Eftir nokkrar vikur verða forsetakosningar í Bandaríkjunum þar sem valdamesti maður hins frjálsa heims verður kosinn. En hver skyldi vera valdamesti maður hins ófrjálsa heims? Þar er eðlilegt að stoppa fyrst við Xi Jinping, leiðtoga Kínverska kommúnistaflokksins. Alla jafna er hann ekki mikið í fréttum og eins og hefur verið bent á hér áður í pistlum þá er helsti kosturinn við Kína fyrir okkur Íslendinga hve langt í burtu landið er. Kínverjar ganga næst Bandaríkjunum þegar kemur að áhrifum og völdum í heiminum og þó að mörgum blöskri framferði Bandaríkjamanna þá eru Kínverjar sýnu verri með sína staðbundnu yfirráðastefnu eins og nágrannar þeirra í Tævan, Tíbet og þó ekki síst Úígúra-fólkið hafa fengið að kynnast.
Ásælni út á við og harka inn á við
Xi Jinping hefur tryggt völd sín undanfarið og stjórnmálaskýrendur eru enn að meta ásetning hans og stefnu en hann virðist þó styðja aukna ásælni út á við og meiri hörku inn á við. Þegar breytingar í Kína eru skoðaðar stoppa menn gjarnan við hinn sérstaka valdatíma Deng Xiaoping (1904-1997). Hann var einn af leiðtogum byltingarinnar, harður Lenínisti og valdamesti maður Kína frá 1970 til dánardægurs. Hent var gaman að því að hann bar engan formlegan valdatitil fyrir utan að vera formaður Kínverska briddssambandsins. Eigi að síður var hann sá maður sem átti hvað mestan þátt í að hleypa markaðsöflunum að í Kína og opna landið fyrir umheiminum eins og tímaritið Economist rifjaði upp fyrir skömmu.
Fyrir skömmu var 120 ára árstíðar Deng minnst og við það tækifæri flutti Xi Jinping lofsamlega ræðu um Deng Xiaoping. Eins og vanalega þarf innvígða til að ráða í ræður valdamanna í Kína en Xi Jinping virðist hafa notað tækifæri til að ítreka ásetning Kínverja að halda áfram á braut markaðshyggju og opinna viðskipta. Sjálfsagt hafa margir fjárfestar andað léttar en undanfarin ár hefur dregið úr erlendri fjárfestingu í Kína og margir dregið sig út af markaðinum.
Markaðsvæðing kommúnismans
Markverðasta framlag Deng Xiaoping var að minnka umfang ríkisins í hagkerfinu og örva frjálst framtak. Kommúnistaflokkurinn ætti að leyfa sumum að gerast ríkir, sagði hann. Þetta gæti virst í mótsögn við stefnu Xi Jinping sem hefur heldur ýtt undir ríkisrekstur og talað um almenna hagsæld á nýjan hátt, meðal annars með því að ráðast að auðmönnum og tala um að jafna lífskjör fólks.
En þessir tveir leiðtogar hafa einnig nálgast hlutina á ólíkan hátt. Deng vildi draga úr völdum Kommúnistaflokksins og ríkisstjórnarinnar. Hann talaði einnig fyrir valddreifingu og sameiginlegri ákvarðanatöku í stórum málum. Xi hefur hins vegar viljað efla völd eigin embættis og kemur fram sem sterki leiðtoginn í kínversku samfélagi og hefur haft litla þolinmæði gagnvart þeim sem eru ósammála honum. Kommúnistaflokkurinn er því heldur að auka ítök sín í daglegu lífi fólks.
Þegar völd Dengs voru hvað mest var Kína fátækt land og ekki til stórræðanna á alþjóðavettvangi. Hann kaus því að reka afskiptalitla utanríkisstefnu. Xi hefur sýnt vilja til að nýta styrk og afl Kína á alþjóðlegum vettvangi og stundum erfitt að ráða í hvað Kínverjar ætla sér. Reyndar gerðist það árið 2028 að elsti sonur Dengs, Deng Pufang, fékk nokkra athygli fyrir ræðu sem almennt var talin gagnrýni á utanríkisstefnu Xi. Deng Pufang sagði að Kína ætti að þekkja sinn vitjunartíma og ekki trana sér fram, einhvers konar kínversk útgáfa af einangrunarstefnu sem þekkist vel í Bandaríkjunum.
Kröfuspjöld og skriðdrekar
En á einu sviði hefur Xi fylgt stefnumörkun Dengs. Hvorugur hefur sýnt þolinmæði gagnvart auknum lýðréttindum, tjáningarfrelsi eða rétti til að mótmæla. Deng leit til dæmis á Mikhail Gorbachev sem veifiskata og kallaði hann „vitleysing.“ Hann taldi fráleitt hjá Gorbachev að slaka á valdakló sovéska kommúnistaflokksins. Það sýndi Deng í verki árið 1989 þegar mótmælin urðu á Tianmen-torgi en þá sendi hann án þess að hika hersveitir gegn mótmælendum. Þúsundir létu lífið og mótmælin voru brotin á bak aftur. Kínverskir ráðamenn tala sjaldan um þessa atburði en Xi brá af þeim vana í ræðu 22. ágúst síðastliðinn þegar hann hrósaði þáverandi stjórnvöldum og sérstaklega Deng fyrir að hafa sýnt staðfestu gegn mótmælunum. Enginn efast um að Xi muni bregðast eins við ef almenningur í Kína reynir aftur mótmæli eins og áttu sér stað 1989.