Þó að heiti flokkanna séu ólík þá er mörgum vinstri mönnum í Evrópu tamt að tala um sjálfa sig sem jafnaðarmenn og undir þeim merkjum klappa þeir hvor öðrum á bakið þegar vel gengur. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fagnaði innilega kosningasigri Verkamannaflokksins í Bretlandi með formanni flokksins, Sir Keir Starmer. Kristrún dvaldist með föruneyti sínu í herbúðum Verkamannaflokksins í sumar og var þar mætt til að læra, allir vissu að Verkamannaflokkurinn myndi vinna sögulegan sigur og gleðin yrði við völd á kosningavökunum.
„Það var gríðarlega góð stemning þarna í gær, en það er líka mikil meðvitund um að þessum breytingum fylgir mikil ábyrgð. Þetta er auðvitað söguleg staða vegna þess hve stóran meirihluta Verkamannaflokkurinn fékk, en þau eru líka að koma inn eftir fjórtán ár af stjórn Íhaldsflokksins. Nú erum við loksins komin aftur með jafnaðarmann sem forsætisráðherra Bretlands, það er auðvitað stóra fréttin,“ segir Kristrún í samtali við Vísi 5. júlí og bætti við að Starmer væri meðvitaður um uppgang Samfylkingarinnar á Íslandi enda fór vel á þeim á meðfylgjandi mynd sem Samfylkingin dreifði. Augljóslega taldi Kristrún sig geta lært mikið af Starmer sem fór í mikla vinnu við að breyta flokknum og fjarlægja þá sem ekki voru lengur taldir heppilegir, svo sem Jeremy Corbyn, sem tók við formennsku Verkamannaflokksins 2015. Corbyn færði flokkinn til vinstri, duldi ekki áhuga sinn á að skattleggja og vann aldrei kosningar þó að íslenskir sósíalistar tali vel um hann.
Vinsældir Starmers hrapa
Í kosningastefnuskrá sinni lofaði Verkamannaflokkurinn að hækka ekki skatta á vinnandi fólk, útilokaði beinlínis hækkun virðisaukaskatts, almannatrygginga eða tekjuskatts. Nú er þetta loforð komið til endurskoðunar með fyrstu fjárlögum flokksins í 15 ár þar sem búist er við því að afleiðingar þeirra ráðstafana sem þar voru kynntar muni óhjákvæmilega valda skattahækkunum. Viðskiptadagblaðið Financial Times metur heildarhækkun skatta í þessum fyrstu fjárlögum Starmer-stjórnarinnar upp á um 40 milljarða punda og stjórnin er í mikilli vörn og vinsældir Starmer dvína hratt.
Nú er svo komið að vinsældir Sir Keir Starmer hafa hrunið meira en nokkurs annars forsætisráðherra í nútímasögunni eftir sigur í kosningunum. Eftir kosningarnar í júlí, þar sem Verkamannaflokkurinn hlaut yfirgnæfandi meirihluta, 174 þingsæti, náði fylgi forsætisráðherra hæst plús 11. En nú eftir að fjárlagafrumvarpið birtist sýnir ný skoðanakönnun frá More in Common að ánægja með störf forsætisráðherrans hefur lækkað í mínus 38 sem er nettó lækkun um 49 stig. Ed Hodgson, rannsóknarstjóri sem stýrir More in Common, talaði að vinsældir forsætisráðherrans hefðu í raun fallið af kletti, með nettó einkunnina mínus 38, sem er 49 stig frá því þegar hann tók við embætti. Einkunn Starmer er nú lægri en einkunn Rishi Sunak, fyrrverandi forsætisráðherra, sem nú situr í mínus 31 eftir sex stiga hækkun frá því hann tapaði kosningunum.
Skattahækkanir þrátt fyrir loforð um annað
Fjármálaráðherrann Rachel Reeves var ákveðin áður en hún tók við embættinu: „Ég hef ekki áform um að verða minnst sem fjármálaráðherra mikilla skattahækkana,“ sagði hún við FT í heimsókn til Washington í maí á síðasta ári. Það breytir því ekki að í gær lagði hún sem fjármálaráðherra fram fjárlagafrumvarp sem felur í sér hækkun skatta um 40 milljarða punda, mestu einstaka hækkun sem núlifandi kynslóðir hafa séð.
Skýringin er nánast utan þessa heims en Reeves heldur því fram að Verkamannaflokkurinn hafi uppgötvað „svarthol“ í ríkisfjármálum eftir að hún kom inn í ríkisstjórn, sem gaf henni aukið frelsi til að fara út fyrir loforð og stefnuskrá flokksins. Þau áttu að fela í sér smávegis af litlum huggulegum skattahækkunum sem áttu að beinast að olíu- og gasiðnaðinum (hann er alltaf ákjósanlegt skotmark skattheimtu), fjármagnseigendum og öðru eignafólki og einkarekstri. Nú blasir við að Verkamannaflokkurinn hefur svikið loforð sín á mörgum sviðum, allt frá almannatryggingum til erfðafjárskatts.
Hvernig ætlar Samfylkingin að takast á við 75 milljarða útgjaldaaukningu?
Þetta sýnir okkur að jafnaðarmenn allra landa eru líklegir til að telja sig nauðbeygða til að fara aðrar leiðir en þeir lofa. Nú hefur Samfylkingin undir forystu Kristrúnar kynnt þrjú útspil sín í stórum málaflokkum. Alls fela þau í sér aukin rekstrarútgjöld ríkisins upp á tæplega 1,75% af vergri landsframleiðslu (VLF), að því er kemur fram í bæklingi flokksins um framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum. Það er útgjaldaaukning sem nemur rétt yfir 75 milljörðum króna.
Samfylkingin lofar að þetta leiði ekki til útgjaldaaukningar því það á að ráðast í hagræðingu og skattahækkanir, svo sem að fjármagnstekjuskatturinn verði hækkaður úr 22% í 25% samhliða því að frítekjumark vaxtatekna verði uppfært með hliðsjón af verðbólguþróun svo skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt.
Samfylkingin talar nú í aðdraganda kosninga varlega um aðrar skattahækkanir, rétt eins og Verkamannaflokkurinn gerði áður en hann fann „svarthol“ breskra fjárlaga. „Við erum sérstaklega að horfa á það að einmitt hækka ekki skatta á venjulegt vinnandi fólk heldur loka skattglufum. Koma í veg fyrir að fólk sé ranglega að telja fram launatekjur sem fjármagnstekjur og losna þar með við skattbyrði. En við viljum líka bara passa upp á að við séum með jafnvægi milli tekna og gjalda hjá ríkissjóði og þess vegna viljum við innleiða stöðugleikareglu hjá ríkinu,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við Ríkisútvarpið og talar um að ná niður vöxtum og verðbólgu með betri tökum á ríkisfjármálum, aðhaldi og tekjuaukningu.