Sum samfélagsmein geta verið svo sársaukafull að það getur tekið langan tíma þar til unnt er að ræða þau. Það átti við um útbreidda kynferðislega misnotkun kirkjunnar þjóna víða í hinum kaþólska heimi en þar gat tekið áratugi að fá niðurstöðu í málunum. Sama virðist eiga við um misnotkun og raðnauðgun þúsunda enskra stúlkna síðustu áratugi. Fórnarlömbin eru flest barnung og mörg með mjög viðkvæman félagslegan bakgrunn. Gerendurnir eru aðallega múslímar af pakistönskum uppruna. Þetta er erfið samsetning hafi menn væntingar um skynsamlega umræðu um svo viðkvæm mál.
Svo virðist sem bresk stjórnvöld hafi vonast til þess að ná að grafa þessa sögu eftir nokkrar rannsóknir og saksóknir á síðasta áratug en um málefni stúlknanna í Rochdale hefur verið fjallað áður á þessum vettvangi. Nú virðast þessar rannsóknir hafa verið fremur táknrænar og á engan hátt fullnægjandi og nú er svo komið að málið klífur breskt samfélag í herðar niður.
Þjóðarskömm
Margir Bretar upplifa mikla skömm vegna málsins og bæld reiði almennings kemur upp á yfirborðið í formi mótmæla, undirskriftasafnanna, krafna um fleiri opinberar rannsóknir en þó ekki síst í kröfunni um að einhver taki á sig ábyrgð á því að þetta skyldi gerast og að það skyldi vera þaggað niður. Hneykslismálið er nú þegar að endurmóta bresk stjórnmál og á þessari stundu engin leið að sjá hverjir munu þurfa að bera pólitíska ábyrgð. Málið snýst ekki aðeins um hið viðbjóðslega eðli glæpanna heldur þá staðreynd að öll stig breska stjórnkerfisins eru bendluð við yfirhilmingu í málinu. Það á jafnt við um hið pólitíska vald, lögregluna, saksóknara, dómstóla og félagsmálayfirvöld. Því er nú haldið fram að allir þessir aðilar hafi brugðist fórnarlömbunum.
Það er síðan ekki til að einfalda málið að ríkasti maður heims, Elon Musk, hefur fjallað mikið um það á samfélagsmiðli sínum X (áður Twitter) og beint gagnrýni sinni meðal annars að nýjum forsætisráðherra Breta, Sir. Keir Starmer, sem gegndi einmitt stöðu ríkissaksóknara þegar hluti málanna var til rannsóknar. Margir gagnrýna Musk harðlega fyrir aðkomu hans að málinu og ásaka hann um að dreifa villandi ummælum á meðan aðrir segja að frumkvæði hans geri það að verkum að það verði ekki þaggað niður úr þessu. Ómur af málinu hefur borist inn í íslenska umræðu og þáttastjórnandinn Egill Helgason gagnrýndi Elon Musk mjög fyrir sinn þátt. Aðrir benda á að ekki eigi að einblína á þá sem taka þátt í umræðunni heldur eigi að ræða þá glæpi sem sannarlega hafa verið framdir og hafa stundum komið til kasta dómstóla.
Kerfisbundin þöggun
Það var fróðlegt að lesa grein blaðamannsins og dálkahöfundarins Dominic Green á vefnum The Free Press (The Biggest Peacetime Crime - and Cover-up - in British History) en hann rekur málið í því sögulega samhengi sem er nauðsynlegt til að skila atburðarásina. Green bendir á að þöggun málsins eigi sér langan feril. Þannig hafi félagsráðgjafar verið hræddir til að þegja um leið og lögreglan á stöðunum hunsaði, afsakaði og studdi jafnvel barnaníðinga í tugum borga. Á sama tíma hafi háttsettir embættismenn innan lögreglunnar og í innanríkisráðuneytinu vísvitandi forðast aðgerðir, allt í nafni þess að viðhalda því sem þeir kölluðu „samfélagstengsl“ (community relations). Allt þetta kom ágætlega fram í leikinni mynd, Þrjár stúlkur (Three Girls), um atburðina sem Ríkisútvarpið sýndi fyrir nokkrum árum.
