c

Pistlar:

8. nóvember 2024 kl. 17:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er Donald Trump misskilinn umbótamaður?

Hlutabréf víða um heim tóku kipp í gær í kjölfar methækkunar bandarískra hlutabréfa, eftir að kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna. Það varð meira að segja 3% hækkun á bréfum kínverskra stórfyrirtækja. Af þessu má ráða að fjárfestar eru bjartsýnir á að Trump vilji örva markaði fremur en að hækka tolla þó að hann hafi sannarlega nefnt það, kalli bandarískir hagsmunir á slíkt. Engum dylst að Trump mun láta bandaríska hagsmuni ganga fyrir í alþjóðlegum samskiptum.aa

Fyrir fram hafa margir fjölmiðlar og greinendur verið mjög neikvæðir þegar rætt er um áhrifin af kjöri Trump. Stundum er freistandi að nota sálfræðileg hugtök eins og vænisýki um viðbrögð margra andstæðinga Trump. Hér vitna fjölmiðlar til könnunar sem Prósent gerði í vikunni en þar kom fram að aðeins einn af hverjum tíu Íslendingum styddi Trump! Enginn veltir þessari furðulegu tölfræði fyrir sér en fjölmiðlar vilja frekar ræða af hverju kjósendur Miðflokksins skáru sig þó úr en fjórir af hverjum tíu kjósendum flokksins héldu með Trump.

Engum duldist að fjölmiðlaumræðan á Íslandi var mjög neikvæð gagnvart Trump, bæði fyrir og eftir kjör hans. Það sést vel af ummælum Gylfa Magnússonar, prófessors við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Gylfi virðist líta á kjör Trumps sem eitt allsherjar bakslag í viðtali á Vísi í gær. Ólafur Þ. Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda var einnig mjög neikvæður á áform Trumps. „Það er margítrekað kosningaloforð Trumps að hækka innflutningstolla. Ekki bara á kínverska bíla eða Mexíkó heldur á allan innflutning. Þetta mun leiða af sér gagnaðgerðir annarra ríkja og ríkjasambanda og eru afskaplega slæmar fréttir fyrir heimshagkerfið, þetta mun hægja á milliríkjaverslun og ýta undir verðbólgu en það hefur verið að nást árangur í baráttu við hana,“ segir Ólafur við Vísi í gær og bætir við: „Þetta eru sérstaklega vondar fréttir fyrir Ísland sem er lítið opið hagkerfi og er háð frjálsum alþjóðlegum viðskiptum og lágum tollum. Þetta eru afskaplega slæmar fréttir fyrir okkur en við flytjum t.d. sjávarútvegsvörur og tæknibúnað til Bandaríkjanna.“ Það er þó rétt að taka fram að spurningar blaðamanna gengu oft út á að áhrifin yrðu neikvæð og svöruðu margir í samræmi við það.amerika

Neikvæðar greiningar

Enginn efast um áhrif Bandaríkjanna á alþjóðahagkerfið og pólitísk áhætta litaði umfjallanir allra greiningaraðila. Greinendur hjá Goldman Sachs reiknuðu það út fyrir kosningar að ef hugmyndir Trumps um nýja tolla á evrópskar vörur yrðu að veruleika gæti það orðið til þess að lækka hagvöxt á evrusvæðinu um eitt prósentustig. Viðskiptatímaritið Economist hefur verið mjög neikvætt gagnvart Trump og beinlínis lýst yfir andstöðu við hann, þó að þeir væru ekki endilega að lýsa yfir stuðningi við Kamelu Harris. Greinendur blaðsins fengu það út að verndarstefna Trumps gæti strax á næsta ári orðið til þess að minnka hagvöxt í Víetnam, Taívan og Kína um 0,8, 0,7 og 0,4 prósentustig. Einhver gæti hafa sagt að það hefði verið nóg að segja að áhrifin yrðu neikvæð, frekar en að senda frá sér svona spá sem hlýtur að vera mörkuð mikilli óvissu. Ekki er ástæða til að gera of mikið úr svona spám en sérfræðingar Economist spáðu því einnig að kjör Trumps mundu dempa hagvöxt í Asíu, Evrópu og löndum Rómönsku Ameríku en að stefna Harris mundi leiða til meiri hagvaxtar í þessum heimshlutum.

