c

Pistlar:

8. desember 2024 kl. 17:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókardómur: Okkar maður í Kísildal

Starfsævi Guðmundar Hafsteinssonar (Gumma) er sannarlega óvenjuleg en hann er líklega sá Íslendingur sem hefur náð lengst á framabraut í tæknigeiranum í Kísildal í Kaliforníu. Hér er rakin viðburðaríkur feril Gumma, allt frá því að hann fékk ungur að aldri áhuga á forritun og þar til hann komst til æðstu metorða hjá Google tæknirisanum í Bandaríkjunum. Þetta er um margt eftirtektarverð frásögn og óhætt að segja lesandinn fái einstaka innsýn í bandarískan fyrirtækjaheim eins og hann gerist framsæknastur og öflugastur. Ferill Gumma, sem nú er stjórnarformaður Icelandair, er í aðra röndina saga tækniframfara 21. aldar og slík saga hefur sjaldan átt eins brýnt erindi við samtímann og einmitt nú þegar við erum að taka enn eitt stökkið, nú inn í heim gervigreindarinnar. - Heim sem Gummi hefur starfað lengi í.
Gummi_Frontur

Í bók sinni rekur Gummi kynni sín af mestu áhrifamönnum tæknigreinarinnar, goðsögnum eins og Steve Jobs hjá Apple, Mark Zuckerberg hjá Facebook-Meta og stofnendum Google, þeim Larry Page og Sergey Brin. Nafnarunan er hér ekki sett fram í tilgerð heldur vaknar hún til lífsins á spjöldum bókarinnar og auðvitað er það stórmerkilegt að góðar persónulýsingar á þessum risum bandaríska tæknigeirans. Í Kaliforníu er framtíð heimsins mótuð og einstakt að fá slíka lýsingu á því frá innanbúðarmanni. Tækninördar fá líka eitthvað fyrir sinn snúð því hér er að finna áhugavert yfirlit á nánast öllum þeim tæknibreytingum sem móta nú samskiptaheim okkar.

Undrabarn í forritun?

Gummi er ekki gamall í árum, fæddur 1975 en við fáum í gegnum sögu hans að ferðast í gegnum miklar breytingar og þá auðvitað helst forritunarheiminn. Gummi nýtur þess að alast upp í þroskandi umhverfi og rétt eins og við tölum um undrabörn á sviði íþrótta og lista þá virðist hann hafa verið undrabarn á sviði forritunar! Áhugavert er að lesa um það þegar hann fær fyrstu tölvuna í hendur:

„Mér er að eilífu minnisstæður dagurinn sem fyrsta tölvan kom inn á heimilið. Árið var 1983 og tölvan, Commodore 64, hafði komið til landsins fyrr á þessu ári. Foreldrar mínir höfðu leitað ráða hjá Oddi Einarssyni, frænda mínum, sem þótti vel að sér á þessu nýja sviði og þá vildi svo til að hann hafði nýverið tryggt sér umboðið fyrir Commodore 64. Hann færi varla að mæla með annarri tegund. Þegar foreldrar mínir komu með tölvuna heim gat ég vart hamið mig af spenningi og það þrátt fyrir að ég vissi ekkert um það hvernig hún virkaði“ (bls. 18).

Áhugamenn um forritun og þróun tölvunnar koma ekki að tómum kofum og frásögnin er oft krydduð skemmtilegum lýsingum á því hvernig Gummi tókst á við þau tæki og forrit sem buðust hverju sinni en hann hefur upplifað ótrúlegar breytingar og þróun á tækni á ævi sinni. Sá er þetta skrifar hefur stundum gaman af því að rifja upp að hafa hafið blaðamennskuferil sinn árið 1985 og þá var enn unnið á ritvél. Nokkrum mánuðum seinna gengu reyndar blaðamenn DV inn í tækniumhverfi sem Norsk Data skapaði og óhætt að segja að tölvan hafi gerbreytt starfi blaðamanna og uppsetjara. Hvernig komið er fyrir þessum starfsstéttum í dag er önnur saga en Gummi fer einmitt vel yfir þær tæknilegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma, bæði sem einstaklingar og þjóðir. Um áhrif Facebook og Google á heim fjölmiðlunnar hefur verið fjallað hér.

