c

Pistlar:

15. febrúar 2016 kl. 11:39

Soffía Bærings (soffiadoula.blog.is)

Nokkur ráð til að bæta nætursvefn ungbarna

Svefn og hvíld er okkur öllum mikilvægur, það er mikilvægt fyrir lítil börn að hvílast vel og hvíldin skiptir okkur foreldrana líka máli, því svefninn hefur bein áhrif á líðan okkar.
Það er eitt og annað hægt að gera til að gera svefnumhverfið betra og auka líkurnar á að litla krílið sofi í gegnum nóttina.
Þó verður að hafa í huga að svefnlausnir eru ekki skyndilausnir, það tekur tíma að skapa nýja rútínu og yfirleitt mjakast þetta aðeins áfram, skref fyrir skref. Börn eru líka æði ólík og sum börn eru fljót að koma sér í svefnrútínu meðan önnur þurfa mikla aðstoð.
Lykilatriði í bættum svefnvenjum er rútína, endurtekning og ró og að lokum næst takmarkið langþráða, að sofa í gegnum nóttina.  Hér eru nokkur ráð sem geta bætt og lengt svefn barna á tiltölulega einfaldan og áreynslulítinn hátt.
 
1) Gættu þess að það sé ekki of heitt í herberginu þar sem barnið sefur og það ekki ofklætt. Hús og herbergi á Íslandi eru yfirleitt mjög heit og oft er hreinlega of heitt í svefnherbergjunum, fyrir börn og fullorðna. Of mikill hiti (nú eða kuldi) veldur því oft að börn vakna, þeim líður ekki vel og börn með viðkvæma húð eru sérstaklega viðkvæm fyrir þessu. Það getur verið betra að athuga líkamshita barnsins en að finna hendur eða fætur til að átta sig á hvort að hitastigið er rétt því hendur og fætur eru oft aðeins kaldari. Með því að passa að hitinn sé um 18-20 gráður er líklegra að barnið sofi.
 
2) Hafðu svefnstaðinn kósý. Það skiptir máli hafa svefnstaðinn eftirsóknarverðan og kósý, notalegt umhverfi þar sem auðvelt að koma sér vel fyrir. Mörgum börnum finnst gott að hafa eitthvað þétt við sig svo það getur borgað sig að hafa svefnrýmið ekki of stór. Það getur líka borgað sig, ef hægt er, að aðskilja svefnstað og leikstað. Rúmið er staðurinn þar sem allt er í ró og maður tengir við að í rúminu (svefnstaðnum) er sofið.
 
3) Einfaldur svefnstaður er líka mikilvægur, þar er bara það sem þarf en ekkert annað aukadót. Það er auðveldara að sofna í umhverfi sem er fábreytt og einfalt en þar sem augnáreiti er mikið. Bangsar, dúkkur og dót ættu því að vera í lágmarki sem og hringlur og raftæki. Sæng og uppáhaldsbangsi eða dúkka er alveg nóg. Fyrir utan hve mikið aukahlutirnir geta truflað, safnast ryk í þá.
 
4) Hafðu daglúr og nætursvefn ólíkan. Það skapar vissu fyrir barnið að venjast því að sofa í rúminu sínu á nóttunni en t.d. í vagni á daginn. Þannig áttar það sig á með tímanum að rúmið þýðir langur svefn. Það skiptir líka máli að hafa dimmt á nóttunni þegar sofið er og bjart á daginn.
 
5)  Skapaðu svefnrútínu því rútína skapar öryggi. Með afslöppuðum háttatíma sem er alltaf eins fer barnið fljótt í svefngírinn, þekkir þegar rútínan byrjar og fer ósjálfrátt að stilla sig inn á svefn. Eitthvað sem virkar fyrir fjölskylduna t.d. bað, náttföt, burstatennur, lesa bók, slaka á og sofa. Rútina er líka mjög gagnleg fyrir foreldrana því á erfiðari dögum þegar maður er þreyttur er auðveldara að koma sér í gegnum kvöldið ef rútínan er í lagi.
 
6) Gættu þess að ofsvara ekki barninu. Mörg börn rymja og stynja og láta heyra í sér en eru í raun enn sofandi. Því er gott að venja sig á að hlusta og hinkra og átta sig á stöðunni áður en maður fer inn og bregst við, oftar en ekki halda krílin áfram að sofa.
 
7) Notaðu svefnhljóð, gerðu alltaf sama hljóðið þegar þú heyrir að barnið er að rumska og gera sig líklegt til að vakna, hljóð eins og uss eða annað róandi suðandi hljóð, veitir barninu vissu um að foreldrið er til staðar og gefur því skilaboð um að halda áfram að sofa.
 
8) Andaðu djúpt og yfirvegað, þegar við öndum meðvitað rólega skilar það sér til barnsins og það heldur ró sinni og sofnar frekar.
 
Kannski viltu vita meira um svefn? Það er námskeið um svefn barna 1. mars í Lygnu sjá nánar hér
 
Soffía Bærings

Soffía Bærings

Soffía er doula og hefur verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja konum í gegnum fæðingu. Hún er áhugakona um mannréttindi fæðandi kvenna og velferð nýrra fjölskyldna.Hún heldur úti síðunni www.hondihond.is

Meira