Það er hugsanlega eitt af undrum kosningabaráttunnar að þeir tveir flokkar sem hafa aðild að Evrópusambandinu í stefnu sinni tala einna minnst um hana. Getur verið að þeir hafi misst trúna á þessu baráttumáli sínu eða telja þeir einfaldlega að Evrópusambandið sé ekki góð söluvara núna nokkrum dögum fyrir kosningar? Hugsanlega er það reyndin og segja má að fylgi Samfylkingarinnar hafi tekið að aukast fyrir tveimur árum í kjölfar þess að áhersla á Evrópusambandið var lögð til hliðar. Frambjóðendur Viðreisnar hafa leikið sama leik undanfarnar vikur og helst ekki minnst á sambandið eftir að hafa áttað sig á því að það er ekki líklegt til fylgisaukningar. Það er því rækileg mótsögn fólgin í því ef þessir tveir ESB-flokkar ná að mynda stjórn án þess að hafa minnst á þetta helsta baráttumál sitt í sjálfri kosningabaráttunni.
Ein helsta röksemd þeirra sem vilja ganga í ESB er að með því fáist stöðugleiki. Það segir sig sjálft að lítil hagkerfi sveiflast meira en stærri og þá horfa menn sérstaklega til verðbólgu og vaxta, síður til atvinnuleysis sem er eitt helsta innanmein evrópska hagkerfisins. Það gleymist hins vegar oft í umræðunni að til þess að ganga í ESB þarf að uppfylla margvísleg skilyrði. Þar eru Maastricht-skilyrðin (e. Maastricht criteria) helst, fullnægja þarf þeim til að geta tekið upp evru sem gjaldmiðil. Skilyrðin voru innleidd með Maastricht-sáttmálanum árið 1992. Því er það svo að forsenda þess að hægt sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna er að tekið verði á ríkisfjármálunum og stuðlað að ábyrgri hagstjórn, nokkuð sem flestir stjórnmálaflokkar eru sammála um þó að þeir deili um leiðir.
Ferðalag til öruggrar hagstjórnar
Með sameiginlegum gjaldmiðli varð gerbreyting á ESB og markmiðum þess. Í stað þess að mynda pólitíska heild átti að skapa efnahagslegt risaveldi sem færði heiminum gjaldmiðil sem stæðist Bandaríkjadal á sporði. Efnahagsleg samleitni var talin nauðsynleg forsenda þess að unnt væri að taka upp evru með árangursríkum hætti. Til að tryggja þessa samleitni þurfa þátttökuríkin í Efnahags- og myntbandalaginu að uppfylla ákveðin efnahagsleg skilyrði. Skilyrðin lúta að meginþáttum efnahagsmála: verðbólgu, vöxtum, stöðugleika í gengismálum auk afkomu hins opinbera og skuldum þess. Lítum nánar á þessar kröfur:
Verðstöðugleiki. Verðbólga skal ekki vera meira en 1,5 prósentum hærri en meðaltal verðbólgu í þeim þremur ESB-löndum er hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.
Vaxtamunur. Nafnvextir langtímaskuldabréfa skulu ekki vera meira en 2 prósentum hærri en langtímavextir í þeim þremur ESB-löndum er hafa hagstæðustu verðbólguþróunina.
Stöðugleiki í gengismálum. Ríki skal hafa verið aðili að gengissamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar. Gjaldmiðill ríkisins má ekki sveiflast um meira en ±15% í kringum það miðgildi sem ákvarðað er í ERM II.
Afkoma hins opinbera. Halli á rekstri hins opinbera má ekki vera meiri en sem nemur 3% af vergri landsframleiðslu (VLF).
Skuldir hins opinbera. Skuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en sem nemur 60% af VLF eða að skuldahlutfallið stefni nægilega hratt að því marki ef það er hærra en 60%.
Í raun má taka undir öll þessi skilyrði enda má segja að þau séu vitnisburður um heilbrigða hagstjórn. Við Íslendingar ættum að einbeita okkur að því að ná þessum skilyrðum en spyrja má sig hvort við höfum nokkuð inn í myntsamstarfið að gera ef og þegar við náum þeim? Er ferðalagið ekki mikilvægara en áfangastaðurinn?
Er hægt að lifa á að sekta bandarísk fyrirtæki?
Öllum er hins vegar ljóst að flest evrulöndin eiga í mestu erfiðleikum með að standast þessi skilyrði og mótar það efnahag ESB-landa um þessar mundir. Svo mjög að andi stöðnunar og hnignunar svífur yfir vötnunum. Það var nánast átakanlegt að lesa frétt um það að kosningabaráttan á Írlandi hefur að mestu snúist um hvernig flokkarnir þar hyggjast eyða 14 milljörðum evra (um 2 þúsund milljörðum ISK) sem evrópskur dómstóll dæmdi bandaríska tæknirisann Apple til að greiða írska ríkissjóðnum vegna áætlaðra ógreiddra skatta! Er undarlegt að tilvonandi forseti Bandaríkjanna byrsti sig í átt að ESB ef þetta er samkeppnin sem bandarísk fyrirtæki þurfa að sætta sig við. Fleiri fyrirtæki en Apple hafa orðið að þola risasektir af þessu tagi.
Ef hefja á inngönguferli inn í ESB þarf að ræða ýmsar hagstærðir, meðal annars þá staðreynd að Ísland er í fjórða sæti á eftir Liechtenstein, Sviss og Lúxemborg þegar kaupmáttur í Evrópu er skoðaður samkvæmt tölum Eurostat fyrir árið 2023. Eina ríki Evrópusambandsins sem er með meiri kaupmátt en Ísland er Lúxemborg en eins og kunnugt er hafa fjölmörg fjármálafyrirtæki starfsemi í landinu vegna hagstæðs skattaumhverfis (skattaskjól). Ísland er langt yfir meðaltalinu innan sambandsins.
Svartar skýrslur um ástandið innan ESB
Uppdráttarsýki ESB hefur orðið meira og meira áberandi og undanfarið hafa birst skýrslur frá Mario Draghi, fyrrverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu og Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Þær voru unnar fyrir Evrópusambandið um stöðu efnahagsmála innan sambandsins og hvernig innri markaður þess hefur sífellt verið að dragast aftur úr öðrum markaðssvæðum og þar á meðal Bandaríkjunum, ekki síst vegna skorts á samkeppnishæfni og nýsköpun en þó einkum vegna vaxandi íþyngjandi regluverks Evrópusambandsins.
Í dag nota um það bil 340 milljónir manna í 19 löndum evruna. Þessi sameiginlegi gjaldmiðill hefur búið til það sem er kallað er evrusvæðið innan Evrópusambandsins. Sameiginlegur gjaldmiðill, studdur af Seðlabanka Evrópu, átti að vera æðsta stig hinnar efnahagslegu sameiningar. Pólitísk eining hlyti síðan að koma í kjölfarið eins og flestir forystumenn ESB hafa róið að öllum árum. Engum dylst að þetta er ekki að gerast. Fyrir okkur Íslendinga minnir staðan á hlutskipti manns sem mætir á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á mánudegi í leit að stuði þegar allir eru að pakka saman í misgóðu ástandi. Það er ekki nema von að ESB-flokkarnir tali ekki um ESB í kosningabaráttunni.