Á föstudaginn langa minnast kristnir menn krossfestingar og dauða frelsara síns, Jesú Krists á Golgatahæð. Dagurinn er einn sá mikilvægasti í kristinni trú og markar hástig píslargöngu Jesú. Að sumu leyti hverfist kristin trú um þennan dag sem er talinn fela í sér fórn Jesú fyrir syndir mannkyns, grundvöll frelsissögu kristninnar. Helsta trúarskáld Íslendinga, Hallgrímur Pétursson, orti svo um atburði dagsins í Passíusálumunum:
„Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,
upp mitt hjarta og rómur með,
hugur og tunga hjálpi til.
Herrans pínu ég minnast vil“.
Dagurinn er oft haldinn hátíðlegur með föstu, bænum, hugleiðingu og kirkjuathöfnum, svo sem krossgöngum eða lestri píslarsögunnar úr Biblíunni. Í sumum löndum, eins og á Íslandi, er föstudagurinn langi almennur frídagur og áhersla er lögð á kyrrð og íhugun. Það getur verið eftirminnilegt að upplifa daginn í kaþólskum löndum en þar eru haldnar sérstakar athafnir, oft kallaðar „Píslarmessa“ þar sem líkneski eru í hávegum, öfugt við trúarhefðir mótmælenda. Í þessum messum er eðlilega lögð áhersla á píslarsöguna og beðið fyrir heiminum og veitir oftast ekki af. Lagt er upp með að athöfnin sé látlaus, án tónlistar í sumum tilfellum og altarið er oft afklætt til að tákna sorg. Ein algengasta hefðin í kaþólsku er krossgangan, þar sem trúaðir ganga í gegnum „stöðvar krossins“, sem tákna atburði píslargöngu Jesú. Þetta getur verið inni í kirkjum eða utandyra, stundum í stórum skrúðgöngum og eftirminnilegt að sjá.
Fjölmennustu trúarbrögð heimsins
Kristni eru fjölmennustu trúarbrögð heimsins, með um 2,4 milljarða fylgjenda sem er rétt innan við þriðjungur heimsbyggðarinnar. Kristni er ríkjandi í Evrópu, Ameríku, Ástralíu og hlutum Afríku sunnan Sahara. Stærstu kristnu samfélögin finnast í Bandaríkjunum (um 240 milljónir), Brasilíu (um 185 milljónir) og Mexíkó (um 118 milljónir). Kaþólska kirkjan er stærsta grein kristninnar (um 1,3 milljarðar). Þar á eftir kemur kirkja mótmælenda (um 900 milljónir) og rétttrúnaðarkirkjan (um 220 milljónir).
Staða kristninnar er mismunandi eftir svæðum og vex hún nokkuð hratt í Afríku sunnan Sahara, til dæmis í Nígeríu og Kenía og Asíu, til dæmis í Kína og Suður-Kóreu vegna mikillar trúboðsstarfsemi og fólksfjölgunar lengst af. Sumir segja að Afríka gæti orðið miðpunktur kristninnar á 21. öld en þar eru líka hörmulegar ofsóknir á hendur kristnum mönnum.
Hnignun kristninnar
Við getum hins vegar séð ákveðna hnignun kristninnar í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku en þar lækkar hlutfall kristinna vegna veraldarhyggju, trúleysis og vaxandi áhuga á öðrum trúarbrögðum. Til dæmis skilgreina aðeins um 60% Evrópubúa sig sem kristna og margir sækja kirkju sjaldnar. Um leið hefur íslam verið að sækja í sig veðrið víða í þessum löndum. Trúarleg fjölbreytni og veraldarhyggja móta kristni á heimsvísu, en hún heldur áfram að vera áhrifamikil í menningu, stjórnmálum og samfélagi.
Kristni glímir hins vegar við áskoranir víða og í Miðausturlöndum og Norður-Afríku standa kristnir hópar frammi fyrir ofsóknum, sérstaklega í löndum eins og Sýrlandi, Írak og Egyptalandi. Í Asíu geta kristnir einnig mætt takmörkunum, svo sem í Norður-Kóreu og sumum hlutum Indlands.
Ofsóknir á hendur kristnum
Samkvæmt skýrslum frá samtökum eins og Open Doors og Pew Research Center standa kristnir frammi fyrir mismiklum ofsóknum í um 50-70 löndum, aðallega í Miðausturlöndum, Norður-Afríku, Afríku sunnan Sahara og Asíu. Alvarlegustu ofsóknirnar eru í Norður-Kóreu þar sem kristni er nánast bönnuð. Kristnir geta lent í fangelsun, pyndingum eða aftöku. Áætlað er að 50.000-70.000 kristnir séu í vinnubúðum í Norður-Kóreu.
Í Afganistan, Sómalíu, Pakistan þurfa kristnir oft að lifa í felum vegna ógnana frá öfgahópum, samfélagslegri útilokun eða ströngum trúarlegum lögum. Að skipta frá íslam til kristni getur leitt til dauðarefsingar. Í Sýrlandi og Írak hafa kristnu samfélögin minnkað mikið vegna átaka, hryðjuverka, til dæmis frá ISIS, og mismununar. Margir hafa gripið til þess ráðs að flýja enda augljóst að trúarleg skautun í Miðausturlöndum vex.
Í Egyptalandi og Nígeríu verða kristnir fyrir árásum frá öfgahópum, svo sem íslamska hópnum Boko Haram í Nígeríu. Einnig verða kristnir að þola samfélagslega mismunun, til dæmis í atvinnu og menntun.
Á Indland er vaxandi þjóðernishyggja meðal hindúa og hefur það leitt til árásar á kristna, brennu kirkna og félagslegs þrýstings, sérstaklega í dreifbýli. Í Kína leggja stjórnvöld áherslu á að takmarka trúarstarfsemi, rífa niður kirkjur og fylgjast með kristnum hópum.
Í sumum löndum, eins og Tyrklandi og Indónesíu, standa kristnir frammi fyrir lagalegum takmörkunum, félagslegri útilokun eða einstaka ofbeldi, þótt staðan sé ekki jafn alvarleg.
Samkvæmt Open Doors 2025 World Watch List búa um 365 milljónir kristinna í löndum þar sem eru miklar ofsóknir eða mismunun. Um 5.600 kristnir voru drepnir vegna trúar sinnar árið 2024, og þúsundir kirkna voru eyðilagðar. Tölur geta þó verið breytilegar eftir heimildum.
Í vestrænum löndum er mikið talað um stöðu minnihlutahópa og jafnvel rætt um bakslag í réttindabaráttu einstakra hópa í formi menningarlegs þrýstings. Við getum sagt að það sé heldur mildara en þessi upptalning sýnir.