21. ágúst 2019 kl. 13:15
Ný heimildamynd um prinsana af Wales, Vilhjálm og Harry var frumsýnd um seinustu helgi í Bretlandi og ber heitið William and Harry: Princes at War. Myndin fjallar um meint ósætti bræðranna, en dramatískur titillinn gefur til kynna að um einhvers konar stríð sé að ræða. Í júní síðastliðnum var það gefið út að góðgerðarsjóður sem þeir bræður stofnuðu saman myndi hér með einungis vera undir stjórn Cambridge hjónanna. Hefur sú ákvörðun í raun staðfest að eitthvað ósætti sé á milli hertogahjónana beggja sem hefur orðið til þess að þau vilja ekki vinna saman.
Heimildamyndin fjallar um að þetta ósætti sé á milli bræðanna og fer yfir samband þeirra bræðra í gegnum árin. Inn á milli eru viðtöl við fólk sem hefur lengi starfað sem konunglegir blaðamenn eða hafa jafnvel unnið við hirðina og þannig fylgst með þeim bræðrum vaxa úr grasi. Harry og Vilhjálmur hafa alltaf verið nánir en þeim hefur ósjaldan lent saman eins og mörgum systkinum er eðlislægt. Brúðkaup Harry og Meghan varð þó að miklu deilumáli milli bræðranna, og á það að hafa verð upphafið á því brotna sambandi sem er á milli þeirra í dag.
Vilhjálmur á að hafa varað Harry við að giftast Meghan eftir stutt samband og varð Harry ósáttur við bróður sinn útaf því. Hann á í raun að hafa verið mjög reiður, og samkvæmt viðtölum í myndinni, töluðust bræðurnir ekki við í einhvern tíma eftir að þeir áttu þessar samræður. Á brúðkaupsdag Harry og Meghan var þó ekki hægt að sjá að neitt ósætti væri milli bræðranna, heldur virðist sem að Vilhjálmur hafi sæst við ákvörðun yngri bróður síns og stutt hann á brúðkaupsdaginn. Ósættið situr samt víst fast í þeim bræðrum sem hafa farið mjög ólíkar leiðir í lífinu þegar kemur að hjónabandi.
Harry og Meghan kynntust fyrst í júlí 2016 og giftu sig í maí 2018. Mörgum finnst það eflaust ekki svo stuttur tími en í samanburði við tilhugalíf Vilhjálms og Katrínar er það mjög stutt. Vilhjálmur og Katrín kynntust fyrst árið 2001 og giftu sig árið 2011, en þau hættu stuttlega saman árið 2007. Var mikið fjölmiðlafár á þessum tíma um af hverju Vilhjálmur væri ekki löngu búinn að biðja Katrínar. Ákvarðanir Vilhjálms koma eflaust út frá hans upplifun á hjónabandi foreldra sinna og skilnaðar þeirra. En Karl og Díana voru mjög stuttlega saman áður en þau giftu sig og hefur Vilhjálmur því viljað vanda valið þegar kom að hans eigin hjónabandi.
Harry hinsvegar var alls ekki lengi að biðja Meghan, en hann var lengi þriðja hjólið eftir að Katrín og Vilhjálmur giftu sig og orðið vitni að farsælu hjónabandi þeirra. Árin fyrir brúðkaup hans og Meghan fór hann ekki leynt með það að hann var tilbúinn til að finna sér maka og stofna fjölskyldu. Þegar hann hitti Meghan fann hann loksins maka sem var tilbúinn í að takast á við konungslífið með honum. Í trúlofunarviðtali þeirra kom skýrt fram að þau voru spennt fyrir að stofna fjölskyldu og hafa því viljað fara frekar hratt að hlutunum, sem þau hafa gert. Fréttirnar um að þau ættu von á Archie komu aðeins nokkrum mánuðum eftir brúðkaupið.
Þó er seint hægt að tala um að stríð sé á milli bræðranna eins og heimildamyndin vill meina, en sú fullyrðing minnir mikið á gulu pressuna. Myndin er þó góð yfirferð á stöðu mála, en það hefur vakið mikla athygli hvað Vilhjálmur og Harry hafa lítið sést saman síðan Harry og Meghan giftu sig. Ég hef farið frekar yfir meint ósætti milli hertogahjónnana af Cambridge og Sussex í öðrum pistli og verð að segja að þessi viðvörun Vilhjálms og viðbrögð Harry, sé mjög líkleg skýring á öllu sem hefur verið að gerast. Þó svo að bræðurnir virðast vera komnir að mestu yfir þetta ósætti í dag, er ljóst að þeir vilja minnka samstarfið á milli sín og hafa smá fjarlægð meðan þeir skapa sína framtíð.