c

Pistlar:

14. október 2024 kl. 15:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glæpir og innflytjendur í Marseille

Fyrir stuttu fór frétt um það að 15 ára piltur í frönsku borginni Marseille í Frakklandi hefði verið stunginn 50 sinnum og brenndur til bana eins og eldur um sinu um hinn vestræna heim. Tengd atburðarás leiddi til þess að 14 ára leigumorðingi drap 36 ára gamlan bílstjóra sem átti sér einskis ills von. Þegar málið var skoðað kom í ljós að svæsin glæpaalda gengur yfir í borginni og morð og aftökur óvenju tíð. Þetta er hins vegar ekkert nýtt og yfirvöld í Marseille segja baráttu glæpahópa um fíkniefnamarkaðinn í borginni leiða til þess að afar ungir einstaklingar séu ráðnir af klíkunum til að fremja ofbeldisbrot. Við höfum séð sama mynstur í Skandínavíu undanfarið.aa

Sum fórnarlambanna og gerenda eru unglingar, eins og 17 ára gamall drengur sem barinn var til bana af 30 árásarmönnum í Marseille-háhýsaverkefninu þekkt sem La Paternelle fyrir rúmu ári síðan. Morðinu var streymt í beinni útsendingu á Snapchat, skilaboðaforritinu.

Þekkt glæpaborg

Ástandið í Marseille er um margt sérstakt en þessi hafnarborg við Miðjarðarhafið er næststærsta borg Frakklands. Hún var stofnuð af Rómverjum og á borgin sér langa og merka sögu. Á síðustu öld hafa glæpir orðið allsráðandi í borginni og eins og málum háttar núna þá endurspegla þeir vandkvæði margra franskra borga þar sem innflytjendastefna hefur aukið á skautun og önnur samfélagsleg vandamál. Glæpir eru ekkert nýtt í borginni en nýir herrar ráða ríkjum og óhjákvæmilegt er að tengja þá við þær breytingar sem orðið hafa í Marseille síðustu áratugi.
Frá og með 1930 var borgin lykilmiðstöð í því sem var kallað „franska sambandið“ (French Connection) eins og það hét og var í áratugi miðstöð heróínframleiðslu og tilheyrandi smyglnets í heiminum. Franska sambandið var rekið af mafíuhópum af korsíkönskum uppruna og flutti meðal annars morfín sem unnið var úr valmúaplöntum í Austurlöndum, Miðausturlöndum og Asíu til Marseille þar sem rannsóknarstofur breyttu því í heróín til útflutnings, að mestu til Bandaríkjanna. Þetta net, sem frægt var af samnefndri kvikmynd William Friedkins (The French Connection) frá árinu 1971 með Gene Hackman í aðalhlutverki, tók að liðast í sundur á áttunda áratugnum.

Í dag eru aðrar glæpaklíkur að berjast um áhrif í undirheimum borgarinnar. Þar má meðal annars finna klíkurnar tvær, Yoda og DZ Mafia, sem keppast um yfirráð yfir eiturlyfjamarkaðnum í hinum alræmdu norðurhverfum næststærstu borgar Frakklands. Í fyrra var talið að þessar tvær klíkur væru á bak við um 80% þeirra glæpa sem framdir væru þar. Undanfarin ár hefur með reglulegum hætti allt farið úr böndunum og orðið blóðbað en á síðasta ári voru 68 morð eða lífshættulegar árásir framdar.aaa

Fengu vonda skýrslu og lögðu nefndina niður

Frönsk yfirvöld hafa lengi haft áhyggjur af þróun mála í Marseille og svo snemma sem 2011 pantaði franska ríkisstjórnin skýrslu um ástandið. Segja má að skýrslan, sem unnin var af Haut Conseil à l’intégration (HCI), hafi verið þungur áfellisdómur. HCI var sett upp árið 1989 af forsætisráðherranum Michel Rocard og átti að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í innflytjendamálum. Skýrslan dró upp dökka mynd af stjórnlausri innflytjenda- og aðlögunarstefnu í Frakklandi og HCI var lögð niður árið eftir. En í skýrslunni var bent á að munurinn á franskri menningu og þeirri menningu sem innflytjendur beri með sér sé svo mikill að það muni leiða til vandamála við aðlögun þessa fólks að hinum vestrænum gildum franska lýðveldisins.

