c

Pistlar:

25. október 2018 kl. 20:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Minnst hætta á fátækt á Íslandi

Ísland er það land í Evr­ópu þar sem fæst­ir eiga á hættu að lenda í fá­tækt eða fé­lags­legri út­skúf­un. Aðeins Tékkland stendur jafn vel og Ísland. Þetta kom fram í frétt sem Morgunblaðið birti í vikunni og hefur fengið furðu litla athygli. Þessar upplýsingar byggjast á nýj­um töl­um frá Hag­stofu Evr­ópu (Eurostat) sem skoðaði hverjir byggju við hættu á því að lenda í fá­tækt eða fé­lags­legri út­skúf­un á síðasta ári. Til að falla í þenn­an hóp urðu menn að upp­fylla eitt þriggja skil­yrða; eiga á hættu að lenda und­ir skil­greind­um fá­tækar­mörk­um, að búa við mjög bág­bor­inn fjár­hag eða eiga heim­ili þar sem at­vinnuþátt­taka er lít­il.

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að samkvæmt Eurostat bjuggu 113 millj­ón­ir manna inn­an landa Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB), við hættu við að falla undir þessa skilgreiningu eða 22,5% allra íbúa. Af þessu sést að ástandið á Íslandi er miklu betra en meðaltalið segir til um, talsvert betra en á hinum Norðurlöndunum og í raun best í Evrópu. Það er ekki eins og þessi staðreynd birtist í daglegri umræðu á Íslandi sem virðist þvert á móti byggjast á því að hér sé ástandið verst í Evrópu og jafnvel verra en víða í heiminum. Augljóslega er það fjarri lagi.fatækt

Nú skal ekki gert lítið úr vanda þessa hóps hér á landi sem fellur undir skilgreininguna að eiga á hættu að lenda í fátækt. Í grein Morgunblaðsins er bent á að hann telji um 40 þúsund Íslend­ing­ar. Það er sá hópur sem á hættu að lenda í þess­um aðstæðum sam­kvæmt töl­um Hag­stofu Evr­ópu. Það er nauðsynlegt að hafa í huga að þessi hópur telst ekki endilega fátækur samkvæmt skilgreiningu, hann er hins vegar í hættu á að falla í þann hóp þó eðli málsins samkvæmt, þeir sem nú þegar búa við fátækt, séu þar innanborðs.

Jöfnuður einnig meiri

Samkvæmt nýjustu tölum OECD er jöfnuður hvergi meiri í aðildarríkjunum en einmitt á Íslandi, ef miðað er við Gini-stuðulinn, en það eru svosem engin ný sannindi. Alþjóðleg­ur sam­an­b­urður Gini-stuðla á vef Hag­stof­unn­ar sýnir svart á hvítu að tekjuó­jöfnuður hafi verið minnst­ur á Íslandi meðal Evr­ópu­ríkja árið 2016. Afar treglega reynist hins vegar að koma þessari staðreynd að í umræðunni að það er nauðsynlegt að benda reglulega á hana. Ekki nóg með að tekjujöfnuður á Íslandi sé meiri hér en annars staðar, heldur hefur hann aukist síðustu árin.

Þá er vert að hafa í huga að eigna­ó­jöfnuður á Íslandi er sá þriðji minnsti meðal ríkja OECD sam­kvæmt skýrslu Cred­it Suis­se bankans. Af öllu þessu má ráða að jöfnuður eigna og tekna hef­ur auk­ist á Íslandi síðustu ár. Um það vitna op­in­ber­ar hag­töl­ur eða eins og birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar segir: „Hag­stofa Íslands birt­ir stuðul­inn reglu­lega fyr­ir Ísland og önn­ur Evr­ópu­lönd og er hann byggður á tekj­um sam­kvæmt skatt­fram­töl­um. Síðustu birtu töl­ur Hag­stof­unn­ar eru fyr­ir árið 2016 og var stuðull­inn 24,1. Hann var lægri en árið 2015 og langt und­ir meðaltali síðustu 10 ára þar á und­an.“

Fátækt á heimsvísu minnkar

En það er ekki bara hér á landi sem ástandið hefur verið að batna. Fyrir tveimur árum gerði ég að umtalsefni nýja skýrslu  um fátækt (Poverty and Shared Prosperity Report 2016) en þar varpar Alþjóðabankinn (World Bank) fram nýjum tölum sem sýndu meðal annars að fjöldi fólks sem býr við algera örbirgð (e. extreme poverty) hefur fallið um 1,1 milljarð manna á síðustu 25 árum. Á sama tíma fjölgaði mannkyninu um 2 milljarða manna þannig að árangurinn er í raun ótrúlegur. Hafa þarf reyndar þann fyrirvara á tölum Alþjóðabankans að hann miðar við 1,9 Bandaríkjadali sem alþjóðlegt viðmið til að lifa á dag en til þessa hefur tíðkast að miða við 1,25 dali.

En breytingin á við um öll svæði heims, já, allstaðar er ástandið að batna. Skiptir engu hvort það eru hin þokkalega stæðu svæði Austur-Evrópu og Suður-Ameríku eða síður vel stæðu svæði sunnan Sahara eða í Suður-Asíu, allstaðar sjáum við nú betri tölur. Vitaskuld er ástandið mismunandi á milli einstakra landa og það dregur úr fátækt með mismunandi hraða. En hvað sem því líður þá gefa tölurnar ekki mikið svigrúm fyrir efasemdir - alger örbyrgð er að minnka stöðugt og örugglega. Það var þá og er væntanlega enn í dag hægt að leyfa sér ákveðna bjartsýni um að það takist að efna fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Sustainable Development Goals) sem gengur út á að útrýma fátækt fyrir árið 2030.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.