Allt að 17 til 19% þeirra sem eru á vinnumarkaði teljast óvirkir en undir þá skilgreiningu falla þeir sem mæta til vinnu, en reyna að komast upp með að gera sem minnst og láta sig síðan hverfa á slaginu. Sjálfsagt kemur svona tölfræði á óvart en þó er margt sem styður þessar niðurstöður, svo sem sífelld aukning þess að fólk sé frá störfum vegna kulnunar (e. burnout) í starfi.
Á móti eru um 34 til 36% starfsfólks á vinnumarkaði virkir starfsmenn sem svo sannarlega skila sínu. Hér er byggt á niðurstöðum sem kynntar voru á vinnustofu sem Dale Carnegie hélt í samvinnu við Mannauð, félag mannauðsfólks á Íslandi, fyrir skömmu. Vísir ræddi við Jón Jósafat Björnsson, framkvæmdastjóra Dale Carnegie, fyrir stuttu um þessar niðurstöður sem hefðu hugsanlega átt að vekja meiri athygli. Það er allt of lítið gert af því að fjalla um þróun vinnumarkaðs í samhengi við aðra þróun, svo sem breyttar þarfir samfélagsins, breytta sýn kynslóða og þó ekki síst breytta samsetningu þjóðarinnar og aldurssamsetningu.
Tölurnar sem Jón Jósafat vísar í eru niðurstöður rannsóknar Maskínu á vinnumarkaði, en síðustu tólf árin hefur Maskína, áður MMR, mælt virkni starfandi fólks á vinnumarkaði. Til viðbótar hefur Dale Carnegie rýnt í þróunina erlendis frá og þá sérstaklega meðal annars hvað ráðgjafafyrirtækið McKinsey telur mikilvægt að vinnustaðir horfi til í mannauðsmálum næstu missera.
Bullstörfin
Margt í þessum rannsóknum kemur kemur ágætlega saman við skrif og kenningar mannfræðingsins David Graeber (1961-2020) sem var fjallað um í pistli hér fyrir sex árum. Graeber skrifaði bókina Bullshit Jobs: a Theory. Graeber rannsakaði vinnumarkaðinn með aðferðum mannfræðinnar. Hann sagði að furðuoft fengi hann þau svör þegar spurt er um störf viðmælenda að þau séu í raun hálfgert bull (e. bullshit). Fólk sé spurt hvort starfið sé nauðsynlegt og ef viðkomandi væri ekki að gegna því, hvort það yrði ráðið á ný í starfið. Allt upp undir 40% viðmælenda gáfu eigin störfum falleinkunn. Með öðrum orðum þá taldi 40% vinnuafls að störfin sem þau voru að vinna væru tilgangslítil og í raun algert bull! Þegar nánar var gengið á þá sögðust þeir hugsanlega sinna starfinu af einhverri alvöru í einn til tvo tíma í viku og þá helst með því að svara tölvupóstum. Öðru væri ekki til að dreifa.
Graeber sagir að þessi svör hafi fengið hann til að huga að samsetningu starfa í dag og hvernig þau hafi breyst. Hann taldi að ekki væri hægt að leita skýringa í aukningu óskilgreindra þjónustustarfa, þau væru um 20% eins og þau hefðu verið í áratugi. Þess í stað fann hann hóp sem samanstóð af óskilgreindum skrifstofustörfum, einhverskonar sístækkandi millilagi skrifstofufólks sem hefur enga sérstaka kvöð um að skila verkum frá sér. Ef fólk upplifir starfið tilgangslítið verður allt fljótt að bulli!
Andleg uppsögn
Á vinnustofunni var rætt um fjögur atriði sem Jón Jósafat segir að þeir mæli með að vinnustaðir horfi sérstaklega til á þessu ári. Þar á meðal er það sem kallað er „andleg uppsögn“ en hún á að geta gefið vísbendingu um að það vinnuumhverfi sem hér ríkir sé ekki að henta þeim kynslóðum sem eru að koma inn á vinnumarkaðinn.
Vinnusemi og trú á að vinnan skilgreini fólk og fyrirtæki hefur verið rík meðal Íslendinga enda ekki langt síðan hér voru mjög langir vinnudagar hjá mörgum stéttum. Síðasta áratug höfum við hins vegar siglt inn í styttingu vinnuvikunnar en samfara því höfum við séð margvíslegar breytingar á afstöðu fólks til vinnu.
