c

Pistlar:

10. desember 2024 kl. 12:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sýrland: Upplausn eða betri tímar?

Það er nokkur kaldhæðni í því að Bashar Hafez al-Assad sé nýjasti flóttamaðurinn frá Sýrlandi eftir að hafa skapað mesta flóttamannavanda seinni tíma. Veldi Assad-fjölskyldunnar er fallið eftir rúmlega hálfrar aldar ógnarstjórn. Glyshallirnar eru nú rændar og heimamenn ganga um með síma sína og mynda það sem fyrir augun ber. Allir undrast íburðinn og óhófið sem ríkti í kringum Assad-fjölskylduna á meðan landsmenn höfðu vart til hnífs og skeiðar.aasýrland

En með falli einræðisherrans og í miðjum stjórnarmyndunarviðræðum hér heima á Íslandi erum við Íslendingar minntir á út á hvað lýðræði gengur í grunni, nefnilega friðsamleg skipti á valdhöfum. Það er sú grunnhugmynd sem lýðræði byggir á því engin leið er að segja til um hvað gerist í Sýrlandi nú þegar harðstjórinn er fallinn. Við munum mæta vel hvað gerðist þegar þeir Saddam Hussein Abd al-Majid al-Tikriti og Muammar Muhammad Abu Minyar al-Gaddafi voru hraktir frá völdum í Írak og Lýbíu. Ástandið versnaði bara því það getur verið gráglettni örlaganna að harðstjórarnir geti verið límið í brotthættum samfélögum. Því miður er erfitt að vera bjartsýn um þróun mála í þessu sundraða ríki og líklega munu óbreyttir borgarar þurfa að upplifa þjáningar enn á ný. Arn­ór Sig­ur­jóns­son, fyrr­ver­andi skrif­stofu­stjóri varn­ar­mála­skrif­stofu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og sér­fræðing­ur í varn­ar­mál­um, bendir réttilega á það í samtali við Mbl.is að Sýrlendingar þekki ekki hugtakið lýðræði. Á þessum svæðum heimsins eru það aðeins Ísrael og Tyrkland sem hafa ástundað eitthvað í líkingu við það.

Við höfum tilhneigingu til að líta á lönd eins og Sýrland sem eina heild og að nýir valdhafar geti byggt á því. Á sínum tíma mundu Evrópubúar ekki annað en að Júgóslavía væri eitt land en þegar Tító féll frá kom í ljós að landið byggðu að minnsta kosti sjö þjóðir og löndin Slóvenía, Króatía, Serbía, Bosnía & Hersegóvína, Norður-Makedónía, Kósóvó og Svartfjallaland risu upp úr blóðugri borgarastyrjöld þar sem fyrrum nágrannar bárust á banaspjótum og frömdu óskiljanleg óhæfuverk.

Óskrifað blað

Það er erfitt að segja nákvæmlega hve mörg þjóðarbrot búa í Sýrlandi en niðurstaðan núna er sigur fyrir súnníta og áfall fyrir síta. Hvað meira felst í því er erfitt að segja því uppreisnarherinn er nánast óskrifað blað en ­hóp­ur­inn Hayat Tahrir al-Sham, eða HTS, hefur farið fyrir uppreisnarmönnum. Mikið veltur nú á Abu Mohammed al-Jol­ani, nýjum leiðtoga uppreisnarmanna, en hann hefur nálgast málin þannig að reyna að halda í það litla stjórnkerfi sem er fyrir í landinu og enn sem komið er verið í samtali við forsætisráðherra Assad-stjórnarinnar, Mohammad Ghazi al-Jalali.

