c

Pistlar:

30. júní 2024 kl. 14:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Misbeiting hugtaka og íslamófóbía

Menningarstríð hins vestræna heims setur sem vonlegt er mark sitt á kosningabaráttuna í Bretlandi en þar er tekist á um framtíð samfélagsins í mörgum málaflokkum, meðal annars í stefnunni í útlendingamálum. Bretland er fjölbreytt þjóðfélag en þetta gamla nýlenduveldi hefur lagt sig eftir að taka við íbúum frá fyrrum nýlendum breska heimsveldisins. Ríflega hálfrar aldar aðlögun að þessum breytingum hefur gerbreytt samsetningu þjóðarinnar eins og sést glögglega þegar fylgst er með enska landsliðinu í knattspyrnu. Reyndar aðeins karlalandsliðinu, kvennalandsliðið er nánast eingöngu skipað hvítum stúlkum ennþá, hvað sem veldur þessum mun.islamof

Það er ekki síst upprisa nýrra trúarsamfélaga í Bretlandi sem mótar umræðuna en í landinu eru nú fjórar milljónir múslima sem víða hefur skapað hörð menningarleg átök en það lætur nærri að helmingur þeirra sé aðfluttur. Bretland er sannarlega á leiðinni frá því að vera einsleitt samfélag og núverandi forsætisráðherra, Rishi Sunak, er hindúi og Sadiq Khan, borgarstjóri London, er fyrsti músliminn til að stýra evrópskri höfuðborg.

Ekki banna „íslamófóbíu“

Pistlahöfundurinn Ed Husain ræðir þetta menningarstríð í nýrri grein í tímaritinu The Spectator. Greinin ber heitið Ekki banna „íslamófóbíu“ (Don’t outlaw „Islamophobia“), kröftugt innlegg í þá umræðu sem nú er í Bretlandi. Ed Husain er múslimi sjálfur og var um skeið ráðgjafi Tony Blairs fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. Árið 2021 lauk hann doktorsnámi þar sem hann fjallaði um vestræna heimspeki og íslam og vann að því undir stjórn enska heimspekingsins Sir Roger Scruton, sem er nýlátinn. Ed Husain er einnig höfundur bókanna The Islamist (Penguin, 2007), The House of Islam: A Global History (Bloomsbury, 2018) og Among the Mosques (Bloomsbury, 2021) en þó ekki síst The House of Islam and Among the Mosques (2021) þar sem hann fjallar meðal annars um áhrif öfgaíslam og hreyfingar eins og Bræðralags múslima. Ritverk hans hafa verið tilnefnd til George Orwell-verðlaunanna. Hann er reglulegur pistlahöfundur í tímaritinu Spectator, hefur birst sem álitsgjafi á BBC og CNN og hefur skrifað fyrir Telegraph, The Times, New York Times, Guardian og önnur blöð. Ed Husain hefur verið líkt við hinn umdeilda baráttumann Tommy Robinson sem hóf umræðu strax árið 2015 um að fleiri múslimum yrði ekki hleypt inn í Bretland. Þetta er ekki sanngjarn samanburður en Ed Husain er mun yfirvegaðri í sínum málflutningi. Hann byrjar grein sína á því að rifja upp nýlega ummæli í kosningabaráttunni.

„Eitt af því sem kemur upp aftur og aftur er íslamófóbía,“ segir Keir Starmer, forsætisráðherraefni Verkamannaflokksins, í herferðarmyndbandi þar sem hann ræðir við Sadiq Khan og bætir við: „Við þurfum að segja aftur og aftur að íslamófóbía er óþolandi... og ég held að það sé meira sem við getum gert í ríkisstjórninni. Það er vissulega efni á netinu sem þarf að takast á við mun öflugri en það er í augnablikinu.“ Myndbandið sýnir Khan kinka kolli til samþykkis áður en hann segir við Starmer: „Reynsla þín sem saksóknari þýðir að þú munt hugsa um stefnuna sem við getum notað.“

Lækningin verri en meinið

Ed Husain undrar sig á nálgun þessara stjórnmálamanna og segir að þeir eigi ekki að hafa áhyggjur af stefnunni, miklu frekar þeim afleiðingum sem hún óafvitandi hefur og bætir við: „Að banna „íslamófóbíu“ - eins og Starmer, með mikinn meirihluta á þingi, gæti auðveldlega gert - þýðir ekkert. Ég er bæði múslimi og sagnfræðingur um íslam og mér finnst öll hugmyndin um íslamófóbíu vera ranghugmynd, orðsifjafræðileg rökvilla.“islamofobia

