c

Pistlar:

7. október 2024 kl. 16:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gáleysisstefna í hælisleitendamálum

Það vakti nokkra athygli þegar Jón Gnarr, skemmtikraftur og fyrrverandi borgarstjóri, sagði ekki ráðlegt að taka við fleira flóttafólki á meðan innviðir landsins anna ekki þörfum þeirra sem hingað leita. Það eigi ekki síst við um húsnæði sagði þessi nýi liðsmaður Viðreisnar. Jón taldi einnig að regluverk og mannskapur yrði að vera til staðar og taldi hann að of geyst hefði verið farið í málefnum flóttafólks, orð og efndir þurfi að haldast í hendur. Skortur á úrræðum fyrir flóttafólk geti leitt af sér vandamál, árekstra og orðið grundvöllur fordóma. Slíkt sé alger óþarfi. „Við erum mjög lítil þjóð og okkur langar til að gera gott og langar til að skjóta skjólshúsi yfir fólk á flótta en við getum ekki gert það nema að einhverju ákveðnu marki,“ sagði Jón Gnarr í samtali við þáttinn Spursmál á mbl.is.aa

Jón Gnarr er pólitískt ólíkindatól og hefði sjálfsagt geta fundið sér stað í fleiri flokkum, svo sem Samfylkingunni og Pírötum, en líklega hefðu allmargir í þeim flokkum gert athugasemdir við þessa nýju nálgun hans í útlendingamálum. Þó hefur umræðan breyst nokkuð í Samfylkingunni sérstaklega eftir að talsmaður óheftrar hælisleitendastefnu, Helga Vala Helgadóttir, hvarf úr forystusveit Samfylkingarinnar. Þessi skoðun Jóns er varla óumdeild í Viðreisn enda hafa margir í þeim flokki stutt óheft innflæði hælisleitenda í orði og verki. En það er gott að staðreyndir málsins hafi náð til fyrrverandi borgarstjóra. Má vera að það sé vegna þess að nú er búið að setja niður 400 manna vistunarúrræði fyrir hælisleitendur (umsækjendur um alþjóðlega vernd) skammt frá því þar sem hann býr í vesturbæ Reykjavíkur. Það er reyndar skiljanlegt að Vesturbæingum bregði enda ekki nema örfá ár síðan það voru innan við 100 umsóknir á ári um hæli hér á landi.

Gáleysisstefna

Lengst af hefur hér ríkt fullkomlega óraunsæ stefna í hælisleitendamálum, svo mjög að líkja má því við pólitískt gáleysi. Það að veita fólki hæli getur ekki byggst á því að færa miklar byrðar á velferðarkerfi landsins og innviði, hvað þá að breyta samsetningu þjóðarinnar varanlega. Varfærnisleg orð Jóns Gnarr eru staðfesting á því að þetta sjá flestir í dag. Það er hins vegar engin ávísun á að stjórnmálin séu fær um að móta skynsamlega stefnu sem þau síðan framfylgi. Framkvæmd hælisleitendastefnunnar til þessa byggist í grunninn á hriplekum landamærum í landi sem ætti að hafa einstakt tækifæri til að hafa stjórn á sínum landamærum. Þá virðast íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að læra ekki af reynslu nágrannalanda okkar í þessum málaflokki.

Kostnaður ríkissjóðs vegna hælisleitenda var um 25 milljarðar króna á síðasta ári sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra á fundi um helgina en að þessum kostnaði hefur verið vikið oft hér í pistlum. Um leið upplýsti ráðherra að þó að margir hælisleitendur fái synjun um búsetu hér þurfi að halda þeim uppi um langa hríð. Guðrún taldi þó að með frumvarpi sem hún fékk í gegn við síðustu þinglok hafi tekist að ná nokkuð utan um þetta. Hver raunverulegur kostnaður er af móttöku hælisleitenda er á reiki enda kostnaðurinn víða falinn og stjórnvöld virðast veigra sér við að halda úti traustri tölfræði þar um. Tíðar fyrirspurnir á Alþingi sýna að þingmenn telja sig ekki vita nóg, hvorki um stefnu né kostnað. Að ekki sé talað um að engar upplýsingar eða áætlanir eru um hvernig breyta megi þessu fólki í mannauð fyrir Ísland og til farsældar fyrir þá sjálfa.pale3

Palestínski fáninn á Austurvelli

Eftir gríðarlegt innflæði hælisleitenda á síðasta ári hefur heldur hægst um og hefur umsóknum um hæli fækkað um nánast helming það sem af er þessu ári miðað við á sama tíma í fyrra. Hafa verður í huga að þá var fjöldinn einstakur þannig að við erum hvergi komin nálægt eðlilegu ástandi. Nú koma örfáir frá Venesúela enda verið að senda fólk til baka sem þaðan kom. Flestir koma eðlilega frá Úkraínu enda ennþá stríð í gangi þar.

Enn koma margir frá Palestínu sé miðað við nágrannalönd okkar en við Íslendingar höfum skorið okkur úr þegar kemur að móttöku Palestínumanna. Nú er svo komið að palestínska fánanum er oftar hampað í miðbæ Reykjavíkur en þeim íslenska.

Fjölgun brottfluttra

Eins og áður sagði hefur brottfluttum fjölgað mikið. Þeir voru um 600 í fyrra, en 1.200 það sem af er þessu ári. Ráðherrann sagði að það sem af er þessu ári hefðu verið fleiri hafnanir á hæli en síðustu 13 árin. Það gerist þó ekki sé verið að hafna fólki í neyð né þeim sem hingað koma í gegnum eðlilegt ferli.

Það kom skýrt fram hjá dómsmálaráðherra að þungar byrðar hafa verið lagðar á okkar velferðarkerfi; menntakerfið, heilbrigðiskerfið og húsnæðismarkaðinn svo dæmi séu tekin með innflutning á fólki sem er ekki endilega í neyð eða hefur komist í gegn með tilhæfulausum umsóknum. Eins og allir vita hefur nóg álag verið á þessum velferðarkerfum fyrir. Allir vita að kerfin hafa illa ráðið við þetta og margt bitnað þess vegna á landsmönnum sem fyrir eru í landinu.

Það er mikilvægt að skilja að útlendingamál eru tvískipt, annars vegar þeir sem koma hingað til að vinna og svo þeir sem leita hér hælis. Vilji hefur verið að taka við þeim sem eru í neyð og þá í gegnum ferli staðfestingar og skilríkjaskoðunar en þessi skrifræðiskrafa nútímans hentar lítt þar sem hælisleitendur farga skilríkjum sínum og greina rangt frá.

Fram kom hjá ráðherra að hún hyggst leggja fram frumvarp um að afturkalla megi heimild hælisleitenda til búsetu hér á landi gerist þeir brotlegir við lög. Það er auðvitað furðulegt að slík heimild hafi ekki verið til áður í ljósi alvarleika margra brota. En svo er hugsanlegt að ráðherra verði gerður afturreka með slíkt frumvarp, þannig er nú stemmningin á stjórnarheimilinu um þessar mundir. Nema hún treysti á að stjórnarandstaðan veiti málinu brautargengi.