c

Pistlar:

7. nóvember 2024 kl. 10:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Donald Trump með pálmann í hendinni

Donald Trump hefur verið kosinn forseti Bandaríkjanna, sá 47. í röðinni. Sigur hans er mjög afgerandi, hann fær bæði fleiri kjörmenn og einnig hlaut hann fleiri atkvæði á landsvísu (popular vote) en keppnauturinn. Fyrstur repúblikana til að gera það síðan 2004. Sigur hans er einstakur, segir Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og undir það skal tekið. Fyrir suma kom þessi sigur á óvart en umfjöllun um kosningabaráttuna var um margt forvitnileg, jafnvel undarleg, bæði hér heima á Íslandi og einnig í Bandaríkjunum. Mikill hræðsluáróður hefur verið rekinn gegn Trump og fólki nánast talið trú um að heimurinn muni farast með kjöri hans. Það gerðist ekki á fyrra kjörtímabili hans og ólíklegt að það gerist núna.ameríka4

Pólitískur ferill Trumps hefur með undarlegum hætti samtvinnast hnignun meginstraumsmiðla í Bandaríkjunum og risi samfélagsmiðla, vaxandi skautun og tilheyrandi samsæriskenningum. Þar hafa andstæðingar Trumps verið fyrirferðarmiklir og hegðun starfsmanna og stjórnenda Twitter (og raunar annarra samfélagsmiðla) fyrir síðustu kosningar var með ólíkindum eins og Twitter-skjölin afhjúpuðu sem fjallað var rækilega um hér í pistlum.

Að venju lýstu flestir stærstu hefðarmiðlar Bandaríkjanna, svo sem New York Times og svo enska viðskiptaritið The Economist yfir stuðningi sínum við forsetaefni Demókrata. Uppþot varð í herbúðum The Washington Post, þegar eigandi þess, Jeff Bezos, bannaði ritstjóra blaðsins að lýsa yfir stuðningi við Kamilu Harris en hingað til hefur ekki verið kært á milli Bezos og Trump.

Fræga fólkið, hvort sem það kemur úr tónlist eða kvikmyndageiranum, lýsti langflest yfir stuðningi við Kamilu Harris. Hefur því verið haldið fram, að leikararnir sérstaklega séu nauðbeygðir til að lýsa yfir stuðningi, annars fengju þeir ekki verkefni.

Stýrir umræðunni

Í fyrra skiptið sem Trump var kosinn var því haldið fram að Rússar stæðu á bak við kjörið og þó að nær allir hefðu áttað sig á að það var firra þá komu líkar kenningar upp núna. Trump hundsar meginstraumsmiðlana, segir þá Fake News- eða falsfréttamiðla og fullyrðir að hann muni aldrei fá hlutlausa meðferð hjá þeim. Hann lét sig hins vegar hafa það að mæta í spjall hjá Joe Rogan, hlaðvarpsstjóra, að ráði Barrons, 18 ára sonar síns, nokkrum dögum fyrir kosningar. Þar sat hann á spjalli við Rogan í þrjá tíma og útskýrði stefnu sína rækilega. Ríflega 70 milljónir manna hafa lagt við hlustir, um það bil 20-30 sinnum fleiri en horfa á CNN að jafnaði. Hvað sem segja má um Donald Trump þá nær hann alltaf að stýra umræðunni. En það er ekkert nýtt að fjölmiðlar geri mannamun. Í eina tíð elskuðu fjölmiðlarnir Kennedy-fjölskylduna og slógu þagnarhjúp utan um hneykslismál hennar. En þá var öldin raunar önnur.aa

Skekkjur á skekkjur ofan

Bandaríkin eru mikið land með um 330 milljónir manna í 50 ríkjum sem eru gríðarlega ólík innbyrðis. 240 milljónir manna voru á kjörskrá en að lokum voru það hin hefðbundnu sveifluríki sem réðu úrslitum. Trump virðist hafa sigrað í öllum sveifluríkjunum. Rannsakendur sáu ekki fyrir þennan stórsigur Trump. Niðurstaðan núna er því áfall fyrir kosningarannsóknir en flest rannsóknarfyrirtækin vanmátu Trump. Segja má nú að Trump sé kerfisbundið vanmetinn, en þetta eru þriðju kosningarnar í röð sem hann fær mun meiri stuðning en skoðanakannanir gefa til kynna, þrátt fyrir að þau segðust vera búin að aðlaga sig að skekkjum kannana fyrri kosninga. Ástæða er til að efast um einlægni þeirra við að upplýsa kjósendur og víst er að hjá skoðanakannanafyrirtækjunum starfa miklu fleiri stuðningsmenn Demókrataflokksins en Repúblikanar. Raunar er eitt skoðanafyrirtæki Rasmusen, sem felur það ekki að það sé hliðhollt Trump, sem hefur verið merkilega nálægt að spá niðurstöðum undanfarinna kosninga. Ætli það sé þá ekki hlutlausasta skoðanakannanafyrirtækið?

