c

Pistlar:

27. apríl 2019 kl. 18:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sýrakusa: Leikhús eða hringleikhús?

Eins og allar forngrískar borgir státar Sýrakusa af grísku leikhúsi. Leikhúsið er staðsett rétt fyrir utan miðbæjarkjarnann í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Ortiga-eyjunni sem allt snýst um í Sýrakusu í dag. Leikhúsið er staðsett í lágri fjallshlíð og hefur án efa haft sýni til hafsins en tré spilla því útsýni í dag. Engin vafi er á því að leikhúsið í Sýrakusu hefur verið með þeim stærri á sínum tíma og án efa verið stór þáttur í menningarlífi borgarbúa en Sýrakusa var um skeið önnur stærsta borg Grikkja, næst á eftir Aþenu. Slík borg varð að hafa glæsilegt leikhús.

Gríska leikhúsið er merkilegt fyrirbæri og stór hluti varðveittra fornminja frá þessum tíma eru einmitt leikhúsmannvirki. Það er auðvitað merkilegt til þess að hugsa að ekki svo löngu eftir að borgarmyndun hefst í Grikklandi hinu forna eru menn farnir að reisa metnaðarfull mannvirki fyrir leikhúsbyggingar. Þær eru oftast í nokkrum halla og ekki spillir fyrir ef útsýnið er fallegt. Stærð þeirra er vitaskuld mismunandi en stærstu leikhúsin tóku frá 15 upp í 20 þúsund manns. Ekki er með öllu ljóst hve snemma Grikkir fara að fást við leikrit en strax á 6. öld fyrir Krist eru komin víða myndarleg leikhús sem færa fólki afþreyingu og skemmtun. Framan af hefur leikhúsið án efa verið helgað einhverskonar blótum eða hátíðum en síðar verða þau að sérstökum skemmtunum. Leikritagerðin þróast og leikskáld eru í hávegum höfð í Grikklandi. Ekki var tekin aðgangseyrir inn í leikhúsin en vel stæðir borgarar sáu um að greiða leikurum og leikskáldum. Lengst af var þó um að ræða áhugamennsku hjá leikurum. Framan af eru harmleikir alsráðandi en síðar verða gamanleikir vinsælir. Þróun þeirra kemur meira frá nýlendunum, svo sem Sýrakusu, á meðan harmleikirnir eiga heimilisfesti í Aþenu.leikhússyr

Rómverjar elskuðu gríska menningu og eftir að þeir höfðu sigrast á Grikkjum samlöguðust þeir menningu þeirra og í sumum tilvikum guðunum einnig. Því gerðist það oft að grísku leikhúsin gengu í endurnýjun lífdaga undir undir stjórn Rómverja þó þeir sjálfir hefðu náð ákveðnum tökum á leikritun sjálfir. Jöfnum höndum drógust þó Rómverjar að villimannslegri skemmtunum eins og mátti finna í hringleikhúsum þar sem almennur skepnuskapur og ómenning ríkti. Á heimsveldistíma sínum fannst Rómverjum viðeigandi að etja saman nánast öllu því sem dýraríkið hafði uppá að bjóða.

Blóðvöllurinn

Hringleikahús (e. amphitheater) var að finna um allt Rómarveldi en frægast og stærst var leikhúsið í Róm (Colosseum) var reist 72-96 eftir Krist og tók 40 til 50.000 áhorfendur. Það var fjögurra hæða hátt og hægt var að draga tjald alveg yfir það til þess að skýla áhorfendum fyrir sól og regni. Þarna var litskrúðugt mannlíf, sölumenn og þjónar á þönum en þarna voru stundum haldnir leikar svo vikum skipti þegar stórsigrar keisaranna gáfu tilefni til.leikhús

Hringleikahúsið er hlaðið úr steini en gólfið var bara sandur. Undir sandinum voru fangaklefar dýranna og völundarhús tækja og tóla sem notuð voru til að koma dýrunum úr fangaklefum sínum og inn á leikvanginn.

Hringleikahús er einnig að finna í Sýrakusu eins og má sjá meðfylgjandi mynd. Það er frá því í upphafi keisaratímabilsins og er þokkalega varðveitt og merkilegt að skoða. Stærð þess tók mið af umhverfinu en það er um 140 metrar á lengd og um 120 á breidd. Það hefur sjálfsagt tekið á milli 5 og 10 þúsund manns. Skylmingaþrælar voru þjálfaðir í nágreninu og blóðvöllurinn þannig fullkomnaður. Það er sérkennileg upplifun að skoða þessi mannvirki í dag og hugsa til þess hve hátt mannkynið getur risið og síðan hve lágt það getur lotið.