Ed Husain segir að hugmyndin um íslamófóbíu hafi verið fundin upp til að spegla einhverskonar hommahatur og draga fram hliðstæðu við gyðingahatur. En orðið sjálft sé í eðli sínu gallað. „Bæði hommahatur og gyðingahatur beinast gegn ákveðnum hópum. „Íslamófóbía“ er hins vegar ótti við hugmyndir, skoðanir og viðhorf. Ofbeldi eða mismunun gegn fylgjendum hvers konar trúarbragða er augljóslega óforsvaranleg, en það ætti líka að segja sig sjálft að í frjálsu samfélagi ætti fólki að vera frjálst að gagnrýna eða hæðast að skipulögðum trúarbrögðum. Enginn greindur múslimi ætti að setja orðið „íslam“ og orðið „fælni“ saman í einni setningu. Þess vegna varð orðið ekki til fyrr en tiltölulega nýlega. Það eru íslamistar og jihadistar sem hafa að mestu ýtt undir orðið íslamófóbíu til að koma sér undan eftirliti.“

Í grein sinni segir Ed Husain að ofstæki gegn múslimum, jafnvel ofbeldi gegn þeim sé sannarlega vandamál. En múslimar, eins og meðlimir allra trúarlegra minnihlutahópa, séu nú þegar verndaðir samkvæmt lögum frá 2010 í Bretlandi. Þá geri lögin um kynþátta- og trúarbragðahatur frá 2006 það lögbrot að kynda undir hatri gegn einhverjum á grundvelli trúar þeirra. Hann vísar í grein 3A, ákvæði 29J í lögunum sem dragi skýrt fram að þetta banni ekki „umræður, gagnrýni eða tjáningu andúðar“ í garð ákveðinna trúarbragða eða fylgismanna þeirra.

Þess má geta að íslamófóbíu má finna í íslenskri orðræðu og þá gjarnan lýst sem tilhæfulausri andúð gagnvart múslimum og orðræðu tengdri slíkri andúð. Augljóslega bíður Ed Husain upp á dýpri greiningu á þeirri umræðu sem hér á landi er oft afgreidd með heldur yfirborðskenndum hætti. Á íslenskum leslistum háskólanemenda má finna lesefni eins og Anti-semitism and Islamophobia – new enemies, old patterns. Race & Class eftir Sabine Schiffer og Constantin Wagner (2011). 

Svo eru aðrir eins og austurríski fræðimaðurinn Farid Hafez sem heldur því fram að gyðingahatur og íslamófóbía séu tvær hliðar á sama peningi og endurspegli kynþáttahugmyndir hvítrar Evrópu. Það væri ástæða til að skoða þær hugmyndir betur við tækifæri. hamas strið

Hugmyndafræði Bræðralags múslima

Ed Husain telur sig sjá hver stendur að baki þessari umræðu. „Ef þú skoðar öflin sem krefjast þess að Bretar banni íslamófóbíu, finnur þú hugmyndafræði Bræðralags múslima, and-vestrænnar alþjóðlegrar hreyfingar sem helgar sig því að eyða Ísrael og koma öllum araba- og múslimastjórnum frá; stofnun sem er opinberlega gegn samkynhneigð og styður kvenhatur. Að fordæma þessa öfgastefnu er trúarleg skylda flestra múslima, vegna þess að íslamistar eru að eyðileggja fegurð, fjölhyggju og arfleifð klassísks íslams. Íslamistar eru bannaðir í Mekka en starfa frjálsir í dag í Bretlandi. Og þeir sérhæfa sig í að nota lög, sem eiga að tryggja jafnræði, til að krefjast úrræða til að elta, rægja og (helst) sækja gagnrýnendur sína til saka.

Eins og Khan benti á er Starmer saksóknari [Starmer vann áður sem saksóknari hjá embætti breska ríkissaksóknarans]. Hann hefði nú átt að læra að greina á milli íslams og íslamisma, en hann sýnir engin merki um að skilja muninn. Hann hefur komið fram fyrir hönd íslömsku samtakanna Hizb ut-Tahrir og setið í ríkisstjórn Jeremy Corbyn, sem einu sinni kallaði Hamas „vini“ sína. Í herferðarmyndbandinu segir Sir Keir að andúð gegn múslimum hafi aukist í kjölfar árásanna 7. október. En þar sem það eru Hamas og íslamismi sem hafa skapað þessa andúð á múslimum þá væri Starmer nær að ávarpa þá. Ef hann gerði það myndi hann taka undir með mörgum í Bretlandi sem viðurkenna, að af bókstafstrú stafar gríðarleg ógn við landið okkar.“

Ed Husain telur augljóslega að Starmer misskilji stöðuna og segir að honum væri nær að berjast gegn harðlínumönnum íslams. Hann spyr hvort Starmer hafi yfir höfuð hugrekki til þess? Hann segir að það að rífa íslamista upp með rótum frá stofnunum og götum Bretlands myndi gera landið öruggara og gera meira til að stuðla að betri samskiptum múslima og þeirra sem ekki eru múslimar en nokkur ný lög gætu gert. Hann segist hins vegar telja að hvorki Verkamannaflokkurinn né Íhaldsmenn séu tilbúnir að skuldbinda sig til slíkrar hugmyndafræðilegrar baráttu. Það skilji völlinn opinn fyrir Nigel Farage.

Gagnrýnir hugmyndir um lög gegn íslamófóbíu

Ed Husain segir að sérstök löggjöf gegn „íslamófóbíu“ myndi hafa hörmulegar afleiðingar. Hann bendir á þekkt dæmi frá Þýskalandi þar sem dómarinn neitaði að veita múslimskri konu skilnað frá ofbeldisfullum eiginmanni sínum árið 2007, á þeim forsendum að misnotkunin væri menningarlega ásættanleg og viðurkennd af Kóraninum. „Slík atvik yrðu eðlileg af ótta við ásakanir um „íslamófóbíu“. Við skulum muna að i-orðið hefur ekki aðeins verið notað gegn stjórnmálamönnum heldur einnig gegn múslimum sem takast á við jihadista,“ skrifar Ed Husain.

Að tengjast og aðgreina sig, móðga og faðma, samþykkja og hafna, allir þessir þættir eru kjarni vestræns frelsis, segir Ed Husain og spyr: „Hvar værum við ef við hefðum ritskoðað gagnrýni David Hume á kristni á 18. öld, eða bannað rit Gibbons um sögu Rómar þar sem hann fordæmdi stofnanavæðingu trúarbragða? Íslam fæddist vegna þess að spámaðurinn Múhameð gerði gys að heiðnum trúarbrögðum í Mekka. Gyðingdómurinn dafnaði vel vegna þess að Abraham og síðar Móse voru á móti hinum heiðnu Egyptum og ofsóknum þeirra á hendur gyðingum. Kristni efldist þegar Páll og fyrstu lærisveinarnir réðust á gildi Rómar og lög Júdeu.“hamas str2

Gagnrýnin og allt að því móðgandi hugsun er nauðsynleg fyrir vestrænt frelsi og borgarar opinna samfélaga verða að læra að þola slíkt. Gagnrýni og umræða eru fyrirboði framfara. Það þarf ekki að hlúa að múslimum með of verndandi löggjöf, segir Ed Husain og heldur áfram.

„Í dag er það „íslamófóbía“. Hvað verður næst? Á að banna okkur að efast um kynjamisrétti bókstafstrúar íslams: barsmíðar á eiginkonum, ósanngirni skilnaðarlaga, misskiptingu þegar kemur að erfðarétti, viðbrögð við fráhvarfi frá trú? Íslamófóbíulög eru skref aftur á bak, sem gerir umbótasinnuðum öflum í íslam erfiðara fyrir. Þetta er eitthvað sem veraldlegir stjórnmálamenn í dag eiga erfitt með að skilja. “

Ed Husain dregur ekki dul á að það fylgi ýmis vandamál vaxandi andúð á múslimum í Bretlandi. Niðurstaða hans er hins vegar afgerandi: „En ef Starmer og Verkamannaflokknum er alvara með að takast á við það, þá ættu þeir að banna Bræðralag múslima og félaga þess. Það er engin betri leið til að vernda hófsama, þjóðrækna múslima en að útrýma því krabbameini sem fylgir öfgum innan íslams nútímans.“