Marga pistla má svo skrifa um frammistöðu Ríkisútvarpsins í umfjöllun um þessar kosningar. Hlutdrægnin og skekkjan hjá starfsmönnum og viðmælendum hefur verið með ólíkindum. Bein lína virðist hafa verið við áróðursmaskínu Demókrataflokksins þar sem hræðsluáróður ættaður þaðan var étinn upp dag eftir dag. Sorglegast er þó að prófessorar við Háskóla Íslands létu hafa sig í að taka þátt í þessu rugli, en sigur Trump er í Bandaríkjunum flokkaður sem sigur gegn menntaelítunni, sem öll styður Demókrata. Það má vel finna til með fólki sem sækir fróðleik sinn um bandarísku forsetakosningarnar til Ríkisútvarpsins. Það hlýtur að vera ringlað núna og dagskrárgerðarmaðurinn Egill Helgason segist helst vilja ræða um eitthvað annað að afloknum kosningum. „Kannski var RÚV/CNN retóríkin bara rugl,“ spyr Viðar Freyr Guðmundsson verkfræðingur á Facebook. Fleiri hugsa það sama. „Meðal annars er hægt að leiða líkur að því að úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum séu andóf gegn ákveðinni orðræðu sem hafi haft það að markmiði að breyta samfélögunum. Hugur minn er hinsvegar hjá skoðanakönnunarfyrirtækjum vestan hafs og sérfræðingum Ríkisútvarpsins íslenska í bandarískum stjórnmálum,“ skrifar Gunnlaugur A. Júlíusson hagfræðingur á Facebook.

Kosning Trump er auðvitað merkileg fyrir margra hluta sakir. Hann var 45. forseti Bandaríkjanna en tapaði svo naumlega fyrir Joe Biden 2020 og var því í framboði í þriðja sinn. Bandarískir kjósendur ættu því að vera nokkuð vel upplýstir um hvað hann stendur fyrir en Demókratar hafa sótt að honum af fádæma grimmd og eru þá tvö morðtilræði ekki talin með. Áfram er rík ástæða til að óttast um öryggi hans. Samstarfsmenn og samstarfsfólk hefur verið undir stöðugum málsóknum og hann sjálfur fengið á sig fjölda kærumála, oft í málum sem augljóslega eru rekin til að niðurlægja hann. Raunar má halda því fram að sum þessara mála snerust um að koma í veg fyrir að hann gæti boðið sig fram. Athyglisvert verður að sjá mælingar á trausti Bandaríkjamanna til dómskerfisins á næstu misserum, þar sem Demókratar voru og eru að augljóslega misnota réttarríkið til að fara á eftir stjórnmálaandstæðingi, líkt og við þekkjum frá bananalýðveldum.aatrump

Joe Biden og valdaránið

En bandarískir kjósendur létu ekki blekkjast. Vissulega voru þeir orðnir ringlaðir á framboðsmálum Demókrata. Joe Biden var augljóslega ófær um að takast á við embættið annað kjörtímabil og reyndar bendir margt til þess að svo hafi verið allt síðasta árið. Þess vegna má spyrja: Hver hefur í reynd stýrt Bandaríkjunum? Sumir töldu að kona hans, Jill, gerði það í nafni fjölskyldunnar. Eftir stórfurðulega kappræðu Bidens við Trump sáu ráðamenn í Demókrataflokknum, með Barack Obama í broddi fylkingar, að við svo yrði ekki búið og tóku snúning á lýðræðinu og settu varaforsetann Kamelu Harris í framboð. Með því að sleppa forvalinu, sem er um leið ákveðin sía, fengu stuðningsmenn Demókrata einn allra slakasta forsetaframbjóðanda sem sögur fara af. Virtist hún ekki ráða við að fara í viðtöl nema fylgja fyrirframskrifuðu handriti. Er þá ekki nefnt að Kamila Harris er líklega vinstri sinnaðasti forsetaframbjóðandi í sögu Bandaríkjanna.

Fyrir vikið var lítil innistæða fyrir framboði Kamelu Harris og augljóslega dvínuðu vinsældir hennar dag frá degi síðustu daga baráttunnar. Hún stóð á gati þegar hún var spurð um hvað hún vildi gera öðruvísi en Joe Biden og kjósendur áttuðu sig á að hún var ekki raunverulegur kostur.

Donalds Trumps bíður stórt verkefni og stuðningsmenn hans vænta þess að hann muni koma inn í embættið í janúar næstkomandi eins og stormsveipur. Þegar Repúblikanar eru með meirihluta í bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, eins og nú er, geta Demókratar ekki tafið nokkurn skapaðan hlut. Trump er því í draumastöðu. En þangað til verður fróðlegt að sjá hvernig uppgjörið verður hjá Demókrötum eftir þessa niðurlægingu. Þar munu væntanlega verða mikil átök enda flestir leiðtogar flokksins komnir að fótum fram. Áhugamenn um bandarísk stjórnmál hljóta að fylgjast vel með því.