Hefurðu einhverntímann hugsað út í það hvað þú ert að hugsa? Talið er að við hugsum að meðaltali 60-80.000 hugsanir á dag. Þetta eru 2500-3300 hugsanir á hverri klukkustund. Þá er talið að hjá flestum eru daglegar hugsanir 90% þær sömu og þær voru daginn áður, og daginn þar áður, o.s.frv.
Augljóst er að við erum ekki að taka eftir hverri einustu hugsun. Oft á tíðum þeytast þessar hugsanir fram og tilbaka, án þess að við gefum þeim nokkurn gaum. Þá er algengt að flestar þessara hugsana séu neikvæðar, eða tilgangslausar, ómerkilegar hugsanir sem geysast um á ógnarhraða, svo við tökum ekki einu sinni eftir þeim.
En það er ekki þar með sagt að þær hafi ekki áhrif. Hver hugsun er orka. Allt er orka. Það hafa vísindin sýnt fram á. Stólinn sem þú situr á, þegar hann er brotinn niður í sínar smæstu eindir, er ekkert nema orka.
Líkami okkar er orka. Hugsanir okkar og tilfinningar okkar eru orka. Hugsanir og tilfinningar hafa mikil áhrif á líkamann okkar og umhverfið okkar, sem mótast að miklu leyti af þeirri orku sem við sendum frá okkur dags daglega.
Af eigin persónulegri reynslu, auk reynslu minnar af því að vinna með skjólstæðingum mínum sem orkuheilari og dáleiðari, er sláandi að sjá hversu margir hugsa ekkert um það hvað þeir eru að hugsa. Sérstaklega hvað við hugsum um okkur sjálf, líf okkar og aðstæður.
Lang-mikilvægustu hugsanirnar okkar eru þær sem við hugsum um sjálf okkur og líf okkar. Hvað erum við að segja við sjálf okkur dags daglega, með hugsunum okkar?
Erum við að beita sjálf okkur andlegu ofbeldi (self-abuse), með hugsunum eins og :
„ég get þetta aldrei, það eru allir að dæma mig, ég er alger aumingi, ég er svo heimsk/ur, vá ég mun aldrei geta gert neitt sem þessi eða hinn getur, ég er slæm móðir/slæmur faðir, ég er ömurleg/ur, ég geri aldrei neitt rétt, ég er feit/ur, ég er ljót/ur, vá hvað ég lít alltaf illa út, ojbara ég hefði ekki átt að borða þetta, ég hef enga sjálfsstjórn“, o.s.frv.!
Skaðleg áhrif slíkra hugsana eru gríðarleg. Ef þú gengur um hugsandi svona hugsanir verða þessar hugsanir raunveruleiki í þínu lífi. Sér í lagi þetta slíkur hugsanaháttur er orðinn að vana og sömu hugsanirnar eru aftur og aftur að móta huga okkar, líkama, líf og líðan. Þú verður að velja þær hugsanir sem þú ætlar að hugsa. Ekki sóa orku þinni í skaðlegt kjaftæði!
Ég skora á þig að setja allt neikvætt sjálfsniðurrif, sem er ekkert annað en andlegt ofbeldi gegn sjálfri þér/sjálfum þér, á ófrávíkjanlegan bann-lista. Að taka einlæga ákvörðun, frá rótum hjartans, um að þú munir aldrei beita sjálfa/n þig slíku ofbeldi framar. Um að þú munir hugsa vandlega um hvað þú ert að hugsa, sérstaklega um þig sjálfa/n, og í hvert sinn sem neikvæð, sjálfsniðurrifs hugsun skýtur upp í kollinum, munir þú stöðva hana, snúa henni við og hugsa, viljandi og af ásetningi, jákvæða KRAFT-hugsun, í staðinn.
Skrifaðu niður 5-6 jákvæðar kraft hugsanir sem þú ætlar að hugsa í staðinn fyrir þessar neikvæðu. Jafnvel þótt þú trúir þeim ekki ennþá, þá er nóg að þú viljir að þær séu sannar. Þær geta verið hvernig sem er, en hér eru nokkur dæmi, sem mér finnst gott að nota:
„Ég er frábær“
„Ég er nóg, ég hef alltaf verið nóg og ég mun alltaf verða nóg“!
„Ég elska sjálfa/n mig og ég er elskuð/elskaður“
„Ég er falleg/ur, bæði að innan sem að utan“
„Ég get gert allt sem ég vil, ég mun láta drauma mína rætast“
„Ég er heilbrigð/ur“
Með æfingunni finnur þú hversu auðvelt það verður að hugsa jákvætt, og hvernig neikvæðu hugsanirnar verða sífellt lágværari og hverfa með tímanum. Þú finnur hvernig þú verður glaðari, ánægðari, heilbrigðari, léttari, kærleiksríkari, og jákvæðari.
Taktu ákvörðun, það besta sem þú gerir er að þjálfa huga þinn til að fá það sem þú vilt í lífinu.
Fleiri pistla og fróðleik má finna hér á fb. síðu undirritaðrar.