c

Pistlar:

26. ágúst 2024 kl. 17:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Martröð vegtolla skellur á höfuðborgina

Um 63% íbúafjölda landsins bjó á Stór-Reykjavíkursvæðinu 1. janúar 2024, í samfelldri byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar, alls 239.733 manns. Þar af um 140 þúsund í Reykjavík. Segja má að hvorki höfuðborgarsvæðið né Reykjavík sé nógu stórt til að ráðast í varanlegar samgöngubætur eins og jarðlestakerfi en svæðið er eigi að síður það stórt að samgöngur verður að leysa með miðstýrðum hætti í gegnum aðalskipulag.Samgongusattmali2024_01

Segja má að undanfarna tvo áratugi eða svo hafi öllum meiri háttar aðgerðum til bóta á bílaumferð á höfuðborgarsvæðinu verið frestað og síðasta áratuginn með vísun í að Borgarlína muni leysa stærsta hluta vandans. Til þess hefur verið stofnuð sérstök stjórnsýslueining, Betri samgöngur, sem rekur sig með tilheyrandi kostnaði. Í liðinni viku skrifuðu fulltrúar allra sveitastjórna á höfuðborgarsvæðinu undir uppfærðan samgöngusáttmála sem hefur í för með sér gríðarlega hækkun á kostnaðaráætlunum.

Það var áhugavert að sjá hvernig einstaka stjórnmálamenn reyndu að spinna sig út úr samtölum um kostnaðaraukann enda eru þeir missáttir við þróun mála en virðast dæmdir til að taka þátt í þessari för. Nú blasir við að það á að senda vegtolla á íbúa höfuðborgarsvæðisins. Upplýsingar um upphæðir þar hljóta að vekja furðu meðal höfuðborgarbúa sem eru nú að lenda í martröð vegtolla. Af tölum að dæma virðast bílaeigendur hér á höfuðborgarsvæðinu fá ótrúlegan reikning sendan en fróðlegt er að bera stöðuna núna saman við 2019 þegar þessi pistill var skrifaður.

Vanhugsaðir vegtollar

Morgunblaðið var með góða umfjöllun um málið í dag þar sem kom meðal annars fram að Félag íslenskra bifreiðaeigenda telur fyrirhugaða innheimtu vegatolla á höfuðborgarsvæðinu stórlega vanhugsaða. „Afleiðingin verður dýrkeypt röskun á lífi og högum íbúa til þess eins að innheimta skatta og draga úr umferð einkabíla. Fátt er um boðlegar almenningssamgöngur sem geti mætt ferðaþörfum fólks í staðinn. Höfuðborgarbúar munu því einfaldlega sitja uppi með auknar álögur árum saman án þess að fá nokkuð í staðinn,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB í samtali við Morgunblaðið.

Í samgöngusáttmála er nú að finna áform ríkis og sveitarfélaga á svæðinu um innheimtu vegatolla af umferð á höfuðborgarsvæðinu og er augljóslega verið að uppfæra það verulega frá á eldri sáttmála sem undirritaður var af sömu aðilum 2019.

140% hækkun á vegtollum

Í upphaflega samgöngusáttmálanum var áætlað að tollinnheimta á flýti- og umferðargjöldum skilaði 60 milljörðum króna í tekjur til framkvæmda. Nýja áætlunin geri ráð 143 milljörðum sem sé tæplega 140% hækkun. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir að skatturinn skilaði 50 krónum til verkefnisins af hverri ferð að meðaltali. Ofan á þann kostnað muni bætast stofnkostnaður, rekstrarkostnaður, innheimtukostnaður og virðisaukaskattur. Segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið að varlega áætlað gæti vegatollurinn að meðaltali hafa orðið um 80 krónur á ferð samkvæmt sáttmálanum frá 2019, hærri á álagstímum og lægri utan þess.Sæbrautarstokkur 05

200 krónur á ferð

Það er eðlilegt að ætla að almenningur sé tiltölulega grunlaus um að þessar kostnaðarhækkanir bíði. Runólfur bendir á að miðað við nýju forsendurnar megi gera ráð fyrir að bíleigendur verði rukkaðir að meðaltali um 200 krónur fyrir hverja ferð. Fyrir íbúa í ytri byggðum Reykjavíkur og í nágrannasveitarfélögum, sem sækja vinnu eða þjónustu í kjarna Reykjavíkur, má áætla að vegatollur við að fara til vinnu og koma til baka verði um 400 krónur hvern vinnudag. Við þetta bætast aðrar ferðir. Miðað við 100 vinnudaga á ári gerir þetta um 100 þúsund krónur árlega. Runólfur bendir einnig á að ef gert sé ráð fyrir að 70% bíla í umferð á Íslandi borgi vegatollinn verði árlegur skattur um hvorki meira né minna en 70 þúsund krónur á hvern bíl að meðaltali.

Tollhlið á stofnbrautum

Samkvæmt athugunum FÍB og því sem kemur fram í viðtalinu við Runólfur þá er áformað að setja upp tollahlið á helstu stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu, taka myndir af bílnúmerum og senda reikning til bíleigenda fyrir að vera á ferðinni. Vegatollunum er ætlað að skila yfir 14 milljörðum króna á ári til að fjármagna samgöngubætur og til að draga úr umferðarþunga á álagstímum. Þar ofan á bætist svo kostnaðurinn við uppsetningu og rekstur tollahliðanna, innheimtukostnaður og virðisaukaskattur bendir Runólfur á.

„Áformin þýða að hæstu vegatollarnir verða á morgnana og síðdegis. Þetta lendir aðallega á þeim sem hafa minnsta sveigjanleikann um mætingu til starfa, til að mynda í skólum, þjónustustörfum og við framleiðslu. Ljóst er á hvaða tekjuhópum þessir hæstu vegatollar munu lenda. Stór hluti fjölskyldna hefur ekkert val um að breyta ferðarútínu sinni eða nota veikburða strætóþjónustu í staðinn fyrir einkabílinn. Vegatollarnir bætast bara við í heimilisbókhaldinu,“ segir Runólfur.samgöngu

Almenningi refsað

Ályktanir Runólfs eru hárréttar en hann bendir á að með vegatollunum sé í raun verið að refsa almenningi fyrir þau skipulagsmistök sem hafa leitt til þess að umferðarþunginn er mestur til og frá póstnúmeri 101. Vaxandi umferðarþunga má einnig skrifa á andstöðu borgaryfirvalda við að bæta umferðarflæði og aðgerðir þeirra til að tefja fyrir umferð. Bílaeigendur fá nú reikninginn eftir að hafa þurft að þjást í töfum undanfarin ár.

Runólfur bendir á að meiri þörf sé fyrir einkabílinn hér á landi en víðast annars staðar. „Rysjótt tíð og kalt veðurfar, mikil atvinnuþátttaka og skortur á þjónustu í nærumhverfinu gerir einkabílinn nauðsynlegan fyrir flesta,“ bendir hann réttilega á. Hér hefur oft í pistlum verið bent á einstök mistök og ranga aðferðafræði í umferðarskipulagi á höfuðborgarsvæðinu. Þessi nýju áform um vegtolla bíta höfuðið af skömminni.