Svo rammt hafi kveðið að þessari þöggun að sveitarstjórnarmenn og alþingismenn höfnuðu beiðni um aðstoð frá foreldrum barna sem hafði verið nauðgað. Góðgerðarsamtök, frjáls félagasamtök og þingmenn Verkamannaflokksins sökuðu þá sem ræddu þessi hneykslismál um kynþáttafordóma og íslamfóbíu. Fyrir vikið hundsuðu fjölmiðlar málið að mestu eða gerðu lítið úr þessu risastóra fréttamáli. Green bendir á að mikið af fjölmiðlaelítunni í Bretlandi hafi í raun tekið þátt í að halda umræðunni í lágmarki og stutt þannig við vilja stjórnmálanna í Westminster.
Green segir að allt hafi þetta verið til að verja misheppnaða ímynd fjölmenningar og fyrir vikið hafi menn forðast að spyrja áleitinna spurninga um mistök í innflytjendastefnu og aðlögun. Hann segir að þetta hafi verið gert vegna þess að menn hafi verið hræddir við að vera kallaðir rasistar eða íslamsfóbískir. „Þeir gerðu þetta vegna þess að hefðbundið stéttasnobb Bretlands hafði runnið saman við hið nýja snobb pólitískrar rétthugsunar,“ skrifar Green.
En allt þetta gerði það að verkum að enginn veit nákvæmlega hversu mörgum þúsundum ungra stúlkna var nauðgað né í hve mörgum bæjum víða um Bretland þetta viðgekkst allt síðan á áttunda áratug síðustu aldar.
Tengist innflytjendum frá Pakistan og Bangladesh
Það sem við vitum er að miðja þessara atburða er í gömlu iðnaðarsvæðunum í norðurhluta Englands eða Miðlöndunum, þar sem innflytjendur frá Pakistan og Bangladesh settust að á sjöunda áratugnum. Margir heimamenn segja að tæling (grooming) og nauðganir hafi hafist skömmu síðar. Í Rotherham, hinni heldur niðurníddu borg í Yorkshire þar sem hneykslið kom fyrst upp, var lögreglu og sveitarstjórnarmönnum á staðnum tilkynnt um kerfisbundna tælingu og kynferðisofbeldi strax árið 2001.
Fyrstu sakfellingar náðust ekki fram fyrr en árið 2010, þegar fimm karlmenn af pakistönskum uppruna voru dæmdir í fangelsi fyrir margvísleg brot gegn stúlkum, allt niður í 12 ára aldur.
Brotamennirnir snéru sér kerfisbundið að viðkvæmustu stúlkunum, fátækum og föðurlausum, börnum á hjúkrunarheimilum og buðu nammi, mat, leigubílaferðir, áfengi og eiturlyf. Þeir nauðguðu stúlkunum, sendu þær í gegnum fjölskyldu- og vinatengslanet, „pimpuðu“ þær inn á svipuð tengslanet í öðrum borgum og fleygðu þeim síðan þegar þær náðu sjálfræðisaldri. Frásagnirnar eru vægast sagt átakanlegar og óhugnanlegar.
Afleiðingar stéttaskiptingar?
Þetta mynstur var endurtekið í allt að 50 borgum víðs vegar um England, þar á meðal í hinni fögru Oxford og frjálslyndu Bristol. Rannsókn árið 2014 taldi að alls 1.400 stúlkum hefði verið raðnauðgað í Rotherham einni. Þingmaður hefur varpað fram tölunni 250.000 stúlkur í umræðum á breska þinginu.
Hugsanlega býr að baki skuggi stéttaskiptingar í Englandi. Í nýlegri framhaldsþáttaröð sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu, Skugginn langi (The Long Shadow), er sannsöguleg frásögn um leitina að raðmorðingjanum sem kallaður var „kviðristan frá Yorkshire“. Sögur fórnarlamba hans og vinnubrögð lögreglunnar eru þar í forgrunni. Yfir þúsund lögregluþjónar tóku þátt í leitinni sem stóð yfir frá 1975 til 1981 og varð rannsóknin til þess að breska lögreglan breytti verklagi sínu til frambúðar. Undir niðri var átakanleg vanhæfni lögreglunnar sem skapaðist af fordómum sem sóttu fóður sitt í hið stéttskipta þjóðfélag sem hefur svo lengi verið við lýði í Englandi.