Foreldrar á öllum tímum hafa haft áhyggjur af þeim tíma sem börn verja í tölvur og merkilegt er fyrir uppalendur að lesa frásagnir Gumma sem er heltekinn af möguleikum tölvunnar en ákveður svo að gefa henni frí á meðan hann stundar menntaskólanámið, þar sem hann þroskar félagsþroska sinn og hefur undirbúning undir starfsferil sem verkfræðingur. En þegar í háskólann er komið vaknar áhuginn aftur og tölvan er komin á sinn stað, á nýjum forsendum.

„Fagnaðarfundir urðu með mér og tölvunni og í náminu tók ég hverja einustu einingu sem bauðst í tölvunarfræði. Nú leið mér ekki lengur eins og ég væri að pukrast í einhverju fánýti þegar ég sat við tölvuna. Núna var þetta minn framtíðarstarfsvettvangur. Ég sótti mér þá þekkingu sem ég hafði mesta þörf fyrir en auðvitað var einnig mjög verðmætt að læra nákvæmnisvinnubrögð verkfræðinnar. Námið var mjög hefðbundið og miðaði við að byggja sterkan fræðilegan grunn. Verklegi þátturinn var líka fyrir hendi og ýmsar merkilegar nýjungar kynntar til leiks, til að mynda hljóðritun. Þarna prófaði ég mig í fyrsta skipti áfram með að fá tölvu til að skilja mælt mál en þar var við mjög frumstæða tækni að etja“ (bls. 34-35).gummi 2

Stofnar fyrirtæki

Nú tekur alvaran við og í lok háskólanáms dregur lokaverkefnið Gumma inn í fyrirtækjaheim hugbúnaðariðnaðarins og fyrr en varði er hann búinn að stofna fyrirtæki og er að leita sér að tækifærum. Fróðlegt er að lesa samskipti hans við ýmsa þekkta menn í íslensku viðskiptalífi, svo sem Hannes Smárason, Svein Valfells, Hjalta Þórarinsson og Georg Lúðvíksson. Tækifærin sem ungir menn stóðu frammi fyrir voru einstök. „Hjalti vann til dæmis hjá Microsoft í ellefu ár og býr enn í Seattle og Goggi fór í Harvard og stofnaði svo Meniga, íslenskt fjártæknifyrirtæki sem enn er starfandi. Allir höfðum við svipað hugarfar. Eftir þriðja árið í háskólanum, árið 1998, töldum við þrír tímabært að við hæfum eigin rekstur“ (bls. 40)

Frásögn Gumma er ferðalag í gegnum tækniheiminn . „Internetið var orðið nokkuð útbreitt á heimilum landsmanna árið 1999. Fjölmiðlar voru komnir á netið, bloggsíður nutu vinsælda, tölvupóstur var í töluverðri notkun og netverslun var að ryðja sér til rúms. Google-leitarvélin var komin til sögunnar og íslensku bankarnir voru komnir með vefþjónustu. En þetta var allt í tölvunum. Framtíðin virtist vera þar. Farsímar voru mun skemur á veg komnir“ (bls. 47)

Á tíma netbólunnar

Í hönd fór hin svokallaða netbóla (dotcom-bóla) hér á Íslandi sem annars staðar, þar sem allir kepptust við að stofna tæknifyrirtæki. Þetta var eftirminnilegt tímabil og kannski í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem áhættufjármagn fór að streyma um hagkerfið. Gummi segist reyndar ekki minnast þessa tímabils á þennan hátt. Það hafði ekki verið svona mikið um að vera, segir hann og ætla ég að leyfa mér að vera ósammála honum þar. Það er fróðlegt hve rækilega hefur fennt yfir það þegar netbólan sprakk árið 2000 og hlutabréfavísitalan nánast helmingaðist með hrinu gjaldþrota. Hugsanlega var það vegna þess að bankabólan kom svo skjótt í kjölfarið og raunhagkerfið skaðaðist ekkert. En þeir skuldsettustu fundu svo sannarlega fyrir niðursveiflunni og margir þeirra urðu gjaldþrota. Gummi segir að eftirminnilegustu stærðirnar á þessum tíma hafi verið OZ og svo síðar CCP. Sjálfur var hann að spreyta sig við að stofna og reka Dímon hugbúnaðarhús. „Við héldum okkar striki og ég einblíndi einkum á vöruna sjálfa á þessum tíma en ekki frekari fjárfestingu og vöxt“ (bls. 51).