Þegar niðurstöður skýrslunnar eru bornar saman við hinar sérstöku aðstæður í Marseille kemur ekki á óvart að margt hafi farið úrskeiðis. Í úthverfum voru stórar íbúðablokkir gerðar undir áhrifum og hugmyndafræði svissneska arkitektsins og skipulagsfræðingsins Le Corbusier sem ætlaði sér að skapa nýjan félagslegan raunveruleika með hagnýtum arkitektúr. Hvað getur svo sem farið úrskeiðis! Jú, þessar blokkir juku á félagslega misskiptingu vegna þess að þær urðu heimkynni þeirra sem stóðu lægst í þjóðfélagsgerðinni og þá bárust böndin að innflytjendum. Um leið og franska lágstéttin reyndi að komast í burtu stórjókst innflutningur fólks frá Norður-Afríku, Miðausturlöndum og Tyrklandi. Þessir hópar ásamt fátækasta hluta heimamanna lögðu undir sig mörg hverfi Marseille og þar á meðal íbúðablokkir Le Corbusier sem líta meira út eins og miðaldavirki en íbúabyggð.

140 blaðsíðna skýrsla HCI benti á þetta og benti á þær menningarlegu áskoranir sem fylgdu innflytjendum og aðlögun þeirra. Frakkland hefur gengið ansi langt í að gera málamiðlanir varðandi menningu sína og á þeim tíma sem skýrslan kom út var þegar farið að tala um Frakkland sem arabískasta landið fyrir utan arabíska heiminn.aa

Íslam ráðandi afl í samfélaginu

Skýrslan benti einnig á að stöðugt fleiri ungir menn hafni markvisst öllu sem talist sé franskt. Þeir séu staddir í frönsku landi en dvelji andlega í öðrum menningarheimi. Þannig verði íslam ráðandi afl í samfélaginu. Þó að þessir ungu menn ástundi ekki íslam sem heittrúaðir væru né séu yfir höfuð neitt sérstaklega trúaðir þá líti þeir engu að síður á sig sem hluta af íslamskri heild. Norski blaðamaðurinn Hege Storhaug þekkir mjög vel til í Marseille og ræðir þetta ástand rækilega í bók sinni Þjóðarplágan íslam sem kom út hér á landi 2016.
Íbúar Marseille upplifa reglulega „stríð“ milli hópa fíkniefnasmyglara sem oftast standa í nokkra mánuði, áður en eitt gengið gerir sig gildandi eða endar með því að vera tekið í sundur af lögreglu og dómsvaldi. Síðustu fjögur ár hafa átök verið viðvarandi og verið umfangsmeiri. Þau hafa teygt sig til miðbæjarins og eru nú orðin óvenju mannskæð.

Átökin hófust í þriðja hverfi Marseille, í Belle-de-Mai eða í Villette, þar sem frá ársbyrjun 2022 hafa verið taldar næstum 45 skotárásir sem ollu að minnsta kosti 20 dauðsföllum og 35 særðum. Meirihluti þessara átaka, allt fram til morðsins á 15 ára unglingi og síðan ökumanni í síðustu viku, tengist einstöku „stríði“ milli ættanna.

Þegar þessi átök brutust út, líklega haustið 2020, var landslag fíkniefnasmygls íMarseille í endurskipulagningu. Hin svokallaða „Blacks“ ætt, upphaflega frá borginniLauriers, hafði stýrt smyglinu í að minnsta kosti þrjú ár en það ætlaði ekki að endast. Upplausn hefur ríkt síðan. 

Fyrstu 8 mánuði síðasta árs handtók lögreglan í Marseille  1.144 eiturlyfjasala, sem var 26% aukning frá árinu á undan, fækkað sölustöðum um 70 frá árinu 2021 og lagt hald á 12 milljónir evra og gerði gríðarlegt magn skotvopna upptæk.

Handtaka Mohamed Djeha, kallaður „Mimo“, í júní það ár í Alsír, tók úr umferð einn stærsta grunaða eiturlyfjasala Frakklands. Allt kom fyrir ekki og í heimsókn til borgarinnar í júní síðastliðnum hét Emmanuel Macron forseti að grípa til fleiri aðgerða.