c

Pistlar:

23. október 2024 kl. 18:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sósíalistar í útgerð

Það fer ekki framhjá neinum að það eru kosningar framundan og frambjóðendur eru farnir að leggja stefnu sína og sýn á þjóðfélagið fyrir kjósendur. Sósíalistaflokkur Íslands býður nú fram í annað sinn á landsvísu og virðist ætla að taka við af Vinstri hreyfingunni – grænu framboði (VG) sem forystuafl þess sem stundum er kallað „vilta vinstrið“ og túlkar ýtrustu sýn og hugmyndafræði sósíalismans. VG þótti ekki nóg að standa einungis á slíkri hugmyndafræði og kaus að tengja sig einnig við þá tegund umhverfisverndar sem felst í meiri skattheimtu. En nú erum við semsagt með alvöru sósíalista í framboði, fólk sem vill breyta grunnstoðum samfélagsins í anda stéttarstjórnmála sem rekja sögu sína til loka 19. aldar þegar allt önnur samfélagsgerð var við lýði og atvinnulíf mótaðist af allt öðrum þáttum en ráða í dag.aasanna

Það var því fróðlegt að heyra í Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, leiðtoga Sósíalistaflokks Íslands, í þættinum Spursmál sem mbl.is heldur úti. Þar var hún spurð út í stefnu flokksins sem hún leiðir nú í fyrsta sinn á sviði landsmálanna eftir að hafa verið fulltrúi sósíalista í borgarstjórn Reykjavíkur. Þar hafa sósíalistar tekið þá afstöðu að semja hvorki til hægri né vinstri og verið fremur hljóðlátt stjórnarandstöðuafl. Líklegt verður að telja að Sósíalistaflokkurinn muni hegða sér með sama hætti fái hann fulltrúa á Alþingi.

Þjóðnýting sjávarútvegsfyrirtækja

Víkjum að viðtalinu við Sönnu sem opinberaði þar afstöðu sósíalista til atvinnulífsins. Í stuttu máli sagði hún að Sósí­al­ista­flokk­ur­inn hygðist þjóðnýta sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæk­in á Íslandi og að henni hugnaðist vel að end­ur­reisa bæj­ar­út­gerðir. Hún tók þó fram að enn eigi eft­ir að út­færa hina stóru efna­hagsaðgerð hvað sem í því felst þar sem ekki eru nema 38 dagar til kosninga. Í stefnu flokks­ins seg­ir raun­ar að þjóðnýta eigi all­an hagnað af auðlind­um lands­ins og þegar hún er spurð nán­ar út í þessa stefnu í viðtalinu kem­ur í ljós að það fel­ur í sér að rík­i­s­væða alla at­vinnu­grein­ina.

Hér fylgir bútur úr viðtalinu svo kjósendur geti glöggvað sig á þessari stefnu Sósíalistaflokks Íslands. Spurningar fréttamannsins Stefáns Einars Stefánssonar eru hér með skáletraðar.
Þið viljið í raun þjóðnýta auðlind­irn­ar, er það ekki rétt, þið viljið innkalla kvót­ann?

„Það er sko ekki eðli­legt að það séu stór­fyr­ir­tæki sem ein­hvern veg­inn eru að hagn­ast á auðlind­um al­menn­ings. Við vilj­um koma þessu til al­menn­ings, það væri mjög eðli­legt.“

Þannig að þið viljið innkalla kvót­ann?

„Bara það sem al­menn­ing­ur er að kalla eft­ir, við vilj­um fara eft­ir því.“

Þið viljið semsagt innkalla kvót­ann frá sjáv­ar­út­veg­in­um og þið segið í yf­ir­lýs­ingu ykk­ar að þið viljið þjóðnýta hagnaðinn af auðlind­un­um. Hvernig á þetta að fara fram? Þetta er stór­mál af því að nú skap­ar eins og sjáv­ar­út­veg­ur­inn 300 millj­arða tekj­ur fyr­ir þjóðarbúið á ári. Hvernig á að fram­kvæma þetta, þetta er mjög af­ger­andi stefna.


„Það er auðvitað margt í þessu og ég held að það sé mik­il­vægt að þjóðin komi svo­lítið að þessu og við höf­um talað um fiskiþing. Við þurf­um bara að fá svona sam­tal um þetta hvernig við sjá­um fyr­ir okk­ur hvernig þetta verði gert, því það er eðli­legt að al­menn­ing­ur fái í raun­inni þenn­an arð af auðlind­inni og það er ekki eðli­legt að það fari í vasa nokk­urra stór­fyr­ir­tækja.“

Ef þið takið hagnaðinn af þess­um sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­um, hver mun leggja pen­ing eða fjár­magn inn í þessi fyr­ir­tæki? Hver mun leggja í þá áhættu að byggja nýj­an tog­ara fyr­ir sjö til tíu millj­arða ef hagnaður­inn fer all­ur inn í rík­is­sjóð?

Endurreisn bæjarútgerða

„Við vit­um alla vega að þessi leið hún er ekki að skila arðinum til al­menn­ings þannig að við þurf­um að hugsa eitt­hvað nýtt...“

Ekki eitt­hvað nýtt. Þið eruð á leiðinni inn á þing. þið talið fyr­ir því að þjóðnýta stærsta at­vinnu­veg þjóðar­inn­ar, kannski að und­an­skil­inni ferðaþjón­ust­unni. Hvernig ætlið þið að fram­kvæma það, hverj­ir eiga að byggja fiski­skip­in ef þetta verður niðurstaðan?

Þegar þarna var komið sögu þótti leiðtoga Sósíalistaflokks Íslands nóg komið og sagði að frekari útfærsla þessarar þjóðnýtingarstefnu byggist á því að hafa samtal, kalla alla að borðinu! Þó kom hún með eina lausn, nefnilega endurreisn bæjarútgerðar á Íslandi. „Ég myndi vilja fá bæj­ar­út­gerð aft­ur, mér fynd­ist það bara mjög eðli­legt en eins og ég er að segja þá myndi ég ekki með einu penn­astriki bara ákveða eitt­hvað núna. Það er eðli­legt að eitt­hvað sam­tal fari í gang, byggt á þess­ari stefnu,“ sagði hún um það.

Augljóslega hafði Sanna ekki hugsað allt til enda og líklega hefði verið hreinna að kalla hugmyndafræðing og stofnanda Sósíalistaflokks Íslands að borðinu. Hann hefur ítrekað komið með þá sögufölsun að bæjarútgerðir hafi verið hið ágætasta rekstrarfyrirkomulag á Íslandi. En stofnandinn virðist ekki treysta sér í framboð núna og má þá minna á greiningu Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar í Sprengisandi á sunnudaginn, sem sagði að stofnandinn hefði með framgöngu sinni síðustu daga kosningabaráttunnar árið 2021 haft af flokknum þingsæti, meðal annars þegar hann hóf að tala um að „ryðja“ Hæstarétt Íslands. Svo virðist sem Sósíalistum sé líka brugðið eftir viðtalið við Sönnu en það er nú kallað „gjörningur“ á Sósíalistaspjallinu.