c

Pistlar:

30. september 2024 kl. 14:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skattgreiðendur fá reikninginn

Framundan er kosningavetur, síðasti vetur fyrir alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru á næsta ári. Enginn veit þó hve lengi stjórnin lifir, hún er ekki það burðug að hún geti staðið af sér mikið mótlæti og þegar svo háttar í stjórnmálum geta smávægileg atvik sett af stað atburðarás sem forystumenn stjórnarinnar ráða ekki við. Eitt er þó víst, veturinn verður skattgreiðendum dýr, það mun birtast í stórum sem smáum þingmálum sem streyma frá þingmönnum í vetur. Það er reyndar svo að ríkisstjórnin er fullfær um að herja á skattgreiðendur og þó að hagkerfið hafi vaxið nokkuð þá virðist hið opinbera hagkerfi vaxa hraðar. Fleiri og fleiri krónur fara þannig í gegnum ríkissjóð, frá skattgreiðendum til verkefna sem stjórnmálamenn meta nauðsynleg.alt

Þegar einhver andhæfir gegn útgjöldum hins opinbera er sá hinn sami gjarnan spurður hvort hann vilji ekki mennta börnin, lækna sjúka eða sinna öldruðum. Því er þá gjarnan bætt við að menn eigi ekki að láta peningana taka völdin þegar aðrir eru að reyna að byggja upp manneskjulegt samfélag. Oftast er það þó þannig að þeir sem mest tala um mennsku og manneskjulegt samfélag eru þeir sem vilja stunda mesta tilfærslu fjármuna í samfélaginu, og þá auðvitað hafa sjálfa sig í miðju þessu millifærslukerfi. Það þarf ekki að hlusta nema í nokkrar mínútur á nýjustu útvarpsstöðina, Samstöðina, til að fá þessi skilaboð ómenguð. Ekki þarf að taka fram að Samstöðin er að stærstum hluta fjármögnuð frá skattgreiðendum í gegnum framlög þeirra til stjórnmálaflokka. Þó að Sósíalistaflokkur Íslands hafi ekki fengið einn einasta alþingismann í síðustu kosningum er hann talinn þess verðugur að fá á annað hundrað milljónir króna frá skattgreiðendum á kjörtímabilinu. Þessa fjármuni nota forráðamenn flokksins í að byggja upp áróðurstöð fyrir hærri sköttum og meiri ríkisumsvifum.

Það er erfitt að hætta

Staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem eru að gagnrýna hækkun skatta og aukna millifærslu eru alls ekkert að tala gegn velferðarkerfi þeirra sem þurfa á hjálp að halda. Þvert á móti getur aðhald í ríkisrekstri stuðlað að því að það sé meira hægt að gera í brýnum velferðarmálum þegar upp er staðið. En þá þarf að horfa gagnrýnum augum á það í hvað fjármununum er varið, sérstaklega þegar verið er að festa ákveðna liði á fjárlögum til frambúðar. Það sýnir sig að verkefni fara ekki svo auðveldlega út af fjárlögum þegar þau á annað borð eru komin þangað.

Af því að fjölmiðlar voru nefndir hér á undan þá er líklega flestum kunnugt um að þeir eru komnir á fjárlög. Um hálfur milljarður króna rennur til þeirra á ári og áform eru um að hækka þau framlög. Við blasir að erfitt verður að hætta þessum stuðningi. Sama má segja um bókaútgáfu, hún nýtur svipaðra ríkisstyrkja. Þetta má fella undir menningartengd framlög sem hafa tilhneigingu til að taka meira og meira til sín. Það sem byrjar sem frumkvæði áhugafólks endar oft á fjárlögum. Íslenska óperan er skýrasta dæmið um það.alt2

Margar kennitölur VG

En það er einnig svo að alls konar félagasamtök komast inn á fjárlög og skattgreiðendum þannig falið að taka yfir starfsemi þeirra. Nú greiða skattgreiðendur til Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ungra umhverfissinna, svo dæmi sé tekið. Þessi samtök eru rammpólitísk í orði og verki og freistandi að tengja þau við stjórnmálaflokka eins og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Því má spyrja, eru skattgreiðendur að greiða til VG undir mörgum ólíkum kennitölum? Finnst engum að það þurfi að skoða nánar þetta fyrirkomulag?

Til að komast á fjárlög og tryggja veru sína þar eru mörg samtök í eilífri baráttu um athygli. Fjölmiðlamenn virðast ekki átta sig á því að þessi sömu samtök þurfa að fá að koma fram fyrir alþjóð og lýsa yfir brýnu erindi sínu. Fyrir vikið sjá skattgreiðendur kvöld eftir kvöld, fulltrúa allskonar félaga birtast á skjánum og lýsa yfir því hvað mikil ásókn sé í þjónustu þeirra og athvarf þeirra og hve mikilvægt sé að láta þá hafa meiri fjármuni. Vissulega þekkjum við mörg dæmi þess að einstaklingar hafi tekið frumkvæði þegar ríkisvaldið er svifaseint. Þar eru starfsemi Sólheima í Grímsnesi og starfsemi SÁÁ skýrt dæmi. En við höfum líka dæmi um fjáraustur í samtök sem hafa engan faglegan grunn eins og var reyndin með Byrgið hér í eina tíð.

Ríkissjóður á fáa vini á kosningavetri. Það er spurning hvort fjölmiðlar sem nú eru sjálfir á fjárlögum séu réttu aðilarnir til að halda uppi gagnrýnni umræðu um fjárlög á þessari stundu?