„Alls voru þrettán handteknir vegna hópslagsmála sem brutust út á ellefta tímanum á föstudagskvöld á Ingólfstorgi þar sem barefli og hníf var beitt. Tveir voru fluttir á sjúkrahús en þeir voru báðir útskrifaðir í gær. Lögregla rannsakar hvort átökin tengist deilum tveggja hópa í undirheimunum.“
Svona hljómaði frétt Ríkisútvarpsins frá því á sunnudaginn um átök í næturlífi Reykjavíkur um síðustu helgi. Fréttir af þessum átökum voru fluttar í flestum fjölmiðlum en enginn virðist hafa haft áhuga á því að kafa dýpra í hvað var að gerast. Það ætti að koma á óvart því af samhengi fréttanna mátti ráða að þessir atburðir tengdust átökum í undirheimum borgarinnar, hverjir svo sem þeir eru. Meira að segja var gefið í skyn að hingað til lands hefði komið glæpaforingi sem hefði komið róti á hlutina og sett átökin af stað. Einnig var greint frá því að fyrirtæki nokkuð sem gerir út dyraverði í Reykjavík tengdist málinu.
Þeir sem fylgjast með íslenskum glæpafréttum muna án efa að umrætt dyravarðafyrirtæki var í fréttum í tengslum við morðið í Rauðagerði árið 2021. Morð sem allir sáu að hafði yfirbragð aftöku eða uppgjörs í reykvískum undirheimum. Gerandinn dvelst nú í góðu yfirlæti í íslensku fangelsi þar sem heimildir herma að allir verði að sitja og standa eins og honum sýnist. Staða hans í undirheimum utan fangelsisins tryggir það.
Öllum sleppt
Í áðurnefndum hópslagsmálum á Ingólfstorgi voru tveir menn stungnir með þeim afleiðingum að þeir voru fluttir á sjúkrahús. Af stuttu myndskeiði mátti sjá að annar mannanna var í klæðnaði merktum áðurnefndu dyravarðarfélagi. Báðir tveir hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en mildi þykir að ekki hafi farið verr, sagði lögregla við fjölmiðla. Annar mannanna var stunginn í þrígang en hinn barinn í höfuðið með kylfu. Upphaflega voru tíu handteknir í tengslum við stunguárásina og þrír í tengslum við hópslagsmál sem áttu sér stað í kjölfarið. Öllum hafði verið sleppt á sunnudeginum.
Í samtali við Morgunblaðið sagði yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að hann gæti ekki sagt til um hvort tengsl væru á milli hópanna tveggja en sagði að það væri eitt af því sem lögreglan hefði til skoðunar. Þessi atburðarás leiddi þó til þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra voru með aukinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt sunnudagsins. Á mánudaginn var haft eftir lögreglunni að málið væri umfangsmikið en rannsókn miði þó vel. Litlar fréttir hafa verið af málinu síðan.
Hugsanlega er ekki ástæða til að gera of mikið úr þessu en flestir ættu að átta sig á að fyrirtæki sem býður upp á „dyravarðaþjónustu“ hefur viðskiptamódel sem þolir illa dagsljósið. Ætli þetta sé ekki í viðskiptaflokknum „við ætlum að gera þér tilboð sem þú getur ekki hafnað“!
Efla þær stofnanir sem fyrir eru
Íslendingar eru uppteknir af ytri ógn þessa dagana og mikil umræða er um hvort ástæða sé til að koma upp her af einhverju tagi. Fæstir hafa trú á að íslenskur her verði að veruleika en það er okkur nauðsynlegt að efla þekkingu og skilning landsmanna á ytri sem innri ógn.
Að því leyti voru ábendingar Karls Steinars Valssonar, yfirmanns öryggis- og greiningardeildar ríkislögreglustjóra, í Silfrinu í gærkvöldi gagnlegar. Hann benti réttilega á að það væri skynsamlegt að efla þær stofnanir sem eru nú þegar fyrir í stað þess að reyna að setja upp nýjar. Liður í því hlýtur að vera að styrkja lögregluna eins og vikið hefur verið að hér í pistlum áður. Þá meðal annars til að takast þegar á við þann vísi að skipulagri glæpastarfsemi sem þegar hefur hreiðrað um sig í landinu og landsmenn og fjölmiðlar virðast vera furðu andvaralausir gagnvart.