c

Pistlar:

12. ágúst 2024 kl. 21:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bretland: Fjölmenningarlegt eða fjölþjóðlegt?

Það er fróðlegt að sjá hvernig sagnfræðingurinn David Starkey bregst við nýjustu mótmælum og óeirðum víða um Bretland í nýlegu viðtali við GB sjónvarpsstöðina. Starkey gagnrýndi Keir Starmer, nýjan forsætisráðherra Breta, harðlega fyrir viðbrögð hans við mótmælunum og sagði Verkamannaflokkinn hafa endanlega misst traust hvíts fólks úr verkamannastétt. David Starkey, sem er ekki þekktur fyrir að læðast með veggjum, lýsti einnig hvernig hið friðsæla og örugga England sem hann ólst upp við sé horfið og sagði að það hafi verið eyðilagt af Tony Blair og New Labour sem hafi þvingað fjölþjóðasamfélag upp á óviljuga Breta.
Það er fróðlegt að hlusta á marga menntamenn greina ástandið á Bretlandseyjum núna og að sumu leyti er það fullkomlega á skjön við þá mynd sem íslenskir fjölmiðlar reyna að draga upp en vikið hefur verið að því í pistlum hérna.mótmæli

Engum dylst að Bretland er fjölmenningarlegt land hvað svo sem felst nákvæmlega í því og virðist einnig vera fjölþjóðlegt land eins og David Starkey bendir á. Eftir að hafa tekið við miklum fjölda innflytjenda frá nýlendum sínum, sem hafa reynt að aðlagast bresku samfélagi síðustu 50 ár eða svo, hefur dunið yfir breskt samfélag gríðarlegur straumur ólöglegra innflytjenda. Lætur nærri að um hálf milljón ólöglegra innflytjenda hafi streymt til landsins á ári síðustu ár sem hefur skapað gríðarleg vandamál við móttöku þeirra. Nútímasamfélagið með allri sinni skriffinnsku og mannréttindaákvæðum er augljóslega ekki í stakk búið til þess að taka við gamaldags þjóðflutningum.

Stjórn íhaldsmanna var með ýmis áform um að stemma stigum við innflæðinu svo sem að senda fólk til Rúanda. Satt best að segja gekk það allt mjög brösulega og lítið varð úr verki. Fyrsta verk Keir Starmer-stjórnarinnar var að afturkalla aðgerðir svo sem Rúanda-áætlunina og strangari ákvæði um fjölskyldusameiningar, meðal annars það sem kvað á um að þeir sem fengju fjölskyldusameiningu yrðu að sýna fram á að þeir gætu framfleitt þeim ættingjum sem kæmu. Ákvæði sem Danir hafa einnig reynt að innleiða.

Hælisleitendur á hótelum og heimamenn í fangelsi

Það eru allir sammála um að fólk sem veldur eignatjóni og stendur fyrir ofbeldi í mótmælum verði að standa ábyrgt gerða sinna. Og þannig hefur Keir Starmer viljað mæta mótmælunum núna, væntanlega minnugur reynslunnar frá mótmælunum árið 2011 þegar hann var saksóknaramegin í tilverunni. En margir upplifa mismunun í viðbrögðunum, ofbeldisfull mótmæli ýmissa hópa hafi verið látin átölulaus en nú sé mótmælendum mætt af fullkominni hörku og þeir sendir í fangelsi nánast daginn eftir handtöku. Menn eigi ekki að venjast slíkri skilvirkni í bresku dómskerfi. Um leið eru margir steini lostnir yfir þeim ákvörðunum stjórnvalda að elta fólk uppi sem hefur talað óvarlega á samfélagsmiðlum og senda það einnig með hraði í fangelsi. Á meðan eru bresk stjórnvöld með tugi þúsunda hælisleitenda á hótelum.

Bresk stjórnvöld eru augljóslega í vandræðum með sitt fólk núna. Þannig var 55 ára gömul kona í Chester handtekin fyrir skömmu fyrir að segja að morðinginn í Southport hefði verið flóttamaður og á lista MI6. Hún fór augljóslega rangt með staðreyndir en menn spyrja hvort ástæða hafi verið til að handtaka konuna þar sem hún hafi ekki hvatt til ofbeldis. Allir eru sammála að lögreglan verði að bregðast við þeim sem hóta ofbeldi, fremja ofbeldisverk eða stunda skemmdarverk og íkveikju. „En um leið ættu embættismenn að standast þá hvöt að líta á ritskoðun sem lausn á vandamálum sem hún getur ekki leyst. Því miður gerði breska ríkisstjórnin hið gagnstæða og gaf út viðvörun á X um að „Hugsaðu áður en þú birtir,“ á meðan hún vitnaði í færslu frá ríkissaksóknara um að hvetja til haturs og „netofbeldis“,“ skrifar Sarah McLaughlin á síðu tjáningarfrelsissamtakanna Fire (Individual Rights and Expression).

David Starkey segist ekki sammála fullyrðingum Elon Muske um að það stefni í borgarastríð í Bretlandi en það sé hins vegar óhjákvæmilegt að ólíkir kynþættir muni eiga meira í átökum, svo sem milli hindúa og pakistana, múslima og hindúa og, því miður segir hann, milli hvítra og allra annarra.atök

Ranghugmyndir um fjölmenningarsamfélagið

Hugmyndin um fjölmenningarlegt samfélag er stór hluti af stefnu margra þjóða þegar kemur að málefnum innflytjenda og hælisleitenda, sé yfir höfuð til stefna sem má oft efast um enda stjórnvöld víða um Evrópu of upptekin við að bregðast við til að geta hugsað um stefnu. En margir gæla við að það geti orðið blöndun og samlögun með friðsömum hætti sem smám saman dragi úr árekstrum sem ella fylgja því þegar fólk af ólíkum uppruna og með ólíka siði þarf að búa hlið við hlið. Oft er réttara að tala um fjölþjóðasamfélag en fjölmenningarsamfélag eins og áður var vikið að. Þjóðir hafa vissulega lifað hlið við hlið og hin menningarlega skörun verið mjög misjöfn frá einum tíma til annars.

„Þannig eru fjölmenningarsamfélög auðvitað ekki ný af nálinni þó að Evrópubúar hafi enduruppgötvað meint ágæti þeirra á undanförnum áratugum. Mörg af ríkjum Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar eru fjölmenningarríki og fá jafn fjölbreytt og Lýðveldið Kongó, eitt fátækasta ríki heims. Í Malí og fleiri ríkjum Vestur-Afríku, þar sem eyðimörkin og hitabeltisgresjan mætast og finna má mikinn fjölda þjóðarbrota, trúarbragða og ólíkra menningarheima, ríkir víða upplausnarástand og óöld. Þó að eflaust sé erfitt að benda á eitthvað eitt sem stendur í vegi fyrir að þessi ríki nái að tryggja íbúum sínum batnandi lífskjör er ein meginástæðan án efa sú að um er að ræða ríki án þjóðar, sem eiga í erfiðleikum með að skapa næga samheldni til að geta skipulagt sig og tekið sér á hendur þau sameiginlegu verkefni sem lagt gætu grunninn að viðvarandi hagvexti. Því eins og bandaríski félagsfræðingurinn Robert Putnam hefur sýnt fram á er neikvætt samband milli samfélagslegrar samheldni og fjölbreytileika. Félagsauður byggir með öðrum orðum á sameiginlegum einkennum, gildum og menningu,“ skrifar Kjartan Fjeldsted í vorhefti Þjóðmála árið 2020. Þessi sameiginlegi félagsauður virðist vandfundinn í því ástandi sem nú er í Bretlandi.