c

Pistlar:

2. ágúst 2024 kl. 11:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vatnajökull leggst á einkaframtakið

Það getur verið forvitnilegt að fylgjast með nýjum ríkisstofnunum verða til og samskiptum þeirra við þá starfsemi sem einkaframtakið hafði áður reynt að koma á laggirnar. Það er oftast svo að lög og tilheyrandi ríkisstofnanir birtast eftir að einkaframtakið hefur fundið tækifæri til að selja þjónustu eða vöru. Þá þarf að stofnannavæða einkaframtakið. Það verður jú að vera skikk á partýinu!vatn

Í liðinni viku var viðtal við Óskar Arason, eiganda ferðafyrirtækisins Iceguide, í Morgunblaðinu þar sem hann sagði frá uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Hornafirði og við Jökulsárlón. Fyrirtæki Óskars býður upp á kajakferðir í Jökulsárlóni og Heinabergslóni ásamt leiðsögn en Óskar kveðst í samtali við Morgunblaðið hafa verið sá fyrsti á landinu til að bjóða upp á slíkar ferðir á jökullónum og einn af þeim fyrstu til að vera með íshellaferðir. Sannkallaður frumkvöðull.

En tilefni viðtalsins er starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs sem Óskar segir að stofnunin hafi óljóst hlutverk og að það hafi skapað starfsóöryggi fyrir rekstraraðila við lónið, þar sem stofnunin veiti einungis starfsleyfi eitt sumar í einu. Nú sé til skoðunar að bjóða rekstur við Jökulsárlón út en Óskar segir enga heimamenn með smærri rekstur geta keppt við stórfyrirtæki í slíku útboði. Hann telur stefnuleysi ríkja í ferðaþjónustunni á landinu, sem skorti alla framtíðarsýn.

Stofnun í leit að tilgangi

Nú skal ekki fullyrt um stefnuleysið en augljóslega er ríkisstofnunin Vatnajökulsþjóðgarður að þrengja mjög að starfsemi sem hafði orðið til úr engu. Jú, vissulega getur þurft að hafa eitthvert fyrirkomulag á starfsemi innan þjóðgarðsins en varla er ætlunin að stofnunin stýri framþróun og samkeppni þeirra starfsemi sem þarna hefur orðið til. Þetta orðar Óskar með skýrum hætti. „Því miður er þessi stofnun bara ekki búin að ná neinu haldreipi í því hver hennar tilgangur á að vera.“

Óskar segir óvissuna sorglega í ljósi þess að þjóðgarðurinn hafi meðal annars verið stofnaður af heimafólki úr sveitinni og eigi samkvæmt 4. grein í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð að hlúa að starfsemi og samfélaginu á svæðinu. Það hafi ekki verið bersýnilegt í stefnu þjóðgarðsins við Jökulsárlón, sem hefur heyrt undir þjóðgarðinn frá 2017.

Fyrirsjáanleiki nauðsynlegur

Á þeim tíma var Óskar þá byrjaður með sína starfsemi á svæðinu og fékk því áframhaldandi rekstrarleyfi. „Síðan þá hef ég ítrekað óskað eftir að fá eitthvert framtíðarleyfi til einhverra ára, til að ég geti byggt upp mína starfsemi öllum til hagsbóta,“ segir Óskar.

Óskar segist fá á hverju ári þau svör ein að leyfin séu gefin út eitt sumar í einu en fullvissaður um að brátt hefjist vinna við að koma betra leyfisveitingakerfi á koppinn. Enn bóli ekkert á því og segir Óskar orðið nær ómögulegt að halda rekstrinum áfram vegna óvissunnar.

Auðvitað er það óþolandi að ríkisstofnun sem tekur að sér að stýra starfsemi einkafyrirtækja geti hagað sér svona, að hún geti ekki haft skilning á því að fyrirsjáanleiki skiptir öllu í rekstri. Öðru vísi geti menn ekki gert áætlanir og miðað fjárfestingar út frá þeim.

Forsendum breytt af stofnuninni

Þá virðast starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs tilbúnir til að breyta öllum forsendum einkaaðilanna sem þar hafa starfsemi. Nú þegar leyfi þess sem hafi verið lengst með starfsemi í bátaferðum á lóninu sé að renna út virðist sem ríkið ætli að láta verða af útboði á uppbyggingu og rekstrarleyfum við Jökulsárlón. Í frétt Morgunblaðsins segir að það gefi stærri rekstraraðilum, sem engin tengsl hafi við landsvæðið, forskot á að taka yfir reksturinn og uppbygginguna sem heimamenn hafi unnið að í áratugi.

„Ég er ansi hræddur um að lítið fyrirtæki eins og mitt hafi ekkert bolmagn til samkeppni þegar stærri aðilar koma inn í þennan bransa,“ segir Óskar við blaðamann Morgunblaðsins. Meðal annars sé verið að taka vöru og þjónustu, „sem ég er búinn að byggja upp í yfir tíu ár í litlu fyrirtæki, og setja hana á uppboð.“vatngarður

Einnig vekur athygli að nú er þjóðgarðurinn farin að reyna að stýra viðskiptaþróun í garðinum og hefur boðið út alla sérkennilegar hugmyndir á því sviði eins og sést hér og meðfylgjandi mynd sýnir.

Hér hefur áður verið bent á það í pistli að dags daglega séu settar fram háværar kröfur um að auka við og stækka umfang hins opinbera. Að það þurfi fleiri stofnanir og fleiri ríkisstarfsmenn, að ríkið þurfi að hafa aðstöðu og starfsmenn til að bregðast við sérhverjum þeim vanda sem birtist og hafa svo sterkt eftirlit með öllu. Fyrir Alþingi á hverjum tíma liggja þannig fyrir kröfur um allskonar útgjaldaauka, hvort sem það er tillaga um að auka heimildir til að fella niður námslán eða stofna nýjar stofnanir umboðsmanna. Þingmenn sem kalla eftir nýjum stofnunum og verkefnum koma iðulega af fjöllum ef einhver spyr um kostnað, sem er reyndar sjaldgæft í umræðunni, hvað þá þegar stofnanir fara að skekkja samkeppni eins og birtist í þessum aðgerðum Vatnajökulsþjóðarðs. Þeir sem tala fyrir hagræðingu, skynsemi og aðhaldssemi í rekstri hins opinbera eru oftast hjáróma og fá litla athygli í fjölmiðla.