al-Jol­ani hefur það í fortíðinni að hafa stofnað al-Kaídasveit undir nafninu al-Nusra Front. Hann hafði áður farið fyrir sams konar sveit í Írak og því er eðlilegt að honum sé tekið af varúð. Fróðlegt var að hlusta á Magneu Marinósdóttur, alþjóðastjórnmálafræðing, ræða stöðu mála í Morgunútvarpinu á Rás 2 í gær. Magnea sagði að al-Julani væri að miklu leyti þjóðernissinni og legði áherslu á að Sýrland verði ekki partur af alþjóðlegri stjórn eða falli undir stjórn erlendra hryðjuverkasamtaka. Hann styðjist að miklu leyti við íslamska trú og vilji stofna íslamskt ríki. „En að það sé bara sýrlenskt ríki“, sagði Magnea sem alla jafnan geldur varhug við þjóðernissinnum.aaasýralnd

Við vitum hins vegar að einhverskonar uppgjör er óhjákvæmilegt í Sýrlandi, ekki síst þegar menn eru búnir að fara um fangelsi landsins og frásagnir af pyntingum og fjöldadrápum Assad-stjórnarinnar fara að birtast. Þá getur orðið vandasamt að hafa stjórn á ástandinu eftir þær miklu ógnir sem hafa dunið á landinu síðan borgarastyrjöld braust þar út fyrir 13 árum.

Áfall fyrir Rússa

Hverjir skyldu nú hafa verið bandamenn Baath-stjórnar Sýrlands undir forystu Bashar al-Assad forseta? Hún hefur verið studd pólitískt og hernaðarlega af Íran og Rússlandi. Pútín Rússlandsforseti hefur stutt Assad frá byrjun stríðsins 2011 og Rússar hafa verið þátttakendur í stríðinu síðan 2015. Rússar hafa byggt upp flotastöð og flugvöll við Miðjarðarhafsströnd Sýrlands og sú fótfesta hefur verið Pútin mjög mikilsverð og þyrnir í augum Nató-ríkjanna. Þá hefur Assad einnig notið virks stuðnings frá Hezbollah-hópnum í Líbanon sem neyðst hafa til að semja um vopnahlé við Ísrael eftir að Ísraelsmenn þurkuðu út leiðtoga þeirra. Fall Assads er mikið áfall fyrir Hezbollah og gera má ráð fyrir að Írönum gangi mun verr að koma vopnum og búnaði til þeirra í framtíðinni.

Einnig má rifja upp að sýrlenski Palestínuhópurinn The Popular Front for the Liberation of Palestine (PFLP-GC) hefur stutt Assad með ráðum og dáð. Fylkingin hefur engan sérstakan stuðning meðal Palestínumanna en hún hefur einnig hreiðrað um sig í Líbanon. PFLP-GC stóð fyrir fjölda árása á ísraelska borgara á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Má þar nefna Avivim-skólarútuárásina í maí 1970 þar sem 9 börn og 3 fullorðnir féllu og árásina á Kiryat Shmona samyrkjubúið í apríl 1974 þar sem 18 voru drepnir, þar af 8 börn. Margar þær fylkingar sem nú hafa hvað mest í heitingum við Ísraelsmenn eru blóðugar upp að öxlum eftir þátttöku sína í Sýrlandsstríðinu.

Hvað gera Tyrkir?

En Nató-þjóðin Tyrkland gæti verið það land sem hefur mestan ávinning af falli Assads. Tyrkir hafa nú tvö höfuðmarkmið, að koma þeim 3,7 milljónum Sýrlendinga sem eru í Tyrklandi heim og koma í veg fyrir að Kúrdar eflist um of. Kúrdar ráða stórum svæðum í norðausturhluta Sýrlands og stefna á sjálfsstjórnarsvæði, rétt eins og þeir hafa náð að koma sér upp í Írak þar sem þeir nýttu sér fall Saddam Husseins til að efla stöðu sína. Án efa munu þeir reyna það núna í Sýrlandi. Hvað verður um hinn kristna minnihluta í Sýrlandi á eftir að koma í ljós sem og alavíta, hinum til þess að gera fámenna en þó valdamikla trúarhópi sem Assad forseti tilheyrði. Þeirra bíða erfiðir dagar.