c

Pistlar:

27. desember 2023 kl. 11:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Múhameð tekur Berlín

Samkvæmt frétt þýska fréttamiðilsins Tagesspiegel var Múhameð (Mohammed) vinsælasta drengjanafnið í Berlín árið 2022. Nafnið hefur farið fram úr Noah (Nóa), sem var í efsta sæti foreldra á síðasta ári, og Adam, sem er í þriðja sæti í nýjustu röðinni.

Þetta er kannski ekki svo ný frétt því að sögn blaðsins var Múhameð vinsælasta drengjanafnið í Berlín strax árin 2018, aftur 2019 og 2020 en féll niður í þriðja sæti árið 2021, til þess eins að rísa aftur upp í fyrsta sæti. Þetta kemur fram í gögnum sem safnað er af The Gesellschaft für deutsche Sprache (Society for the German Language (GfdS)), samtök um útbreiðslu og rannsóknir á þýskri tungu. Samtökin tóku saman nafnalista frá yfir 750 skráningarskrifstofum víðs vegar um landið, sem sendu inn tæplega eina milljón nafnaskráningar. Þegar annað og þriðja nafn er tekið með í reikninginn er Múhameð í 24. sæti yfir vinsælustu nöfn í öllu Þýskalandi.kóran

Lýðfræðilegar breytingar

En kannski er ekki allt sem sýnist í þessum niðurstöðum. GfdS skýrslan setur niðurstöður sínar ekki í nauðsynlegu samhengi, sagði Gabriele Rodriguez, sem rannsakar fjölskyldufræði og nafngiftir við háskólann í Leipzig, í samtali við þýsku ríkisstöðina DW þegar niðurstöðurnar lágu fyrir í upphafi. Þessi skortur á skýrleika í samfélagi sem er viðkvæmt fyrir breytingum á lýðfræði þess dregur málið inn í pólitíska umræðu um málefni fólksflutninga og flóttamanna og skapar rangar forsendur segir Rodriguez ennfremur.

Í frétt DW er bent á að það sé að hluta til rétt að Múhameð hefur farið upp í röð barnanafna vegna vaxandi innflytjendasamfélaga í Þýskalandi. En fréttastofan bendir líka á að það sé einnig vegna þess að það er hefð að fjölskyldur frá arabaheiminum nefna að minnsta kosti eitt af börnum sínum eftir Múhameð spámanni.

Það blasir við að auknar vinsældir nafnsins Múhameðs í Berlín má rekja til margvíslegra þátta, þar á meðal aukins fjölbreytileika íbúa borgarinnar, fjölgun fjölskyldna með íslamskan bakgrunn og menningarlega og trúarlega þýðingu nafnsins sem er eins og kunnugt er nafn spámannsins í íslam. Múhameð er reyndar vinsælt strákanafn, ekki bara í Berlín heldur um allan hinn vestræna heim. Um vinsældir nafnsins í hinum íslamska heimi þarf ekki að ræða. Í Bretlandi var til dæmis Múhameð eða Mohammed upp á enskan rithátt vinsælasta drengjanafnið í fimm ár í röð frá 2016 til 2021. Árið 2019 var nafnið meðal tíu vinsælustu nafna drengja í Bandaríkjunum.

Niðurstöður sem þessar eru viðkvæmar í fjölmenningarlöndum nútímans og eðlilega verður þeim sem efast um að rétt sé að reka ágenga innflytjendastefnu, sem breytir lýðfræði hratt, tíðrætt um þetta.koran2

Spár um fjölgun múslima

Í sumum löndum Evrópu eru mjög stór múslímsk samfélög, eins og í Albaníu, Bosníu og Kosovo. En þeim fjölgar einnig hratt í öðrum löndum. Árið 2016 var talið að um það bil 5,8 milljónir múslima hafi búi í Frakklandi sem er fjölmennasta múslimaland Vestur-Evrópu. Í Þýskalandi og Bretlandi eru einnig margir múslimar, eða tæpar 5 milljónir í Þýskalandi og 4,2 milljónir í Bretlandi, og aftur erum við að nota tölur frá 2016.

Það er um áratugur síðan Múhameð varð algengasta karlmannsnafnið í Ósló sem endurspeglar stór pakistönsk, marokkósk og sómölsk samfélög í höfuðborg Noregs. Um það bil 30% íbúa Óslóar eru innflytjendur sem er helmingi hærra en landsmeðaltalið.

Samkvæmt spágögnum frá Pew Research hugveitunni frá 2021 hafa verið gerðar þrjár mögulegar sviðsmyndir um fjölgun múslima í Evrópu eftir því hversu mikið fólksflutningar eru.

  • Án frekari fólksflutninga verða 7,4 prósent íbúa í Evrópu múslimar árið 2050.
  • Miðað við miðlungs fólksflutninga verða 11,2 prósent Evrópu múslimar árið 2050.
  • Við mikla fólksflutninga verða 14,0 prósent Evrópu múslimar árið 2050.

Fólksflutningar munu hafa mikil áhrif á lýðfræði sumra landa enda má segja að þessi fjölgun múslima verði eingöngu í Vestur-Evrópu. Samkvæmt háspá um fólksflutninga verður hlutfall múslima í Svíþjóð 30,6 prósent árið 2050, í Frakklandi verður hlutfallið 18,0 prósent, Þýskaland 19,7 prósent og Bretland 17,2 prósent. Ef þessi spá gengur upp mun hún hafa í för með sér mikla breytingu á menningu þessara landa.