borði yfir nótt. Skolaði af því og þerraði og setti í ílát. Bætti olíunni, öllu kryddinu - bæði því þurrkaða og því ferska og salti og pipar saman við og lét marinerast í nokkrar klukkustundir. 
 
 
Ilmurinn af þessu kjöti var himneskur. 
 
 
Sósan var ofureinföld. Blandaði saman sýrðum rjóma, majónesi og rjómaosti. Hakkaði svo heilmikið af kryddjurtum (þeim sömu og ég hafði notað í marinerínguna) og hrærði saman við. Smá hlynsíróp og smakkaði svo til með salti og pipar. 
 
 
Salatið var líka einfalt. Bara að skola grænu laufin og leggja á disk, sneiða gúrkuna og kjarnhreinsa, sneiða rauðlaukinn, sáldra yfir svörtum kalamata ólívum, ásamt fetaosti. Skreytt með myntu. Saltað og piprað. 
 
 
Pabbi sá um að grilla. Hann er með ferlega heitann brennara á grillinu sínu. Kjötið þurfti ekki nema 90 sekúndur á hvorri hlið. 
 
 
Kartöflusalatið var líka fljótlegt að matreiða. Kartöflurnar voru flysjaðar, soðnar í söltu vatni og settar í skál til að kólna. Sýrðum rjóma og mæjónesi blandað saman, ásamt hökkuðum pækluðum rauðlauk (heimagerðum að sjálfsögðu - sjá hérna). 
 
Þetta var ljómandi gott rauðvín. Trapiche Medalla Cabernet Sauvignion frá 2017. Þetta er kraftmikið vín, gott að leyfa því að anda svolítið, þurrt á tungu, ríkur ávöxtur og ágætlega eikað með ljúfu eftirbragði. 
Sannkölluð veislumáltíð. 
 
Verði ykkur að góðu! 
 
-------
 
 
 
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa