c

Pistlar:

21. júlí 2024 kl. 11:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjölþjóðaríki Evrópu dæmd til að falla?

Síðustu 150 árin eða svo höfum við séð stór fjölþjóðaríki leysast upp í Evrópu og stórt ríkjabandalag rísa. Hér er hægt að tína til Ottómanveldið, Austurrísk-ungverska keisaradæmið, Sovétríkin og síðast Júgóslavíu þó það sé sýnu minnst. Því má halda fram að Evrópusambandið hafi tekið upp merkið sem ríkjabandalag sem stefnir óðum að því að lúta einni stjórn, þróun sem sagan getur sýnt ýmsar hliðar á. Ef farið er út fyrir Evrópu má finna mismunandi fjölþjóðleg veldi í nærsögu okkar en fá jafnast á við þrjú fyrst nefndu. Líklega verður að telja ofrausn að tala um Júgóslavíu í þessum hópi þó landið hafi vissulega verið fjölþjóðlegt eins og birtist skýrast þegar það leystist í sundur árið 1991 og Slóvenía, Króatía, Bosnía og Hersegóvína, Norður-Makedónía, Svartfjallaland, Serbía og Kósóvo tóku sér stöðu í samfélagi þjóðanna.ottóm

En getur það verið að í sögu þessara ríkjabandalaga sé að finna vísbendingu um hvernig Evrópu mun ganga sem fjölþjóðlegu ríki? Vissulega er vafasamt að yfirfæra sögu ríkja frá fyrri öldum yfir á nútímalegt ríki en það blasir þó við að allra þriggja beið innri hnignun þar til þau voru ekki samkeppnisfær og leystust að lokum upp. Í bók sinni um Miðausturlönd finnur Magnús Þorkell Bernharðsson nokkur samlíkindi á milli Ottómanveldisins og Sovétríkjanna, bæði ríkin reyndu umbætur án þess að það tækist, bendir Magnús Þorkell á.

Náði yfir þrjár heimsálfur

Ottómana-ríkið undir stjórn soldánsins í Istanbúl náði yfir hluta þriggja heimsálfa, frá Gíbraltarsundi í vestri til Kaspíahafs í austri og frá Austurríki í norðri til Sómalíu í suðri og leysti austrómverska keisaradæmið af hólmi. Kjarni ríkisins var á Balkanskaga og í Tyrkland en einnig á stórum svæðum í Vestur-Asíu og Norður-Afríku, þar á meðal Egyptalandi. Upphaf ríkisins er rakið til ársins 1453 þegar Konstantínópel lét undan árásum Ottómana eins og fjallað hefur verið um hér í pistli. Sú skilgreining er undir áhrifum vestrænna sjónarhorna því ríkið var þegar farið að mótast á 13. öld austur í Mið-Asíu og inn í Anatólíu. Áður er talið að Ottóman-Tyrkir hafi komið frá Allai fjöllunum, sem í dag tilheyra Mongólíu.

Það var hins vegar undir stjórn Suleimans hins mikla (1520–1566) sem heimsveldið náði hámarki valds síns, velmegunar og pólitískrar þróunar. Þegar kom fram í upphafi 17. aldar réðu Ottómanar yfir 32 löndum/héruðum og fjölmörgum héraðsríkjum, sem með tímanum voru ýmist tekin inn í veldið eða veitt sjálfstjórn á ýmsu stigi. Innan þessa mikla heimsveldis bjuggu fyrir vikið fjöldamargar þjóðir, töluð voru óteljandi tungumál og fólkið skiptist í ýmsar trúardeildir. Innan Ottómanaveldisins var fjölbreytileikinn mikill og hugsanlega má tala um fjölmenningu þó það orð sé seinni tíma uppfinning.ottom2

Með höfuðborg sinni í Konstantínópel (nútíma Istanbúl) og stjórn yfir umtalsverðum hluta Miðjarðarhafssvæðisins var Ottómanaveldið miðpunktur samskipta milli Miðausturlanda og Evrópu í sex aldir. Grunnur að heimsveldinu var hið svokallaða millet-kerfi en millet þýðir samfélag eða þjóð. Hver trúardeild var kölluð millet og fyrir hverju millet fór tiltekinn trúarleiðtogi sem um leið var fulltrúi þess samfélags gagnvart stjórnvöldum. Segja má að hvert millet hafi borið ábyrgð á sínu fólki frá vöggu til grafar. Allt þetta stjórnkerfi krafðist mikillar pappírsvinnu og skjalasöfn frá Ottómanveldinu gríðarleg. Sagt er að sagnfræðingum endist ekki ævin til að rannsaka skjölin og uppbyggingu veldisins.