Þó að Dímon sé lítið og ungt fyrirtæki er það fyrr en varði komið út í hinn stóra heim og Gummi var farinn að sitja fundi með ráðamönnum Nokia í Finnlandi sem þá voru að upplifa eitthvert mesta ævintýri sem eitt fyrirtæki hefur upplifað. Ekki er langt síðan sjónvarpið sýndi sannsögulega finnska dramaþáttaröð, Mobile 101, um uppgang Nokia. Fyrirtækið var á barmi gjaldþrots en ákvað að hella sér út í nýja farsímatækni sem var að breyta heiminum. Eftir ævintýralegan uppgang missti Nokia af lestinni. Fróðlegt er að velta fyrir sér af hverju bandarísk fyrirtæki ná alltaf frumkvæðinu og ná svo að viðhalda stöðu sinni en eftir að Gummi hefur lokað Dimon heldur hann til Bandaríkjanna í nám og þar bíða síðan ótrúleg tækifæri.gummi 3

Á stóra sviðinu í Bandaríkjunum

Gummi hefur nám sitt í Bandaríkjunum árið 2003 og er fróðlegt að kynnast ferlinu þegar menn eru að reyna að komast inn í hina þekktu háskóla sem þar er að finna. Þar reyndist Hannes Smárason honum aftur heilladrjúgur. Gummi stundar nám í MIT-háskólanum eftirsótta og er nú farinn að treysta á Lánasjóð íslenskra námsmanna. Um leið er hann að stofna fjölskyldu í landi tækifæranna.

Bandaríkin eru sannarlega land tækifæranna fyrir menntað og hæfileikaríkt fólk. Því kynnist Gummi þegar hann er að velja hjá hvaða fyrirtæki hann vill starfa en í lok náms fara kostirnir að birtast og stórfróðlegt að lesa lýsingar hans og hugleiðingar um hvernig menn standa að málum. Hann var nánast kominn inn í Amazon og á þar áhugaverðan fund. „Jeff Bezos forstjóri var langstærsti hluthafi Amazon og var mættur til að eiga orð við okkur vonbiðlana. Við spjölluðum við hann um daginn og veginn. Mér er sérstaklega minnisstæð lýsing hans á því hvernig fólk hann vildi fá til starfa hjá fyrirtækinu. „Ég vil fá fólk sem er í sturtunni í sjö mínútur á morgnana og getur ekki hætt að hugsa um það hvernig væri hægt að stytta sturtutímann sinn niður í fjórar mínútur. Ég vil fá fólk sem lítur þannig á öll vandamál lífsins og kemur með það viðhorf inn í fyrirtækið,“ sagði Bezos. Hann hló síðan sínum hrossahlátri en ég tók þessari lýsingu hans alvarlega“ (bls. 76).

Að endingu ákvað hann þó að fara til Google eftir viðtöl við fimm ólíka aðila innan fyrirtækisins. Þar með er Gummi kominn á stóra sviðið. Á þessum tíma, árið 2004, var leitarvélin eina vara Google sem hafði náð verulegri fótfestu í augum almennings. „En það er auðvitað ekki hægt að segja „bara“ leitarvélin. Þeir höfðu í höndunum byltingarkennda tækni sem enginn gat keppt við að ráði. Markaðsvirði Google, 23 milljarðar dala, og Amazon, 19 milljarðar dala, var áþekkt á þessum tíma. Til samanburðar var Microsoft metið á 282 milljarða dala. Síðan hafa bæði Google og Amazon um það bil hundraðfaldast í virði og eru fjórðu og fimmtu verðmætustu fyrirtæki Bandaríkjanna“ (bls. 82).

