c

Pistlar:

28. júní 2019 kl. 12:49

Guðný Ósk Laxdal (royalicelander.blog.is)

Konunglegur klofningur: Cambridge gegn Sussex

Nýlegar fréttir greina frá því að sameiginlegur góðgerðarsjóður hertogahjónanna af Sussex og Cambridge muni framvegis einungis starfa undir nafni Cambridge hjónanna. Þessar fréttir eru einar af mörgum undanfarið sem gefa þá sýn að ekki sé gott á milli Sussex og Cambridge hjónanna, en samstarf hertogahjónanna er í dag lítið sem ekkert. Konungshöllin afneitar öllum ásökunum um ósætti en erfitt er að hunsa það sem hefur gerst undanfarna mánuði. 

Sjóðurinn sem um ræðir kallast The Royal Foundation, eða Hinn Konunglegi Sjóður og var stofnaður af Harry og Vilhjálmi árið 2009 til að halda utan um hin ýmsu góðgerðamál sem þeir eru velunnarar. Katrín varð síðan hluti af stjórn sjóðsins eftir að hún og Vilhjálmur giftust árið 2011. Meghan kom síðan formlega í hópinn eftir að hún og Harry giftust í fyrra. 

Vorið 2018 komu þau öll fjögur saman í spurt og svarað viðburði sjóðsins, en viðtalið vakti mikla athygli enda sjaldan sem við sjáum Katrínu, Meghan, Harry og Vilhjálm öll saman í viðtali. Þar svöruðu þau hinum ýmsu spurningum og ræddu plön sín um sjóðinn. Eftir það var vonast til að þetta yrði árlegur viðburður og þarna væri hægt að sameina vinsældir þeirra allra til að safna peningum fyrir góðgerðarsjóðinn. Áhugavert er að sjá svar þeirra við einu af fyrstu spurningum viðburðarins, þar sem þau eru spurð um hvernig þeim gengur að vinna saman. Er auðveldlega hægt að segja að svörin séu frekar vandræðaleg og augljóst er að meira liggur að baki.

Ósættið milli hertogahjónanna var fyrst talið vera milli Katrínar og Meghan og voru sögusagnir um að þær væru mjög ósáttar hver við aðra. Sá orðrómur varð síðan að engu, sérstaklega eftir að þær mágkonur sáust spjalla og hafa gaman saman fyrir jólamessuna 2018. Seinna breyttist þó sagan í að ósættið væri í raun og veru á milli bræðranna; Vilhjálms og Harry.

Sögusagnirnar um ósætti bræðranna kemur upprunalega út frá öðrum orðrómi um að Vilhjálmur hafi haldið framhjá Katrínu. Ósættið milli bræðranna væri það að Harry væri reiður við bróður sinn útaf framhjáhaldinu, en Harry og Katrín eru góðir vinir. Orðrómurinn er þó byggður á mjög daufum sögusögnum sem ólíklega eru sannar. Samt sem áður er erfitt að líta framhjá öllum þeim sönnunargögnum um að Harry sé ósáttur við bróður sinn. Myndefni frá komu Cambridge hjónanna í árlega páskamessu vakti athygli, en hægt er að greina að Harry heldur sig vandlega frá bróður sínum. 

Hinar ýmsu breytingar ýta undir að ósætti sé milli hertogahjónanna, en það er helst sú ákvörðun Harry og Meghan að flytja út úr Kensington-höll. Þar búa Vilhjálmur og Katrín, og var áður heimili Díönu. Var lengi talið að Harry og Meghan myndu búa þar líka enda konungshöllin ekki af smærri gerðinni og eru margar íbúðir innan hallarinnar og búa fleiri meðlimir konungsfjölskyldunnar í höllinni. Harry og Meghan ákváðu að flytja til Frogmore Cottage í Windsor. Er eðiliegt að Harry og Meghan vilji búa til eigið framtíðarheimili og fluttu Vilhjálmur og Katrín svipað eftir að þau eignuðust Georg prins, en þau bjuggu lengi í Amner Hall í Norfolk áður en þau gerðu Kensington-höll að heimili sínu. 

Seinna var tilkynnt að Sussex hjónin myndu splitta frá starfsteymi Kensington hallar, sem sér um Vilhjálm og Katrínu, og Harry áður en hann gifti sig. Þau eiga núna sitt eigið teymi sem starfar í Buckingham höll og stofnuðu sinn eigin Instagram aðgang; sussexroyal. 

Konungsfjölskyldan er smátt og smátt að undirbúa framtíðina og er eðlilegt að Vilhjálmur og Katrín hafi stærra starfslið í sínu eigin húsi, þar sem þau eru framtíðar prins og prinsessan af Wales, og seinna meir kóngur og drottning Bretlands. Harry og Meghan eru hinsvegar að minnka örlítið við sig og er stafsemi þeirra að verða líkari konungsfjölskyldumeðlimum systkina Karls. Harry og Meghan gegna líka allt öðru hlutverki innan konungsfjölskyldunnar og endurspeglar starfsteymi þeirra, staðsetning og Instagram aðgangurinn það. 

Hvort það sé hægt að trúa orðrómum eins og að Harry og Vilhjálmur hafi ekki talast við mánuðum saman eftir brúðkaup Harry og Meghan, er erfitt að segja. En slúðurfréttir vitna oft í konunglegan heimildarmann, sem í raun og veru getur verið hver sem er og geta því þannig sannanir verið misáreiðanlegar. Það er samt sem áður augljóst að eitthvað er að koma í veg fyrir frekara samstarf milli hjónanna. Auðvelt er að benda á Meghan sem blóraböggul þar sem hún kemur ný inn í konungsfjölskylduna en þó er líklegra að hér er um að ræða tvo ólík hjón sem eru einfaldlega ekki sammála um hvernig eigi að fara að hlutunum. 

Guðný Ósk Laxdal

Guðný Ósk Laxdal

Konungsfjölskyldur eru merkilegt menningarfyrirbæri sem eru stöðugt í sviðsljósinu og vekja sífellt áhuga. Guðný stúderaði nútímavæðingu bresku konungsfjölskyldunnar í B.A. ritgerð sinni í ensku við HÍ og hefur ávallt haft gaman af konunglegum málefnum, bæði sem dægurmál og fræðilegt menningarfyrirbæri. Hún skrifar útskýringarpistla og segir frá skemmtilegum staðreyndum og fer nánar í konunglegt slúður. Hún fjallar frekar um konungsfjölskylduna á instagram @royalicelander.

Meira