En víkjum aftur að hugtakinu „andleg uppsögn“. Það felur meðal annars í sér að viðkomandi starfsmaður er í raun búinn að segja upp í huganum, mætir til vinnu en er þó eins og „fjarverandi“ í vinnunni. Þá er sú skuldbinding og helgunin sem allir vinnustaðir sækjast eftir hjá sínu starfsfólki ekki lengur til staðar. Það hlýtur að vera talsvert áfall, bæði fyrir viðkomandi starfsmenn og atvinnurekendur þegar svo er komið.
Í viðtalinu við Vísi bendir Jón á nokkur atriði einkennandi fyrir þennan hóp starfsfólks. Meðal annars að þeir geri eins lítið og komist verður upp með. Þeir mæta í vinnu en sinna aðeins lágmarksskyldum og nýta svo allan rétt til að vera fjarverandi, svo sem veikindadaga.
Jón segir ýmsar skýringar á því hvers vegna andlega uppsögnin er að sýna sig svona áberandi á vinnumarkaði um allan heim. „Forgangsröðun og gildi fólks einfaldlega breyttist í kjölfar Covid. Nú er fólk meira að huga að sjálfum (svo!) sér og sinni heilsu frekar en að hugsa um vinnuveitandann eða starfið. Þetta á sérstaklega við yngri kynslóðir sem sjá enga ástæðu til þess að vinna baki brotnu fyrir einhverja kapítalista úti í bæ.“
Kynslóðaskipti
Þegar svona er komið hlýtur það að skapa mikil vandkvæði á vinnustað. „Sumir rugla andlegu uppsögninni (svo!) við stóru uppsögninni, eða The Great Resignation sem Jón Jósafat segir að hafi orðið áberandi á heimsvísu í kjölfar Covid. „Andlega uppsögnin er annað fyrirbæri, skilgreint á ensku sem The Quiet Quitting og hún er mest áberandi hjá yngri kynslóðum; Z-kynslóðinni og að hluta til Millenium kynslóðinni,“ segir Jón en til skýringar á því hvaða aldurshópar tilheyra henni er gott að hafa til hliðsjónar yfirlit yfir þær fjórar kynslóðir sem nú eru starfandi á vinnumarkaði, eins og það kemur fram hjá Jóni
Baby Boomers er fólk sem fætt er á tímabilinu 1946-1964.
Kynslóð X er fólk fætt tímabilið 1965 til 1979.
Millenium er aldamótakynslóðin, fædd 1980 til ársins 1994.
Z-kynslóðin er fólk fætt 1995 til 2012.
Það er merkilegt að lesa haft eftir Jóni að mælingar sýni að skortur á væntumþykju í vinnunni skipti unga fólkið sérstaklega miklu máli. Það vilji einfaldlega upplifa ákveðna foreldravæntumþykju frá yfirmanni sínum, eitthvað sem er elstu kynslóðunum óskiljanlegt. Enda er það svo að stjórnendur, sem eru flestir um og yfir fimmtugt, líta allt öðruvísi á málin. Því sé staðan sú að virknin er að mælast svo ólíkt á milli kynslóða og það telur Jón að sé alltaf vísbending um að eitthvað sé að gerast.
Fáir hafa gaman af því sem þeir gera
Í þessu ljósi er forvitnilegt að skoða tölur sem Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, birti í fyrirlestri sínum hjá Samtökum fyrirtækja í fjármálaþjónustu fyrir viku. Hilmar Veigar benti á að það að vinna sé ekki nema nokkur þúsund ára gömul skilgreining. Það er auðvitað rétt að því leyti sem slík afmörkun fangar tilfærsluna frá hjarðmennsku til skipulegri borgarsamfélaga. Sagnfræðiprófessorinn Yuval Noah Harari segir í bók sinni Sapiens að þá hafi mannkynið gert mistök og verið eftir það bundið á klafa vinnu og þrælkunar í stað þess að reika um engi og tún og lifa í sátt við náttúruna. Þetta er bæði einföldun á kenningu Harari og því sem við var að glíma á þeim tíma.
Hilmar Veigar benti á að nú séu um 5 milljarðar jarðarbúa á vinnualdri. 1,3 milljarður hafi vinnu en 3 milljarðar vildu gjarnan vinna. En stærstu tíðindin er sú fullyrðing Hilmars Veigars að aðeins 200 milljónir hafi gaman af því sem þeir eru að gera. Sé það rétt er það sannarlega umhugsunarvert.