Eins og Trump talaði sjálfur þá þykir hann almennt líklegur til að vilja einfalda regluverkið, lækka skatta á fyrirtæki, draga úr beinum stuðningi hins opinbera við tilteknar atvinnugreinar og leggja tolla á innflutning til að efla og vernda innlenda framleiðslu. Fyrra kjörtímabilið sýnir líka efnahagsáherslur hans eins og vikið var að hér. Af tali Harris mátti ráða að undir hennar stjórn yrði regluverkið flóknara og þyngra í vöfum, skattar yrðu hækkaðir á atvinnulífið, úr 21% í 28% og stuðningur við útvalda geira yrði hækkaður og tollar jafnvel lækkaðir. Allt þetta hefur áhrif á hagvöxt, verðbólgu, fjárlagahalla, stýrivexti og stöðu Bandaríkjadals.ameríka2

Gleymdu menn að horfa á áhrif vinnumarkaðarins?

Getur verið að margt af þessu ágæta fólki eigi erfitt með að greina dýpri pólitískar ástæður sem eiga sér rætur í undirstöðum bandarísks efnahags og þá sérstaklega vinnumarkaðarins. Þorsteinn Þorgeirsson hagfræðingur birti athyglisverða greiningu í Morgunblaðinu í dag. Þar benti hann á að launabilið í Bandaríkjunum hefur aukist umtalsvert undanfarna hálfa öld. Það þýðir að raunlaun hafa stöðugt dregist aftur úr vinnuaflsframleiðni. „Vinnandi fólk hefur því ekki fengið réttlátan skerf af auknum afköstum sínum en hagnaður fyrirtækja hefur aukist jöfnum skrefum,“ skrifar Þorsteinn. Hann bendir á að Dow Jones-hlutabréfavísitalan hefur hækkað úr um 700 stigum árið 1970 í yfir 42.000 nú. Því til viðbótar má benda á að það eru ekki nema nokkur risavaxin tæknifyrirtæki, sem flest starfa í demókratavíginu Kaliforníu, sem leiða hækkun vísitölunnar. Í því sambandi má benda á ótrúlegan uppgang Nvidia en í maí síðastliðnum náði markaðsvirði félagsins að vera meira en samanlagt virði allra fyrirtækjanna í þýsku kauphöllinni og í júní tók þetta eina félag fram úr heildarvirði kauphallanna í París og Lundúnum.

Þorsteinn bendir á að raunlaun vinnandi fólks hafi staðið í stað eða hækkað lítillega en lágmarkslaun þeirra verst settu hafa hins vegar lækkað stórlega að raungildi. Hann segir að þetta ástand skýrist annars vegar af útvistun vel launaðra framleiðslustarfa til fjölmennra láglaunaríkja eins og Kína og Mexíkó upp úr 1970, sem leiddi til þess að milljónir manna færðust yfir í verr launuð þjónustustörf, og hins vegar af ógnarsterkri stöðu stórfyrirtækja á bandarískum vinnumarkaði eins og áður var vikið að. Hann telur að þetta ástand skýri af hverju Trump var kosinn og færir fram ágæt rök sem verður nú vikið að.

Hreyfingarnar að baki Trump

„Þessi þróun til aukins ójafnaðar hefur myndað stétt fólks sem áður tilheyrði miðstéttinni en telst nú til lág-miðstéttar eða lágstéttar, vegna skorts á viðunandi menntun og atvinnutækifærum,“ skrifar Þorsteinn. Hann bendir á að ástandið hafi hríðversnað í fjármálakreppunni árin 2007-2009 og þá hafi fólk tekið að andæfa ástandinu opinberlega. Þorsteinn segir að Teboðshreyfingin (2009-2010) og Occupy Wall Street-mótmælin (2011) hafi í raun verið undanfari forsetaframboðs Donalds Trumps árið 2015. „Hann gaf sig út fyrir að vilja endurreisa hag þessa þjóðfélagshóps. Hillary Clinton kallaði hávært stuðningsfólk Trumps „hin ömurlegu (deplorables)“.“