Óvenjulegt vinnulag

Enn og aftur er hægt að undrast kraft nýsköpunar og fjármagns í Bandaríkjunum. Öll þessi fyrirtæki sem Gummi tengist með einum eða öðrum hætti stýra okkar daglega lífi með því að bjóða nýjustu og framsæknustu vörur heims. Það er einstaklega áhugavert að heyra Gumma lýsa vinnuferlum, ákvarðanatöku og vöruþróun í þessum stærstu fyrirtækjum heims og líka hvernig fyrirtækin þróast. Þegar Gummi hitti Larry og Sergey, stofnendur Google, voru átta ár liðin frá stofnun fyrirtækisins og mikið vatn hafði runnið til sjávar og Eric Schmidt kominn til starfa sem forstjóri. Eric hafði innleitt vinnureglu í starfsemi Google sem var kennd við hlutföllin 70/20/10. Gummi segir að starfsmönnum hafi verið ætlað að verja 70% af tíma þeirra við að sinna grunnskyldum við rekstur fyrirtækisins. 20% áttu að fara í minna áríðandi verkefni tengd þeim grunnskyldum, eins og að þróa aðalvöruna áfram með nýjungum. Loks áttu 10% að fara í glænýjar hugmyndir á jaðrinum þar sem óvissan væri algjör.

Hvernig þessi fyrirtæki kynna vörur sínar er líka sérlega áhugavert en næst lá einmitt leið Gumma til Apple, þar sem goðsögnin Steve Jobs var orðinn helsjúkur en stýrði samt félaginu. Gummi hafði reyndar skuldbundið sig til að vinna ekki hjá Apple þegar hann hætti hjá Google en að endingu var fyrirtæki sem hann vann hjá við að þróa raddstýringarkerfið Siri keypt af Apple. Þar með var hann kominn þangað inn og var stórfróðlegt að lesa lýsingar hans á ólíkum fyrirtækjakúltúr þessara tveggja fyrirtækja.

„Ímynd Apple í augum heimsins var að þetta væri eitt framsæknasta fyrirtæki veraldar. Í hugum fólks skipaði það sér á sama bekk og Google, Facebook og Amazon en í raun tilheyrði það allt annarri kynslóð. Apple var stofnað árið 1976 og því öldungur á þessum markaði. Það var í sama aldursflokki og Microsoft og Intel. Það er eðli fyrirtækja að breytast hægt og með árunum festast siðir og venjur í sessi sem verður sífellt erfiðara að hrófla við“ (bls. 149).

Eftir árangursríka tíma hjá Apple ákveður Gummi að hætta og hefja eigin rekstur, nánast með ekkert í höndunum og ekki annað hægt en að undrast dirfsku og áræðni hans þegar honum stóð til boða að vera mikilsverður þátttakandi í stærstu fyrirtækjum heims. En þyngdarafl peninganna er þungt og að endingu lendir hann aftur innanhúss hjá Google sem kaupir vöru og teymi hans, eftir baráttu við Facebook! Það var skemmtilegt að lesa lýsingu hans af „sölufundi“ með Mark Zuckerberg: „Mark talaði í þannig tóni að mér fannst ég nánast vera að hitta sama Mark Zuckerberg og ég hafði séð í viðtölum. Þar var ekki mjög náttúruleg félagsvera á ferð. Eitt smáatriði sem sagði ansi margt var að mér fannst hann líta kerfisbundið í augun á mér á um það bil mínútu fresti“ (bls. 190).

Eftir fimm ár hjá Google segir Gummi skilið við þessa veröld, hafði efnast vel á íslenskan mælikvarða og heildur heim. Eftir langa veru í hringiðu tækni og fjármagns kýs hann kyrrlátara líf en segir um leið: „Í vissum skilningi eru allir á byrjunarreit.“

Það er Snorri Másson, blaðamaður og nú þingmaður fyrir Miðflokkinn, sem skrifar frásögn Gumma og gerir það á lipran hátt þannig að frásögnin flæðir létt og þægilega. Það er stórfróðlegt að fá þetta ferðalag úr stofunni í Breiðholti á níunda áratugnum og alla leið í fremstu víglínu bandarískra stórfyrirtækja. Fyrir vikið fáum við sérlega áhugaverðar endurminningar, sem efnisins vegna allir eldri en tvítugir geta vel tengt við. Endurminningar sem minna okkur á hvað hlutirnir geta breyst hratt á gervihnattaröld. Langt er síðan undirritaður las jafn áhugaverða frásögn og þessa.

Gummi – Saga Guðmundar Hafsteinssonar
Höfundar: Guðmundur Hafsteinsson, Snorri Másson
Útgefandi: Almenna bókafélagið
Útgáfuár: 2024.
237 bls.