Í þriðju þáttaröðinni af hinum vinsælu norsku þáttum Útrás (Exit) fá fjórmenningarnir siðblindu augastað á nýrri tegund af útrás og viðskiptum. Þeir snúa sér að grænu orkunni og sjá tækifæri í vaxandi starfsemi á vindmyllum. „Allt sem fram kemur í þessari seríu er alveg eins og það er í Noregi í vindmyllubransanum. Einhverjir spaðar eins og þessir gaurar, hafa séð sér leik á borði, eru búnir að reisa vindmyllur og selja orkuna, til dæmis til Google, og taka arðinn beint til Cayman eyjanna,“ sagði Gísli Örn Garðarsson, leikari og leikstjóri í samtali við Vísi og bætir við: „Ekkert skilar sér í sveitafélagið annað en klapp á bakið frá sveitastjóranum sem segir „við erum í grænni orku, sjáið vindmyllurnar sem við erum með.“
Útrásar-þættirnir voru eftirminnilegir og spillti ekki fyrir við gerð þeirra að þeir voru framleiddir á Spáni með ríkulegum endurgreiðslustyrkjum! Óháð því, þá veitti þessi þáttur Útrásar sýn inn í þann viðskiptaheim sem umhverfisiðnaðurinn hefur skapað. Skattar eru teknir af öllu mögulegu í nafni umhverfis- og loftslagsmála og síðan er þeim endurúthlutað til margvíslegra verkefna undir grænum formerkjum. Þá gildir að vera hugmyndaríkur eins og þeir Adam, Henrik, William og Jeppe voru sannarlega.
Er skortur á eftirliti vandamálið?
Nú síðast höfum við séð slíkt dæmi í umfjöllun um fyrirtækið Running Tide sem bauð upp á hugmyndaríka kolefnisjöfnun sem virðist hafa virkað að einhverju leyti ágætlega innan viðskiptaheims loftslagsvísindanna en að öðru leyti lítið átt skylt við vísindi. Þessa daganna er almenningur dálítið hissa á því sem þar fór fram.
Upplegg Ríkisútvarpsins í umfjöllun um Running Tide er að það hafi skort eftirlit! Að í raun hafi eftirlitsaðilarnir brugðist sem, eru dæmigerð viðbrögð þeirra sem halda að þetta loftslagsbókhald gangi yfir höfuð upp. Hvort meira (og dýrara) eftirlit hefði dugað til að láta framtak Running Tide ganga upp er eitthvað sem má hafa efasemdir um. Væri ekki nær að horfa á grundvöll þeirra stefnu sem skapar svona starfsemi sem byggist á afskaplega óljósum vísindum og handahófskenndri framkvæmd.
Upprifjun Heimildarinnar á því hvernig allir hrifust með er lærdómsrík. „Ísland er því fyrsta landið í heiminum til að búa til kolefniseiningar með kolefnisbindingu í hafi,“ tilkynnti Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, framkvæmdastjóri íslenska dótturfélagsins, Running Tide Iceland, í kjölfarið. „Framúrskarandi fyrirtæki,“ sagði utanríkisráðherrann, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, er hún hafði veitt fyrirtækinu leyfið. Og Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra loftslagsmála, hreifst með: „Það sem menn kannski átta sig ekki á er að við Íslendingar erum núna komin með lausnir þegar kemur að kolefnisföngun. Bara hér á stað sem við öll þekkjum, Akranesi, þar er til dæmis stærsta varanlega kolefnisföngunarverkefni í heimi, Running Tide.“ Af hverju eru greindir og ágætir stjórnmálamenn ginkeyptir fyrir svona nýjungum sem þeir augljóslega skilja lítið? Einfalda svarið er að það henti vel við atkvæðaveiðar.
Votlendissjóður bíður eftir vottun
En þetta er síður en svo í fyrsta sinn sem mál af þessu tagi koma upp. Fyrir nokkrum misserum var mikil umfjöllun um kolefnisjöfnun með því að moka ofan í skurði og ráðast þannig í einhverskonar endurheimt lands sem hafði tapað frá sér koltvísýringi við fyrri notkun. Nú er það svo að votlendi og mýrar binda sannarlega mikið kolefni sem gat gefið tilefni til að draga úr framrækslu lands og minnka skurðgröft. Það kom hins vegar á daginn að þessi staðreynd gerði það ekki endilega að verkum að það væri hagkvæmt að moka ofaní skurðina enda kolefnisbinding við það ekki í neinu samhengi við það sem tapaðist þegar skurðirnir voru grafnir. Enda kom í ljós að það var ekki verið að selja kolefniseiningar byggðar á vísindum heldur óskhyggju.
Viðskiptalíkan Votlendissjóðs byggðist á að selja eitthvað áþreifanlegt og því varð að hafa „sjónvarpsaugnablik“ þegar mokað var ofan í skurðina. Í síðustu frétt á heimasíðu Votlendissjóðs segir að sjóðurinn hafi stöðvar sölu kolefniseininga þar til vottun er í höfn. Þess er þó vænst að unnt verði að hefja sölu á virkum einingum, fyrir hönd áhugasamra landeigenda, á síðari hluta ársins segir í fréttinni.
Carbfix - stærsti draumurinn
Hér á landi eru mörg verkefni af líku tagi og Running Tide. Líklega er Carbfix þar fyrirferðamest en fyrir tveimur árum var áætlað að Carbfix myndi verja 40 milljörðum króna á tímabilinu fram til 2027 í uppbyggingu förgunarstöðva fyrir koldíoxíð og í frekari rannsóknir. Umfangsmest eru áform félagsins við Straumsvík, þar sem svokallað CODA-verkefnið verður byggt upp.
Carbfix fékk mikla athygli fyrir tveimur árum þegar upplýst var að fyrirtækið hefði hlotið styrk sem nam 16 milljörðum króna frá Nýsköpunarsjóði ESB til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal, Sódastöðinni, í Straumsvík. Í tilkynningu við það tækifæri kom fram að miðstöðin verði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og áætlað að styrkupphæðin nemi ríflega þriðjungi af kostnaði verkefnisins. Áætlað var að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og nái fullum afköstum árið 2031. Segja má að tvær grímur hafi runnið á marga þegar farið var skoða rauntölur í kringum Carbfix sem útheimtir gríðarlegt vatn og orku, auk þess sem margir hafa áhyggjur af mengun frá verkefninu. Nú er í gangi undirskriftarsöfnun gegn Carbfix-verkefninu.
Meira að segja sagnfræðingar elta loftslagsvísindin
Allt þetta sýnir okkur að allur vísindaheimurinn er undir áhrifum loftslagsumræðunnar með einum eða öðrum hætti. Það var enda athyglisvert sem Paul Cheney, prófessor í sagnfræði við Chicago-háskóla, lét hafa eftir sér fyrir ekki svo löngu en hann sagði að það sé mögulegt að vegna hnattrænnar hlýnunar nú á dögum vilji sagnfræðingar búa til tengingar milli náttúruhamfara og stórra pólitískra atburða í sögunni. Cheney segir þetta sjást til dæmis í sögu Rómaveldis, þar sem sagnfræðingar hafa nýlega farið að leggja mikla áherslu á loftslagsbreytingar í rannsóknum sínum. Af þessu má ráða að sagnfræðilegar skýringar geta veri að elta tíðarandann.