Vestrænni menningu bjargað við Vín

Þó að einstaka fræðimenn vilji halda því fram Ottómana-ríkinu hafi byrjað að hnigna strax eftir valdatíð Suleimans hins mikla, þá er meiri stuðningur við þá skoðun að ríkið hafi haldið áfram að viðhalda þokkalega sveigjanlegu og sterku efnahagslífi, samstæðu samfélagi og ásættanlegum her stóran hluta 18. aldar. Her soldánsins varð að láta undan í seinna umsátri sínu um Vín árið 1683 og má segja að þar með hafi útrás þeirra verið stöðvuð og sumir sagnfræðingar segja að í þeirri orrustu hafi vestrænni menningu verið bjargað. Líklega heldur dramatískt en engum duldist að þarna áttust við ólíkir trúar- og menningarheimar. Í ágætri bók sinni, The history of the World, bendir sagnfræðingurinn Frank Welsh á allt eins megi segja að nútíminn hafi haldið innreið sína á 17.öld eins og að miða við landafundina og siðbót Lúters. Þannig bendir Welsh á nútímann megi eins rekja til atburða austar í Evrópu, svo sem strand útþenslu múslima við Vín.Skjámynd 2024-07-21 112340

Breytingar voru í farvatninu og á löngu friðartímabili frá 1740 til 1768, dróst tyrkneski herinn smám saman aftur úr helstu keppinautum sínum í Evrópu, Habsborgara- og Rússlandsveldinu en um landavinninga Katrínar miklu hefur verið fjallað hér í pistli en hún var helsti óvinur Ottómana í norðri. Að sumu leyti uggðu Ottómanar ekki að sér og urðu fyrir vikið fyrir miklum hernaðarósigrum seint á 18. öld og snemma á 19. öld sem hafði bæði í för með sér tap á landi og rýrnandi álit og virðingu. Það var þeim til að mynda mikið áfall að tapa landsvæðum í innrás Napóleons á árunum 1798 til 1801. Kom þá í ljós að her þeirra var orðinn langt á eftir þróuninni í Evrópu, nokkuð sem henti bæði heri Habsborgara og Sovétríkjanna síðar. Það er útúrdúr en þegar herjum Austurrísk-ungverska keisaradæmisins og Rússum laust saman í fyrri heimsstyrjöldinni voru það Rússar sem voru orðnir nútímalegri.

Þolinmæði í trúmálum

Reynt var að bregðast við þessu með umfangsmiklu umbóta- og nútímavæðingarferli sem kallaðist Tanzimat sem meðal annars gekk út á að efla herinn, bæta stöðu minnihlutahópa og styrkja stjórnsýsluna. Það hafði áhrif um sinn og á 19. öld varð Ottóman-ríkið valdameira og innra skipulag batnaði þrátt fyrir að ríkið hafi orðið fyrir búsifjum, sérstaklega á Balkanskaga, þar sem fjöldi nýrra ríkja komu til. Sum þeirra urðu síðar hluti af Austurrísk-ungverska keisaradæminu og síðar Júgóslavíu og fengu ekki sjálfstæði fyrr en í lok 20. aldar.ottoman3

Ottómana-ríkið sýndi öðrum trúarbrögðum talsverða þolinmæði og kristnir menn og gyðingar fengu að þrífast innan borgarmúra Istanbúl þó þeir væru alltaf lægra settir en múslimar. Trúarklofningur meðal múslima hafði hins vegar mikil áhrif á þróun ríkisins og lengi voru átök á milli Istanbúl og Bagdad og síðar Írans hver ætti að leiða heim múslima. Átökin milli súnníta og sjíta-múslima höfðu sömuleiðis áhrif á framvindu ríkisins en þeir síðarnefndu höfðu lengst af tíma Ottómanaveldisins valdamiðju sína í ríki Safavída í Persíu.

Habsborgararnir, sem stýrðu Austurrísk-ungverska keisaradæminu, áttu sinn þátt í að grafa undan ríki Ottómana og við munum fjalla um þá síðar. Ottómanaveldið var á þeim tíma kallað veiki maðurinn í Evrópu (titill sem Habsborgararnir tóku svo yfir) og endaði á því að styðja Þýskaland og Austríki-Ungverjaland í heimsstyrjöldinni fyrri. Bretar beittu því ráði að virkja araba á Arabíuskaganum gegn Ottómanveldinu eins og myndin um Arabíu-Lawrence dregur ágætlega fram. Í framhaldinu drógu Bretar línu í sandinn og til urðu þau landamæri sem enn gilda fyrir botni Miðjarðarhafsins og hafa valdið erfiðleikum frá upphafi.

Þrjú íslömsk stórveldi

En þessa sögu alla verður að skoðast í því ljósi að þrjú íslömsk stórveldi réðu um tíma svo gott sem öllu því svæði sem við köllum í dag Miðausturlönd, auk Indlands, Norður-Afríku og Balkanskaga. Safavídar í Persíu og Mógúlar á Indlandi komu komu fram á 16. öld og liðu ríki þeirra undir lok á 18. og 19. öld. Mógúlar og Ottómanar rekja uppruna sinn til Mongólíu. Öll þessi þrjú ríki voru miklar menningarmiðstöðvar, öflug hernaðarveldi og bjuggu að miklu ríkidæmi og eðlilegt að telja þau fyrirrennara nútímaríkjanna Tyrklands, Írans og Pakistans sem samtals telja um 400 milljónir manna og gegna veigamiklu hlutverki í alþjóðastjórnmálum nútímans.