Þorsteinn bendir á að Hillary virðist ekki hafa áttað sig á að stuðningsmenn Trumps um allt land tóku þau orð til sín og að það hafi verið stjórnarstefna Bills Clintons forseta, eiginmanns hennar, sem hafi haft úrslitaáhrif í þessum efnum. Þorsteinn bendir einnig á að í forsetatíð Bills Clintons hafi NAFTA-samningurinn tekið gildi (North American Free Trade Agreement/Fríverslunarsamningur Norður-Ameríku) sem átti stóran þátt í efnahagslegum hrakningum þessa fólks og síðar í aukinni skautun í samfélaginu.donald3

Stefnubreyting Trumps

Þorsteinn bendir einnig á að þegar Trump tók við forsetaembætti árið 2017 hafi loksins verið stigið á bremsurnar með víðtækri stefnubreytingu. Hann rekur að tollar voru settir á kínverskan varning árið 2018, NAFTA-samningnum var breytt í USMCA-samninginn (samning Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó) árið 2020 og skattar voru lækkaðir í viðleitni að byggja upp framleiðslustörf á ný.

Á sama tíma var hægt á óheftu innstreymi fólks inn í landið til að draga úr undirboðum á vinnumarkaði. Fyrir vikið tóku raunlaun þeirra lægst launuðu að hækka í stjórnartíð Trumps. Í verðbólgukúfnum í kjölfar covid lækkuðu raunlaun hins vegar mikið og það ýtti undir óánægju í stjórnartíð Bidens. Það háði Kamölu Harris að hún var talin samdauna efnahagsstefnu Bidens forseta sem hafði ekki skilað árangri fyrir þorra kjósenda.

Goðsögnin um fríverslun

Þorsteinn hefur verið óþreytandi við að benda á kenningar Ravi Batra sem skrifaði bókina Goðsögnin um fríverslun (The Myth of Free Trade) árið 1992 enda aðstoðaði Þorsteinn hann við rannsóknir og skrifin og þekkir því kenningarnar vel. Þorsteinn bendir á að Batra telji að fríverslun hafi bætt hag heimsins en þar sem vel launuð framleiðslustörf hurfu í stórum stíl skertust lífskjör ótal Bandaríkjamanna en örfáir urðu vellauðugir. Áhrifin einskorðuðust ekki við þær milljónir manna sem misstu störf, heldur versnuðu lífskjör yfir 100 milljóna Bandaríkjamanna á þessum langa tíma tengd þessari þróun.

Þorsteinn setur þessa hluti í áhugavert sagnfræðilegt samhengi, og tekur þar fram aðrar greiningar sem íslenskir fjölmiðlanotendur hafa fengið. Þannig bendir hann á að til að bregðast við þessari þróun hafi auðkýfingurinn Ross Perot boðið sig fram til forseta árið 1992, utan flokka sem líklega kostaði Bush eldri endurkjör. Perot aðhylltist hugmyndir Batra og það gerði einnig hægrimaðurinn Patrick Buchanan sem bauð sig fram til forseta fyrir Repúblikana árið 1996 og Umbótaflokkinn (Reform Party) um aldamótin. Þorsteinn segir að Trump hafi um líkt leyti kynntist þessum hugmyndum og lagði þær til grundvallar efnahagsstefnu sinni í kosningunum 2016 og aftur núna 2024. Þorri stuðningsfólks Trumps býr í mið- og suðurríkjum Bandaríkjanna, en þangað sótti hann fylgi sem nægði honum til sigurs á landsvísu í nýafstöðnum kosningum.

Hugsanlega stuðlar þetta allt að því að opingáttarfólk í verslunar- og menningarpólitík á svo erfitt með að skilja þau öfl sem eru að baki endurkjöri Donalds Trump.