14. febrúar 2021 kl. 18:14
Fyrir tveimur vikum skrapp ég í hádegisverð á Fjallkonuna niðri í miðbæ. Átti góðan fund með tveimur kollegum þar sem við fórum yfir verkefni komandi missera. Pantaði rétt, lamba chermoula, með öllu tilheyrandi og varð alveg orðlaus. Hann var algert sælgæti. Svo góður, að ég setti um leið mynd upp í samfélagsmiðlaskýið, mér til áminningar að reyna við mína eigin útgáfu síðar. Og liðna helgi gerði ég mína eigin uppskrift.
Matseðillinn á Fjallkonunni var auðvitað til hliðsjónar, sjá
hérna. En auðvitað þurfti ég að skoða ólíkar uppskriftir af chermoula, sem er kryddmauk eða marínering frá Norður Afríku og kemur víða fyrir í uppskriftum frá Túnis, Alsír, Marokkó og Líbíu. Mín uppskrift er samsuða úr nokkrum ólíkum áttum.
Þessi uppskrift inniheldur þó nokkurn fjölda hráefna - sem eru elduð hvert í sínu lagi - og engin þeirra eru sérstaklega flókin. Þetta var góður sunnudagur í eldhúsinu.
Stolið sælgæti - Lamba chermoula með poppuðum kjúklingabaunum, grilluðum kúrbít, furuhnetum, granatepli og hvítlaukskremi
Fyrir sex
1200 g lambamjaðmasteik (efri parturinn af lambalærinu - eins mætti úrbeina lambalæri)
1 poki regnbogagulrætur
5 msk jómfrúarolía
1/2 krukka marókósk harissa frá Kryddhúsinu
1 tsk ras el hanout frá Kryddhúsinu
1 tsk papríkuduft
2 msk hunang
1 msk sirachasósa
1/2 chili duft
safi úr lime
salt og pipar
Fyrstu skrefin eru einföld. Bara blanda saman öllum hráefnum í skál og hræra jómfrúarolíu og limesafa saman við. Nudda svo í kjötið. Ég lét það svo standa við herbergishita í klukkustund.
Hitaði olíu í pönnu og brúnaði kjötið að utan. Lét það síðan í eldfast mót ásamt flysjuðum regnbogagulrótum og setti í 150 gráðu forhitaðan ofn. Stakk hitamæli í kjötið og lét það fara í 54-56 gráður í kjarnhita.
Ilmurinn í eldhúsinu varð svo dásamlega seiðandi að það ætlaði að æra mann algerlega.
Hvítlaukskrem
150 ml feitur, sýrður rjómi
50 ml nýmjólk
3 hvítlauksrif
1 tsk hunang
safi úr hálfu lime
salt og pipar
Hvítlaukskremið er svo einfalt að það hálfa væri nóg. Galdurinn er að nota feitan sýrðan rjóma, setja í skál, blanda maukuðum hvítlauknum saman við, sem og hunangi, límónusafa og mjólkurskvettu. Smakka til með salti og pipar. Láta standa í kæli.
Chermoula kryddmauk
200 ml jómfrúarolía
1 búnt steinselja
1 búnt kóríander
1 msk broddkúmen
1 msk kóríander
1 msk papríkuduft
1 stór skalottulaukur
4 hvítlauksrif
4 msk rúsínur
safi úr límónu
salt og pipar
Chermoula er kryddmauk sem er fljótlegt að útbúa. Byrjaði á því að þurrrista kryddin á pönnu og færa svo yfir í matvinnsluvél. Þá bætti ég við skalottulauknum, hvítlauknum, fersku kryddunum, safa úr límónu, rúsínum, og svo jómfrúarolíu. Saltið og piprið eftir smekk.
Meðlætið var ekki sérlega flókið. Kúrbíturinn var skorinn í hæfilegar sneiðar, velt upp úr hvítlauksolíu, saltaður og pipraður og svo eldaður á grillinu.
Kjúklingabaunirnar voru skolaðar og látnar standa til að þorna. Steiktar upp úr heitri olíu og svo velt upp úr broddkúmeni, sítrónusafa og salti og pipar.
Furuhneturnar voru þurrsteiktar á pönnu og lagðar til hliðar.
Granateplið er skorið í helminga og rauður perlurnar sóttar með því að lemja á ávöxtinn með skeið.
Bulgurið er soðið í kjúklingasoði, skv. leiðbeiningum á umbúðunum.
Með matnum nutum við Masi Campofiorin frá 2017. Þetta vín er ekki ósjaldan á borðum hjá okkur enda finnst mér það ljúffengt. Svo finnst mér ég einhvern vegin tengdur þessum framleiðenda þar sem ég heimsótti vínekruna í tenglsum við sjónvarpsþættina mína - Ferðalag bragðlaukanna.
Svo er bara að hlaða á diskinn: Fyrst bulgur, svo niðursneitt lambakjöt, kúrbítur og gulrætur, skreytt með chermoula og hvítlaukskremi. Furuhnetunum, kjúklingabaunum og granateplinu sáldrað yfir.
Þetta er svona máltíð þar sem hver munnbiti kemur á óvart. Endilega prófið þessa uppskrift - algert sælgæti!
Verði ykkur að góðu!
-------
Flest hráefnin í þessari færslu fást í verslunum Hagkaupa