c

Pistlar:

25. október 2024 kl. 17:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Söngvar til sársaukans eða hnípin þjóð í vanda

Fyrir stuttu kom út ný ljóðabók eftir Valdimar Tómasson sem ber heitið Söngvar til sársaukans. Valdimar var í viðtali við helgarblað Morgunblaðsins þar sem rætt var um ljóðabókina. Þar sagði Valdimar: „Þetta er ljóðaflokkur þar sem fjallað er um þann tilvistarlega og tilfinningalega sársauka sem nútímamaðurinn virðist lifa við. Maður opnar varla fjölmiðil eða útvarp án þess að þar séu hörmungafréttir, stríð og átök og tilvistarangist,“ sagði Valdimar sem var tæp fjögur ár að vinna ljóðaflokkinn. Þetta virðist tímabært heiti því íslensk þjóð virðist talsvert upptekin af sársaukanum, bæði hinum innri og ytri.aaa

Það er erfitt að segja hvað veldur. Hugsanlega er fólk meira tilbúið að úttala sig um eigin mál og hvaða erfiðleikum það hefur lent í sem er að sumu leyti ágætt. Það er engum hollt að byrgja of mikið inni og ágætt að létta á sér gagnvart þeim sem eru traustsins verðir. Það er hins vegar annað mál að fara með sín persónulegu vandamál í fjölmiðla. Það getur þó verið að það skipti máli að fjölmiðlar landsins, eða það sem eftir er af þeim, séu tilbúnari nú en áður að segja slíkar sögur. Það gæti verið freistandi að segja það tengjast því að fleiri konur eru nú að vinna við fréttir og þær virðast hafa meiri áhuga á slíku umfjöllunarefni. Þetta hefur verið sérlega áberandi með Stöð 2 þar sem ungar fréttakonur fylla fréttatímana af slíkum fréttum og stundum af loftslagskvíða, þegar því er að skipta. Heimir Már er síðan með fréttir af pólitík, Kristján Már af verklegum framkvæmdum og flugmálum og Magnús Hlynur svo léttar fréttir, oftast um dýrin stór og smá.

Þetta er auðvitað einföldun og allt getur þetta haldist í hendur við það að margt hefur verið að koma upp á yfirborðið sem fortíðin ber ábyrgð á. Nægir þar að vísa til uppgjörsins við vistheimili fortíðarinnar en það uppgjör hefur nú staðið í á annan áratug og virðist varla sjá fyrir endann á því. Úrræði ríkisvaldsins á þeim tíma skildu eftir sig mikinn sársauka sem skattgreiðendur nútímans greiða fyrir. Það er nú lífsins gangur þó enginn semji ljóð um það.

Pirr­andi þessi væll í þjóðinni

Einn þekkt­asti geðlækn­ir þjóðar­inn­ar vinn­ur mikið með fólki sem glím­ir við ótta og kvíða. Þannig var geðlæknirinn Óttar Guðmunds­son kynntur til leiks í spjalli hjá Eggert Skúlasyni fréttamanni í Dagmálum mbl.is í vikunni. Ráð læknisins voru þó til þess að gera einföld og hann sagði mik­il­vægt að lifa í nú­inu og nýta dag­inn. „Núna er ég hætt­ur í megr­un,“ sagði hann við Eggert og glöddust þeir báðir.

Geðlæknirinn Óttar hef­ur verið viðloðandi fjöl­miðla ára­tug­um sam­an og hef­ur krufið þjóðarsál­ina og heil­brigði henn­ar. „Þetta væl í þjóðinni er mjög skrítið,“ seg­ir hann núna, sérstaklega vegna þess að við höf­um það betra en nokkru sinni fyrr. Hann seg­ir þetta pirra sig en í viðtalinu fór Óttar um víðan völl og ræddi meðal annars marg­vís­legar grein­ing­ar sem nú tíðkast, kuln­un, ADHD og margt fleira.

Óttar telur að fólki líði almennt betur en það segir, það sé hins vegar lenska að barma sér og segja allt vera á helveg, sem sé skrítið þar sem þjóðin hafi aldrei haft það betra en núna og ber hann þar saman lífskjör þjóðarinnar í dag og á 19. öldinni en Óttar kveðst vera sérfræðingur í þeirri öld.aaottar

„Aumingi vikunnar“

Í viðtalinu við Eggert ásakar geðlæknirinn fjölmiðla fyrir að gera út á þessa þjáningu og segir að það pirri hann þegar fyrsta frétt dag eftir dag sé um einhvern sem hefur þurft að bíða einhversstaðar, á slysadeild eða bráðamóttökunni. Alltaf sé verið að finna blóraböggla fyrir því að fólki líði illa. Hann sagði að þetta snérist um að finna „aumingja vikunnar“. Játar um leið að það sé ekki til vinsælda fallið að tala svona. Hann sagði að það væri verið að sjúkdómsvæða sorgina. Um leið komi ný tilfelli til sem valdi fólki kvíða, svo sem kulnun sem leiðir til þess að fólk geti ekki sinnt vinnu sinni, foreldrahlutverki eða heimilinu. Það auki svo enn frekar kvíða fólks.

Margt nýtt veldur fólki áhyggjum og Eggert spurði Óttar hvort fólk með loftslagskvíða væri að sækja til hans. Óttar sagðist ekki verða mikið var við slíka kvíðasjúklinga, það séu frekar þeir sem séu lofthræddir eða hræddir við kóngulær sem leiti til geðlækna. Óttar tók hins vegar undir að mikið sé verið reyna að ala á loftslagkvíða, nú síðast með umræðu um að Golfstraumurinn væri að hverfa.

Kvíði í stað hamingju

Að lokum benti Óttar á að kvíði sé eðlilegur en ekki þegar hann fer að stjórna fólki. Allir séu með einhvern kvíða en hann sé að verða meira áberandi þegar greiningum á honum heftur verið breytt.

Undir margt af þessu má taka og sumt af þessu stangast á við þá staðreynd að oftast hafa Íslendingar mælst nokkuð háir þegar hamingja er mæld þó sjálfsagt megi velta fyrir sér hversu áreiðanlegt það sé. Það væri kannski verst ef fólk hættir að trúa því að hægt sé að leita að hamingjunni þó að ástæða sé til að rifja upp að margir trúa því að hamingjuleit verði alltaf að vera á einstaklingsgrunni eins og þessi orð heimspekingsins Immanúels Kants sýna: „Hamingjan er ekki hugsjón skynseminnar heldur ímyndunaraflsins.“ Kannski er þetta allt ímyndun og tálsýn?